Á fundi bæjarstjórnar þann 14. júní 2022 var ráðning Ásdísar Kristjánsdóttur sem bæjarstjóra Kópavogs samþykkt og daginn eftir hóf hún störf. Það eru því tvö ár liðin síðan Ásdís kom sér fyrir í stól bæjarstjóra og Kópavogspósturinn tók stöðuna á henni af því tilefni, en verkefnin sem hún hefur tekist á við á þessum tíma eru fjölmörg, flest þeirra mjög ánægjuleg en einnig nokkur krefjandi.
Það liggur kannski beinast við að spyrja bæjarstjóra að því hvernig þessi tími hafi verið og hvort starf bæjarstjóra Kópavogs hafi komið að einhverju leiti á óvart? ,,Tíminn hefur liðið ansi hratt og ótrúlegt að kjörtímabilið sé hálfnað. Ég er afskaplega stolt af þeim verkefnum sem við höfum sett í forgang og klárað á þessum tveimur árum. Það sem kannski kom mér mest á óvart var hversu víðfeðmt starfið er, hver dagur er ólíkur og fjölbreytnin mikil. Kópavogsbær er stór vinnustaður og ég hef reynt að nýta tímann þegar ég á lausa stund í að heimsækja stofnanir bæjarins og hitta starfsfólkið. Leikskólarnir hafa verið í forgangi og gaman að segja frá því að ég hef heimsótt næstum alla leikskóla Kópavogs, ég á örfáa eftir og þá mun ég heimsækja í sumar,“ segir hún.
Getum vel við unað
Ef þú lítur til baka yfir þessi tvö ár, ertu ánægð með hvernig rekstur Kópavogsbæjar hefur gengið og hvernig hann er að þróast? ,,Ég tel að við getum vel við unað, rekstur Kópavogsbæjar er traustur og ársreikningur fyrir árið 2023 staðfestir það. Afkoman batnar verulega milli ára og reksturinn skilar fimm milljörðum til að standa undir framkvæmdum og niðurgreiðslu skulda. Þá er einnig heilbrigðismerki að í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru skuldir á íbúa og skuldahlutfall hvergi lægra.“
Samstarfið hefur gengið mjög vel og traust ríkir á milli okkar
Hvernig finnst þér svo meirihlutasamstarf ykkar og Framsóknarflokksins hafa gengið, eruð þið á tiltölulega sömu línu og samstíga er kemur að málefnum bæjarins? ,,Samstarfið hefur gengið mjög vel og traust ríkir á milli okkar. Flokkarnir voru báðir með mjög áþekkar áherslur í kosningabaráttunni og því lá beinast við að við færum í samstarf. Leiðarstef okkar í meirihlutasáttmálanum er að Kópavogsbær verði farsælt bæjarfélag í fremstu röð. Þær áherslur endurspeglast vel í þeim verkefnum sem við höfum sett í forgang á kjörtímabilinu sem nú er hálfnað. Við höfum lækkað skatta á bæjarbúa í tvígang eða bæði árin sem við höfum verið við völd. Þá höfum við sýnt forystu í að leiða áfram kerfisbreytingar í leikskólamálum og ánægjulegt að önnur sveitarfélög eru að fylgja fordæmi okkar í þeim efnum. Við breyttum áherslum okkar í starfsemi menningarhúsa, forgangsröðuðum fjármunum með öðrum hætti og erum nú að stórefla menningarstarfsemina án þess að það kalli á aukið fjármagn. Loks vil ég nefna að við höfum sett heilsu og hreyfingu í forgang fyrir alla bæjarbúa, unga sem aldna með hækkun frístundastyrks og eflingu á verkefninu „Virkni og vellíðan“ fyrir eldri bæjarbúa. Þá eru miklar framkvæmdir framundan á íþróttamannvirkjum í bæði efri og neðri byggðum Kópavogs.“
Árangurinn talar sínu máli – Kópavogsmódelið virkar
Tíminn hefur liðið hratt en verkefnin sem þú hefur tekist á við hafa sjálfsagt verið mörg hver bæði ánægjuleg en einnig krefjandi. Hvaða verkefni ertu kannski stoltust af að hafa komið í gegn? ,,Ég er afskaplega stolt af því að við þorðum að ráðast í breytingar á leikskólaumhverfinu en í alltof langan tíma hefur ríkt djúpstæður mönnunarvandi, viðvarandi álag og óstöðuleiki í þjónustu á leikskólum landsins. Þessu vildum við breyta. Eftir mikið samráð var niðurstaðan Kópavogsmódelið sem í grunninn byggir á því að fyrstu sex klukkustundirnar eru gjaldfrjálsar samhliða auknum sveigjanleika í dvalartíma barna. Árangurinn talar sínu máli – Kópavogsbær hefur aldrei þurft að loka leikskólum sökum manneklu frá því breytingar tóku gildi. Til samanburðar voru 212 lokunardagar á síðasta skólaári í einhverjum leikskólum Kópavogs. Flestir leikskólar eru fullmannaðir,við erum að bjóða fleiri börnum leikskólapláss samhliða auknum stöðugleika í þjónustu við barnafjölskyldur. Þegar breytingarnar voru kynntar voru skiljanlega áhyggjur af hvaða áhrif breytingarnar myndu hafa á tekjulægstu heimilin. Nýleg foreldrakönnun bendir hins vegar til þess að tekjulægstu heimilin séu einna ánægðust með breytingarnar og jafnframt líklegust til að nýta sér gjaldfrjálsa leikskólaþjónustu. Nú þegar árangurinn hefur verið mældur og er sýnilegur öllum erum við að sjá önnur sveitarfélög innleiða áþekkar breytingar sem er mjög ánægjulegt.
Miklar breytingar eru oft erfiðar
Eru einhver mál/verkefni sem hafa tekið á, verið mjög krefjandi og erfitt að eiga við? ,,Ég viðurkenni fúslega að þegar við kynntum Kópavogsmódelið var krefjandi að svara fyrir það þegar engar árangursmælingar lágu fyrir. Miklar breytingar eru oft erfiðar og þar sem við voru fyrst sveitarfélaga til að boða þær voru viðbrögðin ansi mikil í fyrstu en nú þegar reynsla er komin á þessar breytingar hefur umræðan snúist. Þá vil ég einnig nefna breytingar okkar á starfsemi menningarhúsanna sem við boðuðum fyrir rúmlega ári síðan og mætti strax mikilli mótstöðu, bæði einstaklinga og samtaka. Mikil upplýsingaóreiða myndaðist í kringum boðaðar breytingar sem erfitt var að leiðrétta, sem dæmi var því haldið fram opinberlega að við værum að loka Náttúrufræðistofu, sem var alrangt! Það sjá bæjarbúar auðvitað skýrt í dag en á afmælisdegi Kópavogs 11. maí s.l. opnuðum við Náttúrufræðistofu á ný en með breyttum áherslum okkar þar sem hún gegnir meðal annars hlutverki vísindasmiðju fyrir börnin sem tengist um leið með skemmtilegum hætti barnabókasafni Kópavogs.“
Áherslur okkar í meirihlutanum eru nokkuð ólíkar minnihlutans í nokkrum veigamiklum málum
Nú hefur meirihlutinn og minnihlutinn tekist vel á í nokkrum málum. Hafa þetta verið sanngjarnar og málefnalegar umræður á milli meiri- og minnihlutans, náið þið að vinna vel saman í flestum málum? ,,Auðvitað fylgir því að vera í pólitík að ekki eru allir sammála og það er tekist á um ólíka sýn og áherslur. Í bæjarstjórn Kópavogs sitja sex flokkar og eru áherslur okkar í meirihlutanum nokkuð ólíkar minnihlutans í nokkrum veigamiklum málum.
Ég nefni sem dæmi úthlutun lóða og nýlegt dæmi þess efnis má sjá í tengslum við úthlutun okkar í nýju hverfi í Vatnsendahvarfi. Okkar áherslur hafa verið að tryggja aukið framboð íbúða á almennum húsnæðismarkaði sem mikið hefur verið kallað eftir. Minnihlutinn hefur hins vegar viljað sjá allt að 30% af nýju framboði úthlutuðu til óhagnaðardrifinna leigufélaga, sem yrði þá niðurgreitt af bæjarfélaginu með tilheyrandi kostnað.
Einnig má nefna rekstur bæjarins og ólíka sýn á skattstofna hans. Við höfum lækkað fasteignaskatta á árinu 2023 og 2024 eða bæði ár núverandi kjörtímabils. Einstakir bæjarfulltrúar minnihlutans hafa hins vegar talað fyrir því að fullnýta skattstofnana í stað þess að lækka skatta. Þá kusu allir bæjarfulltrúar minnihlutans – Viðreisn, Samfylkingin, Píratar og Vinir Kópavogs – gegn því að lækka fasteignaskatta á árinu 2024 svo dæmi séu tekin.
Þótt ég hafi nefnt tvö dæmi um ólíkar áherslur höfum við auðvitað samt sem áður öll metnað til að vinna vel saman, sem kjörnir fulltrúar erum við með sameiginlegt markmið um að standa vörð um hagsmuni Kópavogs og gera bæjarfélagið enn betra. Hvernig við uppfyllum þau markmið í þeim verkefnum sem rata inná borð bæjarstjórnar getur aftur á móti verið mun flóknara, einkum ef áherslur okkar eru ólíkar á þessi megin verkefni.“
Vatnsendahvarfið er einstakt hverfi staðsett á hæsta punkti höfuðborgarsvæðisins
Eins og þú nefnir þá eruð þið nýbúin að bjóða út lóðir í fyrsta áfanga fyrir Vatnsendahvarf, varstu ánægð með hvernig til tókst og hvaða verð þið fenguð fyrir lóðirnar? ,,Við vorum mjög ánægð með niðurstöðuna úr fyrsta áfanga. Vatnsendahvarfið er einstakt hverfi staðsett á hæsta punkti höfuðborgarsvæðisins og það var virkilega ánægjulegt að sjá hversu mikil þátttaka var í útboðinu í þessum fyrsta áfanga. Áhuginn er augljóslega mikill og við stefnum á að fara í áfanga tvö og þrjú síðsumar en í þeim áföngum verður meira horft til einbýlis-, par- og raðhúsa.“
Megin áskoranir sveitarfélaga snúa að því að standa vörð um reksturinn
Ef við horfum aðeins fram á við, þá ertu tvö ár í næstu sveitarstjórnarkosningar. Hvaða áskoranir eru framundan hjá Kópavogsbæ næstu tvö árin? ,,Megin áskoranir sveitarfélaga snúa að því að standa vörð um reksturinn – að forgangsraða takmörkuðum fjármunum skattgreiðenda í Kópavogi skynsamlega og standa vörð um grunnþjónustu og innviði bæjarins. Við finnum það hvernig kröfur eru sífellt að aukast úr öllum áttum sem snúa að þjónustu sveitarfélaga og því megum við ekki missa sjónar á því sem mestu skiptir. Ef reksturinn er ekki traustur er ekki hægt að sinna þeirri þjónustu sem við viljum sinna.“
Mín afslöppun í lok dags er að horfa á sjónvarpsþætti sem krefjast ekki mikils af mér
Starf bæjarstjóra er víðfemt eins og þú nefndir og að mörgu að huga. Hvernig gengur Ásdísi að kúpla sig út úr vinnunni eftir að hefðbundnum vinnutíma líkur eða eru alltaf með hugann við vinnuna? ,,Starfinu fylgir talsvert álag og því mikilvægt að „kúpla“ sig út og hugsa um eitthvað allt annað þegar færi gefst. Það hentar mér ekki vel að sitja lengi fram eftir í vinnunni, ég reyni að stunda einhverja hreyfingu seinni partinn en klára þá frekar vinnudaginn upp í rúmi eftir kvöldmat og svara ósvöruðum tölvupóstum. Mín afslöppun í lok dags er svo að horfa á sjónvarpsþætti sem krefjast ekki mikils af mér.“
Oft kvikna góðar hugmyndir í spjalli við bæjarbúa
Eru bæjarbúar mikið að stoppa þig og ræða við þig þegar ert á ferð um bæinn, t.d. við að versla í matinn, í sundi eða hvaðeina sem þú gerir fyrir utan vinnutímans? ,,Nei ekki mikið, kannski of lítið. Mér finnst gaman að ræða bæjarmálin við bæjarbúa hvort sem er út í búð, í ræktinni eða á íþróttaleikjum. Oft kvikna góðar hugmyndir í slíku spjalli eða fínar ábendingar sem ég tek áfram.“
Ég viðurkenni fúslega að ég er þessi kósýgalla-týpa sem er heimakær
Ef þú ert ekki í vinnunni og með hugann við bæjarmálin, hvað er Ásdís þá að gera? ,,Ég stunda fjölbreytta hreyfingu, þegar tími gefst tek ég morgunhlaup fyrir vinnu en stunda svo pilates og lyftingar með systur minni og vinkonum. Ég viðurkenni fúslega að ég er þessi kósýgalla-týpa sem er heimakær og elskar að borða góðan mat sem eiginmaðurinn eldar. Krakkarnir okkar eru öll í fótbolta og ég reyni að mæta á leiki þegar ég get. Þá er sveitin okkar í Laugarási í miklu uppáhaldi og við notum hvert tækifæri sem gefst til að fara þangað.“
Kemur sterklega til greina að bjóða sig fram að nýju eftir tvö ár
En hvað segir svo Ásdís, tvö ár í næstu sveitarstjórnarkosningar – sérðu fyrir þér að taka slaginn í það minnsta næstu fjögur árin til viðbótar? ,,Þetta hafa verið mjög skemmtileg tvö ár og ég á sem betur fer önnur tvö ár eftir sem bæjarstjóri. Fjögur ár eru fljót að líða og margt sem við viljum klára áður en kjörtímabilið klárast. Ég hef ekki gefið neitt upp með framhaldið, ég er að vinna með frábæru fólki og hef eignast góða félaga í pólitíkinni. Eigum við ekki að segja að það komi sterklega til greina – sjáum til,“ segir Ásdís brosandi að lokum.
Forsíðumynd: Ásdís og Orri Hlöðversson formaður bæjarráðs við opnun nýrrar sýningar Náttúrufræðistofu á afmælisdegi bæjarins 11. maí 2024 í endurgerðu rými Náttúrufræðistofu og Bókasafns.