Tanja Tómasdóttir er nýr framkvæmdastjóri Breiðabliks, en hún tekur við starfinu af Eysteini Pétri Lárussyni sem var ráðinn framkvæmdastjóri KSÍ í maí sl. Eysteinn hefur starfað sem framkvæmdastjóri hjá Breiðablik frá 2013, fyrstu árin sem framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar eða frá 2013-2017 og frá 2017 sem framkvæmdastjóri alls félagsins. Eysteinn mun yfirgefa Smárann þann 1. september nk. er hann hefur störf í Laugardalnum.
Tanja er því um þessar mundir að koma sér vel fyrir á skrifstofu sinn í Smáranum, en Tanja er lögfræðingur að mennt og kemur frá TM tryggingum þar sem hún hefur undanfarin átta ár starfað við lögfræðiþjónustu og viðskiptaþróun. Þá hefur Tanja stundað nám við forystu og stjórnun samhliða vinnu undanfarna mánuði.
Tanja er alls ekki ókunn að starfa innan íþróttahreyfingarinnar því hún hlaut réttindi sem umboðsmaður knattspyrnumanna árið 2014 fyrsta íslenskra kvenna og þá hefur hún unnið félagsstörf á vegum íþróttahreyfingarinnar m.a. verið í stjórn Leikmannasamtaka Íslands, varamaður í samninga- og félagsskiptanefnd KSÍ og var kjörin í dómstól ÍSÍ árið 2023.
Kópavogspósturinn heyrði hljóðið í Tönju og spurði hana meðal annars hvernig það hafi komið til að hún ákvað að yfirgefa ,,viðskiptalífið“ til að taka við sem framkvæmdastjóri Breiðabliks? ,,Það hefur alltaf blundað í mér að starfa í íþróttahreyfingunni og ég hef alltaf reynt að halda í einhverja tengingu við hana s.s. með því að tengja námið mitt við íþróttir, vera í stjórn Leikmannasamtakanna og dómari í dómstól ÍSÍ. Ég lít á það sem forréttindi og frábært tækifæri að fá að blanda saman starfi og mínu aðaláhugamáli þó ég kveðji minn gamla vinnustað og fólkið þar með miklum söknuði,“ segir Tanja.
Hætti á toppnum
En hver er Tanja og lumar hún á farsælum íþróttaferli sjálf? ,,Ég ólst upp í Vestmannaeyjum og æfði fótbolta með ÍBV upp alla yngri flokkana. Æfði um tíma einnig með HK/Víking á veturna eftir að ég hóf nám við Verzlunarskóla Íslands en spilaði þó alltaf með ÍBV á sumrin. Ég lagði skóna á hilluna í kringum það leyti sem ég hóf háskólanám en þá hafði ég orðið Íslandsmeistari í 2. flokki með ÍBV og má því segja að ég hafi hætt á toppnum. Það sem lýsir mér kannski best sem leikmanni var að ég var aldrei best en ég fékk iðulega verðlaun fyrir bestu ástundun og var mjög samviskusamur leikmaður og góður liðsmaður. Það er líklega eitthvað sem fylgdi mér í gegnum námið og lífið almennt. Ég er mjög meðvituð um mikilvægi íþrótta í gegnum barnæskuna og unglingsárin og þann félagslega þátt sem íþróttir spilar í lífi barna og ungmenna. Að öðru leyti hef ég alltaf fylgst mikið með íþróttum og haft mikinn áhuga á öllu því sem tengist íþróttum og ekki síst pólitíkinni og umræðunni í kringum íþróttir.“
Sá fljótt að þetta var ekki sá vinkill á íþróttirnar
Og þú hefur haft mikla tengingu við íþróttir í gegnum árin og tekið þátt í ýmsum störfum tengdum íþróttahreyfingunni m.a. hlaustu fyrst kvenna réttindi sem umboðsmaður knattspyrnumanna árið 2014 – það hefur verið nokkuð stórt skref – af hverju ákvaðstu að demba þér í þetta og hefurðu eitthvað nýtt þér þessi réttindi og starfað við umboðsmennsku? ,,Það má segja að það hafi ekki verið mikil pæling á bak við það að taka þessi réttindi. Ég var að skrifa meistararitgerðina mína í lögfræði um samspil íþrótta og lögfræði. Ég var því búin að sökkva mér í lög og reglur FIFA og KSÍ. Á svipuðum tíma var auglýst að halda ætti alþjóðlegt umboðsmannapróf FIFA í höfuðstöðvum KSÍ og ég hafði heyrt að það væri strembið. Mér fannst því skemmtileg áskorun að taka prófið og náði því. Það vakti töluvert meiri athygli en ég hafði búist við og ég fékk fjölda fyrirspurna fá leikmönnum og foreldrum leikmanna sem höfðu áhuga á að starfa með mér og það einskorðaðist ekki við knattspyrnu. Ég fór einnig í viðræður við aðra umboðsmenn um samstarf en ég sá fljótt að þetta var ekki sá vinkill á íþróttirnar sem mig langaði að einbeita mér að og áhugi minn lá meira í samningamálum og réttindum leikmanna almennt. Ég tók því meira að mér að aðstoða leikmenn við ágreining vegna samningamála og ég fann að réttindi leikmanna voru mér hugleikinn frekar en að vera milliliður í félagaskiptum. Það varð svo til þess að ég fékk veður af því að verið væri að stofna Leikmannasamtökin og ég hafði samband við þann sem stóð á bak við það og óskaði eftir því að fá að vera með. „
Sér tækifæri í því að opna félagið betur fyrir þeim sem hafa áhuga á að starfa fyrir félagið
En í hverju felst svo starf framkvæmdastjóra Breiðabliks og sérðu fram á einhverjar breytingar með komu þinni? ,,Starf framkvæmdastjóra Breiðabliks er mjög fjölbreytt og teygir sig víða. Það eru margir aðilar sem koma að félaginu hvort sem það er starfsfólk, þjálfarar, foreldrar eða iðkendur að ógleymdum öllum þeim sjálfboðaliðum sem starfa fyrir félagið. Sjálfboðaliðar eru gríðarlega mikilvægir í starfsemi félagsins og ég sé tækifæri í því að opna félagið betur fyrir þeim sem hafa áhuga á að starfa fyrir félagið. Iðkendum hefur fjölgað og ég hef trú á að þeim fylgi fólk sem vilji leggja sitt af mörkum við að efla félagið enn frekar.“
Samfélagið breytist og þróast hratt og íþróttafélögin gegna þar mikilvægu hlutverki.
Breiðablik er mjög öflugt og fjölmennt félag sem er þó alltaf í stöðugri þróun enda kröfurnar stöðugt að aukast – er alltaf tækifæri til að gera enn betur í starfinu? ,,Breiðablik er frábært félag sem hefur verið rekið mjög vel undanfarin ár en það eru alltaf tækifæri til að gera betur. Samfélagið breytist og þróast hratt og íþróttafélögin gegna þar mikilvægu hlutverki. Félögin þurfa að þróast samhliða og ég sé klárlega tækifæri til að efla framtíðarsýn Breiðabliks með það í huga.“
Við erum Kópavogsbæ mjög þakklát fyrir þessa bættu aðstöðu
Nú hófust framkvæmdir við nýjan gervigrasvöll við hlið Fífunnar sl. mánudag sem hlýtur að vera mikið fagnaðarefni fyrir knattspyrnuna hjá Breiðablik sem er lang fjölmennast deildin innan félagsins? ,,Það sannarlega gott að fá betri aðstöðu til æfinga og keppni fyrir hina fjölmörgu iðkendur félagsins og í raun alveg nauðsynlegt þannig að við getum sinnt þeim fjölda sem stundar knattspyrnu hjá okkur. Við erum Kópavogsbæ mjög þakklát fyrir þessa bættu aðstöðu sem bætir gæðin í starfi félagsins og gerir okkur kleift að veita enn betri þjónustu við börn og unglinga í Kópavogi.“
Það eru kannski ákveðnir vaxtaverkir í aðstöðumálum
En það eru 12 deildir starfandi hjá Breiðablik, hvernig er almennt með aðstöðumál félagsins, eru þau í góðum málum og/eða hvar þarf helst að taka til hendinni? ,,Breiðablik hefur stækkað mjög mikið síðustu ár og það eru kannski ákveðnir vaxtaverkir í aðstöðumálum. Það er ekkert launungamál að það er þörf á betri aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir sem dæmi. Þá eru aðrar deildir eins og karatedeildin ekki með nægilega góða aðstöðu. Einnig myndum við vilja sjá aðstöðu fyrir þríþrautardeildina og hjóladeildina á félagssvæði Breiðabliks. Þá er búnings- og styrktaraðstaða félagsins orðin ansi lúin og er ekki í samræmi við stærð og umfang íþróttastarfsins í Smáranum. Við viljum vera fremst í öllum okkar íþróttum í bæði uppeldis- og afreksstarfi og til þess þarf að byggja upp aðstöðu samhliða ört stækkandi félagi.“
Og það er mikilvægt hverju íþróttafélagi að bæjaryfirvöld séu vel meðvituð um mikilvægi barna- og unglingastarfs og afreksstarfs í sveitarfélaginu? ,,Samstarfið við Kópavogsbæ hefur verið gott í gegnum árin og ég hef ekki trú á öðru en að það haldi áfram. Bæjaryfirvöld eru mikilvægur aðili í starfsemi félagsins að sama skapi og Breiðablik er gríðarlega stór hluti af samfélaginu í Kópavogi á öllum aldursstigum. Félagið hefur ákveðnar hugmyndir um aðstöðumál og þjónustu í Kópavogsdal og höfum við ákveðnar væntingar til þess að þær verði að veruleika í náinni framtíð í samstarfi við bæjaryfirvöld.“
Helstu áskoranirnar eru því klárlega þær að styrkja innviðina
En hverjar eru svo helstu áskoranir framundan fyrir Breiðablik og Tönju í stöðu framkvæmdastjóra – er félagið alltaf að stækka, iðkendum að fjölga og er reksturinn alltaf að verða stærri og þyngri? ,,Veruleg fólksfjölgun á svæði Breiðabliks er fyrirséð og því ljóst að félagið mun stækka enn frekar á næstu árum. Helstu áskoranirnar eru því klárlega þær að styrkja innviðina þannig að við getum tekið á móti þeim iðkendum sem vilja stunda íþróttir hjá Breiðabliks á sama tíma og við höldum úti öflugu afreksstarfi. Það þarf því bæði að huga að aðstöðumálum og rekstrinum með þetta í huga.
En þú ert spennt að hefjast störf og hvað er framundan hjá Tönju og Breiðablik? ,,Ég er mjög spennt fyrir því að taka til starfa og kynnast öllu fólkinu sem kemur að félaginu. Starfsemi félagsins er viðamikil og margt að koma sér inn í en hjá félaginu starfar frábært fólk sem ég veit að mun styðja vel við mig á næstu mánuðum.“
Og svona að lokum, hvað gerir Tanja þegar hún er ekki í vinnunni? ,,Þegar ég er ekki í vinnunni er ég yfirleitt að eyða tíma með manninum mínum og börnunum okkar þremur, horfandi á íþróttir eða úti að hlaupa,“ segir nýr framkvæmdastjóri Breiðabliks að lokum.