Ég á mér draum

Í Kópavogspóstinum í síðasta mánuði er grein frá Hjördísi Ýr Johnsen, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, undir yfirskriftinni „Staðreyndir um Kársnesið“. Þar heldur hún því fram að íbúar Kópavogs séu „…blekktir með ósannindum og rangfærslum“ í einblöðungi frá Vinum Kópavogs. Ég er oddviti Vina Kópavogs í bæjarstjórn. Síst af öllu myndi hvarfla að mér að blekkja Kópavogsbúa, og mér fellur illa að vera sökuð um ósannindi. Mér finnst staðreyndir vera eitthvað sem ekki þarf að rökræða um. Annað hvort er eitthvað staðreynt eða ekki.

Skipulagsskylda hvílir á öllum sveitarfélögum landsins. Þeim ber að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi – eins og segir í skipulagslögum.

Kársnesið er náttúruperla og sérstaða gömlu, grænu byggðarinnar í hverfinu eitthvað til þess að halda í. Ég skil vel þörfina fyrir þéttingu byggðar, Borgarlínu, bættar almenningssamgöngur og möguleikana sem tengjast fyrirhugaðri brú yfir Fossvoginn. Ég skil hinsvegar ekki „skipulagsleysið“ í nýtingu nýja landsins á landfyllingunum yst á Kársnesi.

Engri lóð hefur verið úthlutað, enginn byggingarréttur verið boðinn upp á Kársnesinu í tvo áratugi. Samt hafa hundruð nýrra íbúða verið byggðar. Allt á grundvelli deiliskipulagstillagna fyrir einstaka reiti, sem fjárfestum/framkvæmdaaðilum var heimilað að gera eftir að hafa komið höndum yfir byggingar til niðurrifs. Vinnslutillögur fjárfestanna hafa orðið grundvöllur deiliskipulags sem við lifum við til framtíðar. Markmiðið er alltaf að hámarka arðsemi sem er eðlilegt frá sjónarmiði fjárfestanna. Því meira sem byggt er, því betra fyrir þá. Byggt er að mörkum án tillits til nágrennis eða almannarýmis. Deiliskipulagstillögurnar eru arkitektateikningar notaðar til þess að kynna íbúðir fyrir væntanlegum kaupendum. Ekki liggur fyrir hvaða heildarmynd verði á hverfinu, hvaða þjónusta, verslun, iðnaður og mannlíf eigi tilverurétt. Þessu verklagi eru Vinir Kópavogs ósammála. Þeir vilja að ekki verði teknar frekari ákvarðanir um deiliskipulag á Kársnesi fyrr en heildarhugmynd er til staðar, eftir markvisst íbúasamráð sem getur af sér hverfisskipulag. Það er margreynt að virkt íbúasamráð á öllum stigum skipulagsferilsins er ákaflega gagnlegt. Íbúar þekkja nágrenni sitt öðrum betur. Auðvitað er aldrei hægt að gefa fyrirheit um að allar ábendingar hljóti hljómgrunn. Hinsvegar þarf að hafa skýrar leikreglur um hvernig samráð verði og hvers íbúar megi vænta. Kynning á vinnslutillögum fjárfesta er sögð samráð. Það er hægt að slá því fram að mikið tillit sé tekið til ábendinga nágranna. En það eru ekki staðreyndir. Íbúar í aðliggjandi byggð, sem fengu þá fyrst „samráð“ þegar fullbúinni vinnslutillögu fjárfesta var skellt á skjáinn, telja staðreyndirnar aðrar.

Landgæðin sem felast í hafnarsvæðinu eru einstök. Göngustígurinn þar er eitt fjölfarnasta útivistarsvæði bæjarins. Í deiliskipulagstillögunni sem kynnt hefur verið fyrir svæðið er gert ráð fyrir íbúðabyggð alveg að gangstígnum. Plönin framan við frystigeymslur og Hjálparsveit skáta, sem nú gefa andrými og möguleika til uppbyggingar öllum Kópavogsbúum til yndis, hverfa undir háar, samfelldar íbúðablokkir. Hjólandi og gangandi eiga að komast meðfram byggðinni sem og takmörkuð bílaumferð fyrir þá eina sem eiga erindi í bílakjallara íbúa í fjölbýlishúsunum. Annað liggur ekki fast fyrir í deiliskipulagstillögum. Það er staðreynd.

Ég á mér þann draum að skipulagsyfirvöld taki af skarið og fái íbúa í lið með sér til að nýta staðarkostina á hafnarsvæðinu. Sky Lagoon, Brúin, Borgarlínan og fleira sem laðar að fólk geta gefið okkur færi á að byggja upp þjónustu, afþreyingu og mannlíf sem gerir Kársnesið ekki aðeins eftirsóknarverðan stað til búsetu heldur líka til heimsókna og dægradvalar. Ferðaþjónusta á ekki síður heima á okkar hafnarsvæði en annarra. Hvalaskoðun, kajakar, sjóböð, úrvals veitinga- og kaffihús, inni- og útileikvellir – sem nýst gætu öllum. Þá eru ótaldar hugmyndirnar sem samráð við fjöldann – íbúasamráð – myndi leysa úr læðingi. Það verður óafsakanleg yfirsjón ef við fórnum möguleikanum á að nýta landgæði alls hafnarsvæðisins til almannanota samhliða því sem þar verður ný íbúðabyggð.

Ég er alin upp á Kársnesinu og hef búið þar mestan hluta ævinnar. Mig dreymir um að næstu kynslóðir, þ.m.t. afkomendur mínir, börn og barnabörn, sem búa á Kársnesinu fái notið sömu náttúrugæða og finni til hverfisstolts eins og ég hef gert. Þess vegna vil ég faglega skipulagsvinnu með þátttöku íbúa og færustu sérfræðinga.

Helga Jónsdóttir er oddviti Vina Kópavogs í bæjarstjórn

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar