Einn stærsti blómadagur ársins á sunnudaginn

Konudagurinn er á sunnudaginn og má með sanni segja að þessi dagur sé einn stærsti ef ekki stærsti blómadagur ársins enda hefur sú hefð skapast í gegnum áranna rás að menn gefi konum sínum konu-dagsblóm af þessu tilefni.

Þessi hefð, að menn gefi konum blóm í tilefni konudagsins, virðist hafa hafist um miðjan sjötta áratug síðustu aldar, en þá tóku blómasalar að auglýsa konudagsblóm. Upphafsmaður þessarar hefðar mun hafa verið Þórður á Sæbóli í Kópavogi, en fyrsta konudagsblaðaauglýsingin sem hefur fundist var frá Félagi garðyrkjubænda og blómaverslana árið 1957.

Kópavogspósturinn kom við í blómversluninni 18 Rauðar Rósir í Hamraborginni og spurði Diddu eiganda verslunarinnar hvort þetta væri mikill stemmningsdagur? ,,Já, heldur betur. Stemmningin byrjar strax á föstudegi og nær hámarki á sunnudaginn. Þetta er einstaklega skemmtileg helgi,” segir Didda.

Og má með sanni segja að þetta sé einn stærsti eða stærsti blómadagur ársins? ,,Já, algjörlega og hann er alltaf að stækka.”

18 Rauðar Rósir bjóða upp á fjölbreytt úrval fallegra blóma ásamt gjafavöru

Og er menn duglegir að viðhalda þessari hefð, sem virðist hafa orðið til fyrir nærri 70 árum, og versla konudagsblóm fyrir konuna? ,,Já, þeir eru mjög duglegir og láta sig jafnvel ekkert muna um það að standa í röð allan daginn.”

Eru rósirnar alltaf vinsælastar á konudaginn eða hefur það eitthvað breyst í gegnum tíðina með meira úrvali blóma? ,,Já, þeir eru að kaupa allavega blóm, en þó mikið blómvendi með rósum.”

Hvernig er það síðan, eru menn að kaupa tilbúinn blómvönd, láta velja fyrir sig, eða eru alltaf einhverjir sem vita nákvæmlega hvaða blóm þeir ætla að kaupa? ,,Þeir þekkja flestir sínar konur, en það eru auðvitað alltaf einhverjir sem vilja láta velja eða setja saman fallegan blómvönd fyrir konuna.”

Og konum þykir alltaf jafn vænt um að fá blóm frá eiginmönnum sínum og kærustum? ,,Já,
heldur betur og ekki eingöngu á konudaginn heldur einnig alla aðra daga ársins,” segir Didda brosandi.

Og hvenær opnar þú svo á sunnudaginn? ,,Við opnum strax klukkan 8 um morguninn því þá koma m.a. þeir sem hafa verið á næturvakt.”

Þess má geta að Konudagur er fyrsti dagur mánaðarins góu í gamla norræna tímatalinu, sem er sunnudagurinn í 18. viku vetrar á milli 18. og 24. febrúar. Rétt eins og fyrsti dagur mánaðarins þorra er bóndadagurinn. Þann dag minntust bændur og eiginmenn húsfreyjunnar með því að fagna góu, sem færir með sér vaxandi birtu og vorinnganginn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar