Sunddeild Breiðabliks hefur ráðið Hilmar Smára Jónsson í starf yfirþjálfara deildarinnar og mun hann hefja störf þann 1. ágúst 2024. Fjölmargir umsækjendur voru um stöðuna bæði innlendir og erlendir þjálfarar.
Hilmar æfði sund frá barnsaldri hjá Breiðablik og tók þátt í landsliðsverkefnum á sínum sundferli. Hilmar hefur lokið BSc námi í íþrótta- og heilsufræðum frá Háskóla Íslands, sótt námskeið á vegum ÍSÍ og Sundsambands Íslands þar sem hann einnig hefur sinnt ýmsum verkefnum. Hilmar hefur frá árinu 2018 verið yfirþjálfari Sunddeildar Aftureldingar og náð þar eftirtektarverðum árangri við uppbyggingu deildarinnar.
Þá liggur beint við að spyrja; hvaða tækifæri sérð þú varðandi uppbyggingu Sunddeildar Breiðabliks? ,,Þetta er stór spurning og það er að ýmsu að huga áður en einhverjar ákvarðanir eru teknar. Ég legg mikla áherslu á ánægju og vellíðan iðkenda og að bjóða upp á gott og uppbyggilegt umhverfi innan starfsins. Ég held að það séu góð tækifæri tengd því að vera í samstarfi við aðrar deildir Breiðabliks og mögulega önnur íþróttafélög í Kópavogi. Þetta á kannski sérstaklega við um yngri iðkendur sem jákvætt er að veita tækifæri til að kynnast ýmsum íþróttum. Ég hef góða reynslu af svona samstarfi innan Aftureldingar, en sömuleiðis af því að vinna með öðrum sundfélögum í ýmsum samstarfsverkefnum fyrir lengra komna iðkendur. Það gefur þeim tækifæri að eflast félagslega og eykur fjölbreytni í ástundun íþróttarinnar,“ segir Hilmar Smári.
Af hverju sund, hvað er svona gott við það? ,,Það er vel þekkt að regluleg hreyfing bætir líkamlega og andlega heilsu, og hefur jákvæð áhrif á einbeitingu og námsárangur. Að æfa sund er skemmtilegt en jafnframt krefjandi og iðkendur læra smám saman ýmsa lífsleikni eins og markmiðssetningu, álagsstjórnun og góð félagsleg samskipti. Ég vil að innan deildarinnar verði umhverfi þar sem börn og ungt fólk geta eflst sem einstaklingar og undirbúi sig út í lífið.“
En nú er sundíþróttin einstaklingsíþrótt og virkar stundum frekar afreksmiðuð, hvernig rímar það við ofansagt? ,,Eiginlega bara mjög vel. Á fyrstu árum sundferils legg ég áherslu á skemmtilegar æfingar og sundfærni en smám saman þróast hjá flestum iðkendum áhugi á því að ná árangri, en árangur getur mælst í svo mörgu öðru en afrekum í keppni. Það er markmið okkar að leyfa hverjum einstaklingi að njóta sín á eigin áhuga og færnisviði. Margir fá smám saman áhuga og meiri metnað fyrir árangri á mótum og kjósa afreksmiðaðan feril, og Breiðablik hefur ýmsa burði til að styðja við sundmenn sem vilja afreksmiðaða þjálfun og það sést mjög vel á árangri deildarinnar á landsvísu,“ segir hann.
Eigum við eftir að sjá Sunddeild Breiðabliks rísa hærra á afrekssviðinu? ,,Deildin hefur undanfarin ár verið í topp 2-3 sætunum á Íslandsmeistaramótum og kvennalið deildarinnar sigraði Bikarmeistaramótið fyrir nokkrum árum, þetta er sterkt lið og ég ber mikla virðingu fyrir því verkefni að leiða liðið áfram. Ég hlakka til að kynnast þjálfarateyminu betur og vinna stefnumótunarvinnu innan deildarinnar. Til lengri tíma litið er ég vongóður um að við eigum eftir að fjölga iðkendum sem eiga erindi í keppni á alþjóðavettvangi og sömuleiðis að við getum veitt félögum innan landsins harða keppni, en ég vona að önnur félög sæki líka frekar i sig veðrið, því það er styrkur fyrir okkar deild og sundhreyfinguna alla að fjölga iðkendum hvort sem það er á afrekssviðinu eða til að bæta líkamlega og andlega heilsu.“
Að lokum hvernig vekur maður áhuga barna á sundi? ,,Það er vel hægt að byrja á ýmsum aldri, en það er sniðugt að gefa börnum tækifæri snemma til að kynnast vatni. Að leyfa krökkum að ná öryggi í vatni áður en farið er í skólasund eykur vellíðan, sjálfstraust og ánægju bæði í skólasundi og almennt þegar farið er í sund. Ég veit að Sunddeild Breiðabliks býður góð sundnámskeið í sumar en einnig lengri námskeið á veturna og það er um að gera fyrir foreldra að skoða það,“ segir Hilmar Smári.
Kópavogspósturinn þakkar Hilmari fyrir spjallið og óskar honum góðs gengis sem yfirþjálfari Sunddeildar Breiðabliks.
Forsíðumynd: Hilmar Smári og Arna Björg Arnarsdóttir, formaður sundeildar Breiðabliks