“Eina sem skiptir mig máli er viðhorfið”

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2. – 3. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sem fram fer 12. mars næstkomandi. Á þeim tímamótum hef ég verið að líta aðeins til baka, hvað ég hef fram að færa og hvað hefur mótað mig sem einstakling. Hvaða einstaklinga ég hef hitt á lífsleiðinni og hverjir hafa haft áhrif á mig.  

Þegar ég var í fyrsta skipti í leiðtogahlutverki og með mannaforráð, hafði ég framsýnan og flottan leiðtoga sem ég leit upp til sem yfirmanns. Þegar ég var nýlega ráðinn í starfið þurfti ég sjálfur að ráða inn tvo starfsmenn og var það í fyrsta skipti sem ég var í því hlutverki að ráða sjálfur starfsmenn.

Eðlilega vildi ég standa mig vel í þessu nýja verkefni og lagði ég gríðarlega vinnu í að yfirfara ferilskrár og kynningarbréf. Ég varði miklu tíma einn í fundarherbergi að yfirfara skjölin og vega og meta umsækjendur um störfin, menntun þeirra og starfsreynslu. Ég hafði víðtækt samráð við aðra stjórnendur og kynnti fyrir þeim og fékk álit frá þeim á hugsanlegum einstaklingum í störfin. Þegar ég hafði loksins myndað mér skoðun bókaði ég yfirmann minn á fund til að kynna fyrir honum niðurstöðuna og hvaða einstaklinga ég hafði hugsað mér að taka í viðtöl fyrir störfin. Ég fór stuttlega yfir með honum hvaða vinnu ég hafði lagt í að komast að þessari niðurstöðu og lagði nokkrar ferilskrár á borðið fyrir framan hann. Ég spurði hvort hann vildi vera með í viðtölunum eða hvort hann treysti mér fyrir þessu. Hann leit ekki á ferilskrárnar, sagðist treysta mér 100% fyrir þessu og sagði svo þessa línu sem situr enn í mér í dag “eina sem skiptir mig máli er viðhorfið”. Lengri varð fundurinn ekki og hann gekk út. 

Ég sat eftir í nokkra stund og velti þessu fyrir mér og reyndi að átta mig á hvað hann ætti eiginlega við. Var hann að segja að menntun og starfsreynsla einstaklinganna skipti í raun engu máli? Eða var hann að tala um mitt viðhorf til verkefnisins og þann tíma sem ég hafði varið í það?

Síðar sagði hann mér hvað hann hefði átt við. Eftir að ég hafði sagt honum frá allri vinnunni sem ég hefði lagt í við mat á umsækjendum, hann hefði séð vinnubrögðin og að ég hafði ávallt að leiðarljósi að ráða hæfustu einstaklingana í störfin, treysti hann mér algjörlega fyrir ráðningunum.  
Ég legg ávallt metnað í það sem ég tek mér fyrir hendur. Viðhorfið sem ég myndi koma með inn í bæjarstjórn Kópavogs er einmitt þetta. Fá ég stuðning Kópavogsbúa mun ég vinna að heilindum og metnaði með hagsmuni íbúa Kópavogs ávallt að leiðarljósi. 

Sigvaldi Egill Lárusson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar