Ég fann bara fyrir ótrúlega mikilli gleði þegar ég lyfti loksins bikarnum. Þetta var hinn fullkomni endir,“ segir Ásta Eir fyrirliði Íslandsmeistara Breiðabliks 

Breiðablik tryggði sér nítjánda Íslandsmeistaratitil sinn í Bestu-deild kvenna sl. laugardag þegar liðið gerði marklaust jafntefli við Val að Hlíðarenda að viðstöddum 1.625 áhofendum, sem er áhorfendamet í Bestu-deildinni.

Leikurinn var mjög spennandi og átti Breiðablik fleiri færi til að skora mark og koma sér í þæginlega stöðu, en Breiðablik dugði jafntefli í leiknum til að hampa Íslandsmeistaratitlinum. Og Blikastúlkur voru vel meðvitaðar um það því síðustu 10-15 mínútur leiksins þjörmuðu Valsstúlkur vel að þeim og greinilegt var að Breiðablik hugsaði eingöngu um að verja markið og í raun Íslandsmeistaratitilinn, sem var þeirra í stöðunni 0-0.

Það tókst með mikilli samheldni og dugnaði auk þess sem stuðningsmenn Breiðabliks létu vel í sér heyra og hjálpuðu liðinu að loka leiknum.

Það var því mikil gleði í leikslok, Breiðabliks megin sem sagt, þegar dómari leiksins flautaði leikinn ef eftir að sex mínútum hafði verið bætt við í uppbótartíma.

Kópavogspósturinn ræddi við Ástu Eir Árnadóttur, fyrirliða Breiðabliks,  fyrr í vikunni, en þetta voru nokkuð súrsæt tímamót hjá henni, að landa Íslandsmeistaratitli á laugardeginum en hún tilkynnti svo á sunnudeginum að hún væri búin að ákveða að leggja skóna á hillinu, aðeins 31 árs gömul, en Ásta átti frábært tímabil, var valin í lið ársins hjá Fotbolti.net (ekki búið að velja lið ársina á öðrum miðlum), en Breiðablik fékk aðeins á sig 13 mörk í 23 leikjum í Bestu deildinni.

Svífur enn á bleiku skýi

En hvernig hefur fyrirliðinn það svona nokkrum dögum eftir að Íslandsmeistaratitillinn fór á loft, svífirðu enn um á bleiku skýi eða ertu að ná utan um þennan árangur ykkar? ,,Ég hef það bara mjög fínt. Held ég sé ennþá að ná mér niður eftir helgina, en jú svíf vissulega um á bleiku skýi,“ segir Ásta Eir.

Það var alltaf planið að vinna leikinn

Ykkur dugði jafntefli fyrir leik til að landa Íslandandsmeistaratitlinum, komuð þið inn í leikinn með það að leiðarljósi að verja markið ykkar fyrst og fremst eða ætluðu þið að sækja til sigurs? ,,Við fórum inn í leikinn til að vinna. Það var alltaf planið. Við ætluðum alltaf að vera skipulagaðar og agaðar en vildum reyna að spila okkar bolta og halda áfram að gera það sem við höfum verið að gera undanfarið.“ 

En er þetta ekki alltaf í undirmeðvitundinni hjá leikmönnum að jafntefli dugi til sigurs, þannig að leikmenn verði varfærnari? ,,Jú, eflaust, held það hafi alveg aukist undir lok leiks, að þá var mikilvægt að klára þetta og halda markinu hreinu.“ 

Blikastúlkur fögnuðu að vonum innilega þegar Íslandsmeistaratitillinn var í höfn á meðan Valsstúlkur voru í sárum sínum

Þá missti ég smá andann

Síðustu 10-15 mínútur þá þjörmuðu Valsstúlkur vel að ykkur og þá fannst manni að þið væruð komnar í það fyrst og fremst að verja Íslandsmeistaratitilinn, sem var ykkar með jafntefli, en þið hreinsuðu yfirleitt vel frá markinu í stað þess að reyna að spila – er það rétt metið og hvernig upplifðir þú þessar síðustu mínútur? ,,Mér fannst við ná að gera þetta mjög vel í lokin. Þær vissulega lágu á okkur síðustu mínúturnar og við náðum ekki að halda nógu vel í boltann enda komnar frekar lágt á völlinn, en jú þetta var soldið spurning um að koma boltanum eins langt frá markinu og hægt var. Fann samt aldrei fyrir stressi, nema þegar Fanndís fékk færið sitt í lokin, þá missti ég smá andann en annars leið mér mjög vel allan tímann.“

Þvílíkur stuðningur úr stúkunni

Og þú kallaðir eftir stuðningi frá Blikum úr stúkunn og þeir brugðustu ekki. Var gott að heyra hvatninguna síðustu mínútur leiksins þegar þið voruð að verjast? ,,Þetta var bara ógleymanlegt! Þvílíkur stuðningur og ég vil bara þakka öllum þessum Blikum sem ég vissi að væru þarna úti fyrir að koma og hjálpa okkur að koma bikarnum heim í Smárann.“ 

Blikstúlkur fengur frábæran stuðning frá sínum fólki úr stúkunni

Við náðum að vera öll á sömu blaðsíðu

Hvað var það sem skilaði ykkur Íslandsmeistaratitlinum í ár – hver var lykillinn að þessu góða tímabili hjá ykkur og breyttist eitthvað á milli ára? ,,Fyrst og fremst samstaðan í hópnum. Við höfðum öll trú á þessu frá fyrsta degi. Það sást líka þegar við lentum í mótlæti og töpuðum leikjum hvernig við svöruðum því og komum alltaf sterkari til baka. Ég myndi segja að breytingarnar á milli ára hafa verið þær að við náðum að vera öll á sömu blaðsíðu. Planið og hvað við vildum gera var skýrt frá byrjun. Það er ótrúlega mikilvægt að ná svona samstöðu og vera reglulega að minna á það.“ 

Ótrúlega gott að taka svona erfiða ákvörðun en vera sátt með hana

En þetta var svona súrsætur sigur fyrir stuðningsmenn Blika, sætt að landa Íslandsmeistaratitlinum en nokkuð súrt að fá síðan þær fréttir að þetta hafi verið síðasta leikur fyrirliðans með Breiðablik. Hvað kemur til, þú ert ekki nema 31 árs og átt nóg eftir? ,,Þetta er bara tilfinning sem kom og ég fann að ég væri tilbúin í að kalla þetta gott. Það er ótrúlega gott að taka svona erfiða ákvörðun en vera sátt með hana. Að geta hætt á mínum forsendum er eitthvað sem ég vildi alltaf gera og jú ég gæti alveg spilað meira en svo er þetta bara spurning um hvað maður vill fá útúr lífinu sínu og ég á svo margt eftir og vil bara fara að nýta þennan tíma í að prófa aðra hluti.“ 

Ótrúlega þakklát fyrir manninn minn og um fjölskyldur okkar

Eins og þú nefndir, þegar þú tilkynntir að þú værir hætt, að kvennaboltinn væri ekki í atvinnumannaumhverfi. Er erfitt að gefa sig allan í þetta bæði vegna vinnu/skóla og svo ertu komin með fjölskyldu, en þú eignaðist dreng árið 2020? ,,Já, það hefur auðvitað verið smá púsluspil, sérstaklega einmitt eftir að ég eignaðist strákinn minn. En bara eins og með margt annað þá fer þetta líf bara í rútínu og við látum þetta bara ganga. Er ótrúlega þakklát fyrir manninn minn sem hefur stutt mig í gegnum þetta allt saman og sama má segja um fjölskyldur okkar, þau hafa gripið inn í og aðstoðað okkur þegar þurfti. Þetta hefði aldrei gengið án þeirra.“ 

Ásta Eir ásamt móður sinni, Kristínu Önnu Arnþórsdóttur, sem lék á árum áður með Val og íslenska landsliðinu, Marinó Þór Jakobssyni eiginmanni sínum og barni þeirra, Benjamín Esra Marínóssyni

Enginn efi með ákvörðunina

En engu að síður, kom ekki upp smá efi um þessa ákvörðun þegar Íslandsmeistaratitilinn fór á loft, smá löngun til að taka eitt ár í vibót? ,,Nei, enginn efi, ég fann bara fyrir ótrúlega mikilli gleði þegar ég lyfti loksins bikarnum. Þetta var hinn fullkomni endir. „

Hef aldrei verið að eltast við nein met eða þess háttar

Og það er ekki nettur C. Ronaldo í þér, að bæta met og skrifa sig í sögubækurnar, því þig vantar aðeins þrjá leiki til að bæta leikjamet Sigrúnar Óttarsdóttur fyrir Breiðablik í efstu deild, sem er 178 leikir og svo ertu komin með 300 mótsleiki fyrir Breiðablik, en leikjametið er 316 leikir – svo þetta eru stórir áfangar sem þú hefðir getað náð með því að taka eitt tímabil í viðbót? ,,Nei, hef aldrei verið að eltast við nein met eða þess háttar. Allir eiga sinn feril og hafa náð ákveðnum áföngum, ég er ótrulega stolt að hafa spilað 300 leiki fyrir Breiðablik  og að hafa unnið titil í siðasta leiknum mínum er bara eitthvað sem ég á og mun vera stolt af.“ 

Þessi Íslandsmeistaratitill stendur uppúr

Þetta var þriðjið Íslandsmeistaratitillinn sem þú vinnur á þínum ferli. Hver er sá eftirminnilegasti af þeim? ,,Allir hafa sína þýðingu. Sá fyrsti var frábær, en ég missti af því þegar við unnum hann því ég var farin út til Bandaríkjanna. 2018 titillinn var sérstakur, unnum Bikarmeistaratitilinn líka og þetta var svo ótrúlega gott lið. En þessi stendur uppúr, að enda ferilinn á þessu var ólýsanlegt og líka bara við áttum þetta svo mikið skilið. Það höfðu ekki margir trú á okkur og að við gætum staðið uppi sem sigurvegarar en við  sjálfar trúðum því alltaf.“ 

Ætlar að byrja á því að borða kvöldmat með fjölskyldunni oftar en tvisvar í viku

En hvað tekur svo við hjá Ástu Eir, hvað ætlar þú að taka þér fyrir hendur nú þegar takkaskórnir eru komnir á hilluna? ,,Það er frábær spurning. Held ég byrji á að taka því bara rólega, borða kvöldmat með fjölskyldunnni minni oftar en tvisvar í viku og fylgja stráknum mínum á fótboltaæfingar. Svo kemur bara í ljós hvað gerist næst, en ég er bara pollróleg og ætla bara að njóta hversdagsleikans.“ 

Mæðgurnar, Kristín Anna, Kristín Dís og Ásta Eir

Ætlar að skrá sig á tennisnámskeið í vetur

Og þú ert búin að hreyfa þig og stunda íþróttir frá því að þú manst eftir þér, þú ætlar sjálfsagt að hreyfa þig eitthvað áfram, með hvaða hætti þá? ,,Já, held ég muni alltaf stunda einhversskonar hreyfingu. Held ég ætli að skrá mig á tennisnámskeið í vetur, er spennt að prófa það.“ 

Mun sakna þess að mæta í klefann og hitta stelpurnar

En hversu mundu sakna mest að vera að hætta í fótboltanum? ,,Fyrst og fremst félagsskapurinn. Mun sakna mest að mæta í klefann og hitta stelpurnar á hverjum degi. Það er svo ómetanlegt að vera í liði og hvað þá svona skemmtilegu liði.“ 

Mun eflaust troða sér í einhver störf hjá klúbbnum í framtíðinni

Og ætlar þú vera eitthvað í kringum liðið og félagið áfram eða gott að kúpla sig aðeins út? ,,Ég ætla að reyna að kúpla mig út í smá tíma núna, en ég verð alltaf Bliki og mun eflaust troða mér í einhversskonar störf hjá klúbbnum í framtíðinni.“

Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks verður sjálfsagt ekki lengi að fá Ástu til að taka þátt í starfi Breiðabliks

Hefur fulla trú á liðinu og er ótrúlega spennt að fylgjast með þeim næstu árin

En er framtíðin björt hjá Breiðabliki, eruð þið með mannskap og umgjörð til að berjast um Íslandsmeistaratitilinn að ári þátt fyrirliðinn sé horfinn á braut? ,,Framtíðin er svo sannarlega björt. Við sáum það bara núna á þessu tímabili hvað við erum með flotta unga uppaldna leikmenn sem spiluðu stór hlutverk í sumar. Það er svo mikilvægt að gefa þessum leikmönnum tækifæri og stórt hrós á þjálfarteymið að gera það. Ég hef fulla trú á liðinu og er bara ótrúlega spennt að fylgjast með þeim næstu árin,“ segir þessi mikli meistari og fyrirliði Breiðabliks, Ásta Eir Árnadóttir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar