Eini flokkurinn sem þú getur treyst til að spyrja óþægilegu spurninganna

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum þar sem brýn þörf er á breytingum. Við finnum fyrir áhrifum efnahagsástandsins, húsnæðisskorti, loftslagskrísu og skorti á trausti til stjórnmálanna. Í þessum áskorunum leynast þó tækifæri – Píratar eru með lausnir fyrir nútímalegt, sanngjarnt og sjálfbært samfélag.

Við viljum að þú ráðir

Í stað hefðbundinnar stjórnmálamenningar, þar sem valdið kemur ofan frá og almenningur horfir vanmáttugur á, byggja Píratar á því að efla fólk til þátttöku. Við trúum á lýðræði, þar sem upplýsingaflæði er skýrt, aðhald raunverulegt og spilling fær hvergi rými til að þrífast. Með því að tryggja gegnsæi og réttlátt kerfi leggja Píratar grunninn að samfélagi þar sem allir fá jöfn tækifæri, ekki bara bestu vinir aðal.

En til að þessi framtíð verði að veruleika þarf að grípa til aðgerða strax. Píratar vilja taka á spillingu, hvar sem hún er, og tryggja að reglur séu ekki aðeins á blaði heldur framfylgt af festu. Nauðsynlegt er að styrkja eftirlitsstofnanir, tryggja sjálfstæði þeirra og koma í veg fyrir að valdamiklir aðilar geti komist upp með misnotkun valds. Við þurfum að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og tryggja að samfélagið þjóni almenningi en ekki sérhagsmunum.

Setjum velsæld í forgang

Stærstu vandamál heimsins, eins og ójöfnuður, loftslagsbreytingar og skemmdir á náttúrunni, sýna að núverandi kerfi virka ekki lengur. Velsældarhagkerfi bjóða aftur á móti upp á lausnir sem taka jafnt tillit til fólks, náttúru og samfélagsins. Markmiðið er að skapa jafnvægi milli efnahags, umhverfis og velferðar með sjálfbærni í fyrirrúmi.

Sjaldan hefur þörfin fyrir flokk sem stendur vörð um mannréttindi, gegn spillingu og í þágu almennings og loftslagsins verið eins brýn og nú. Með Pírötum færðu stjórnmál sem byggja á gegnsæi, ábyrgð og réttlæti.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson þingmenn Pírata og skipa 1. og 2. sæti á lista Pírata í Suðvesturkjördæmi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar