Einn fjörugasti og skemmtilegasti viðburður ársins í Kópavogi

Símamótið er einn fjörugasti og skemmtilegasti viðburður ársins í Kópavogi. Bærinn iðar af lífi þessa daga sem mótið stendur yfir enda yfir þrjú þúsund fótboltastelpur sem taka þátt og þeim fylgja fjölskyldur sem eru duglegar að mæta til að hvetja og fylgjast með. 

Í ár er annað skipti sem ég fæ þann heiður að setja mótið og ég hlakka mikið til, þvílík upplifun að sjá allan þennan fjölda stúlkna sem eru mættar til að keppa en ekki síður til að hafa það skemmtilegt innan vallar og utan. Saga fótboltaiðkunar kvenna er löng í Kópavogi og við erum mjög stolt af henni, Símamótið er sannarlega merkur hluti hennar.

Símamótið hefur verið haldið í Kópavogi frá árinu 1985 og hefur átt sinn samastað í Kópavogsdal allan þann tíma. Fyrir nokkrum árum var Fossvogsdal bætt við og það hefur reynst góð viðbót. Á báðum svæðum er fyrirtaks aðstaða sem ég vona að börn og fullorðni njóti vel. 

Kópavogur er barnvænt sveitarfélag og löngum hefur verið lögð áhersla á að aðstaða til íþróttaiðkunar væri til fyrirmyndar. Það er gaman að fá góða gesti til þess að njóta hennar með okkur og nú sem fyrr ánægjulegt að vera vettvangur þessa fjölmennasta fótboltamóts landsins.

Umgjörð er öll hin glæsilegasta og óska ég Breiðablik til hamingju með hversu vel að verki er staðið.
Að lokum langar mig til þess að hvetja mótsgesti til þess að njóta daganna í Kópavogi. Sundlaugarnar í bænum eru frábærar, útivistarsvæðin hér í dalnum og í efri byggðum sömuleiðis. Þá má ég til með að benda á menningarhús bæjarins sem eru frábær heim að sækja. Ég óska keppendum góðs gengis á Símamótinu. Verið velkomin í Kópavog og góða skemmtun.

Kveðja frá Ásdís Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogs

Mynd: Ásdís Kristjánsdóttir fær aftur þann heiður í ár eins og í fyrra að setja Símamótið í kvöld eftir skrúðgönguna.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar