Ég upplifi frelsi og gleði og er alveg laus við einhverja biturð

Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, er nýr oddviti Miðflokksins og óháðra fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, en framboðslisti flokksins var kynntur sl. föstudag.

Þetta kemur sjálfsagt nokkuð flatt upp á marga enda Karen nýbúin að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, en Karen hefur verið bæjarfulltrúi flokksins undanfarin átta ár auk þess sem hún var varabæjarfulltrúi fjögur ár þar áður.

Vissulega eignaðist ég óvini og hælbíta líka

En hvað varð til þess að Karen ákvað nokkuð skyndilega að venda kvæði sínu í kross, eftir að hafa verið í oddvitabaráttu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir tæpum mánuði síðan, og taka að sér oddvitasætið á lista Miðflokksins og óháðra? ,,Það er alveg ljóst og hefur verið sagt áður að að mér var vegið harkalega á ósanngjarnan og heiftugan hátt. Ég jú tapaði, þrátt fyrir að hafa yfir að ráða yfirburða reynslu í sveitastjórnarmálum og á Kópavogi samanborið við alla aðra frambjóðendur í þessu prófkjöri. Hvað gerir maður þá? Nú maður hugsar sinn gang og tekur bara þeirri niðurstöðu að ekki var óskað eftir mínum starfskröftum í flokknum fyrir bæinn. Ég, ekki frekar en aðrir, vil vera þar sem mín er ekki óskað. Ég heyrði ekkert frá flokksforystunni um þessa aðför eða útreið og veit ekki betur en að þau séu bara kampakát með nið-urstöðuna. Því sá ég ekki neitt athugavert við að segja mig úr flokknum og satt best að segja virðast allir skilja það vel. Ég hef vissulega eignast marga góða vini í gegnum þetta starf sem munu alltaf vera vinir mínir. En vissulega eignaðist ég óvini og hælbíta líka sem hafa beitt sér markvisst að fækka í virkum félagsskap Sjálfstæðisfélagsins. Mér síðan býðst þetta oddvitasæti og ég tók mér tíma í að hugsa. Ég síðan slæ til og virkilega nýt mín í góðum félagsskap í litlum flokki sem er í baráttuhug og hefur allt að vinna og engu að tapa. Við ætlum að taka þetta á gleðinni og málefnunum.

Má alveg kalla þetta tækifærismennsku

En er þetta ekki ákveðin tækisfærismennska? ,,Það má alveg kalla það tækifærismennsku, ég er ekki viðkvæm fyrir því. Ég er manneskja og mér var veitt tækifæri til að halda áfram að nýta mína þekkingu og reynslu fyrir bæjarfélagið. Ég er þakklát fyrir tækifærið og gríp það með opnum hug og spennu fyrir framtíðinni. Mér er satt best að segja ótrúlega létt við að vera ekki Sjálfstæðisflokknum núna út af svo mörgu. Ég upplifi frelsi og gleði og er alveg laus við einhverja biturð.”

Mér líkar vel við langflest af stefnumálum Miðflokksins

Þú hefur verið gallhörð Sjálfstæðiskona undanfarna áratugi og trú og trygg sjálfstæðisstefnunni, má reikna með því að stefnumál Miðflokksins færist eitthvað nær sjálfstæðishugsjóninni, sem hefur varla breyst á einum mánuði? ,,Þar sem ég flokkast sem óháð í þessu í framboði þá hef ég samt sem áður kynnt mér stefnumál Miðflokksins og mér líkar þau langflest vel. Miðflokkurinn meðal annars tekur einarða afstöðu með litlum fyrirtækjum sem ég hef alltaf barist fyrir og kannski ekki fengið brautargengi innan um stórfyrirtækjastefnu Sjálfstæðisflokksins. Miðflokkurinn vill frelsi einstaklingsins sem mest, og að allir einstaklingar séu jafnréttháir og metur skoðanafrelsið hátt. Satt best að segja finnst mér mjög auðvelt að taka undir þessi stefnumál.”

Ég er enn sama kona, sko!

Þú þekkir vel til bæjarmálanna enda setið í bæjarstórn undanfarin átta ár, hverjar verða nú helstu áherslur Miðflokksins í komandi kosningum? ,,Nú erum við að fara að vinna að stefnuskrá og tökum páskana í það. Mín stefnumál eru nú líklega flestum kunnug og hafa ekki breyst. Ég er enn sama konan, sko! En núna hlakka ég til að vinna enn frekar að bættum bæ með nýju og fersku fólki og heyra þeirra áherslur.”

Verða skrautlegar kosningar

Gætu þetta ekki orðið nokkuð snúnar kosningar, átta framboðslistar í boði? ,,Jú, þetta verður skrautlegt og hættan er að atkvæði dreifist mikið og flokkar detti út líkt og gerðist 2018 þar með talið okkar framboð”.

Sama hvernig fer munum við setja hug og hjörtu í þetta

Og þér líst vel á framboðslista Miðflokksins og óháðra og hlakkar til kosningabaráttunnar? ,,Ég er ótrúlega spennt og full tilhlökkunnar. Sama hvernig fer munum við setja hug og hjörtu í þetta og reyna ná til Kópavogsbúa á jákvæðan og lifandi hátt,” segir Karen Elísabet að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar