Draumur minn var að opna dýralæknastofu í Kópavogi

Guðjón Sigurðsson dýralæknir opnað í síðustu viku Dýralækningaþjónustu Kópavogs að Hamraborg 10, en þetta er eina dýralæknastofan í Kópavogi.

Guðjón útskrifaðist sem dýralæknir frá Szent István University í Búdapest árið 2020 með smádýr sem sérgrein. Á námsárunum vann hann á sumrin á Dýralæknastofu Mosfellsbæjar og á Dýralæknastofu Dagfinns og eftir útskrift hélt hann áfram að starfa hjá Dagfinni, en færði sig síðan yfir á Dýralæknastofu Reykjavíkur.

Guðjón ákvað svo að opna sína eigin dýralæknastofu að Hamraborg 10.

Dýralæknastofa Kópavogs er í Hamraborg 10

Vildi bjóða upp á dýralæknaþjónustu í Kópavogi

Kópavogspósturinn heyrði í Guðjóni og spurði hann m.a. hvernig það hafi komið til að hann hafi ákveðið að opna eigin stofu og valið Hamraborgina í Kópavogi? ,,Ég hef búið í Kópavogi frá því ég var 7 ára, að undanskildum þeim árum sem ég var úti í námi. Á æskuheimili mínu voru mörg gæludýr t.d. hundar, hamstrar, kanínur, fuglar og fl. Þegar ég kom heim úr námi var draumur minn að stofna dýralæknastofu í Kópavogi til að Kópavogsbúar þurfi ekki að fara út úr bæjarfélaginu til að nálgast þá þjónustu. En auðvitað eru öll dýr velkomin á stofuna óháð búsetu. Ég datt niður á þetta húsnæði í Hamraborginni sem er í hjarta Kópavogs og góð aðkoma að húsnæðinu. Sá strax að með smávægilegum breytingum hentaði það vel í þessa starfsemi.”

Tekur á móti öllum gæludýrum og fer í heimavitjanir

Og hvernig þjónustu býður Dýralæknaþjónusta Kópavogs upp á og á móti hvaða gæludýrum tekur þú? ,,Dýralæknaþjónusta Kópavogs tekur á móti öllum gæludýrum. Tekið er á móti veikum og slösuðum dýrum, sem hafa að sjálfsögðu forgang. Boðið verður upp á heilbrigðisskoðun, hvolpa- og kettlingaskoðun, örmerkingar, bólusetningar, tannhreinsun, geldingar og ormahreinsanir. Stofan er vel búin tækjum m.a. er þar sónartæki og glænýtt rönt-gentæki af bestu gerð kemur um mánaðarmótin næstu. Ég mun einnig fara í heimavitjanir og þjónusta þá sem vilja kveðja dýrin sín heima.”

Ef dýr fer að haga sér öðruvísi en vanalega t.d. kveinka sér, vera lystarlaust, halla höfði eða leggja niður eyrun, er ástæða til að fara með það til dýralæknis

En hverjir er svona helstu fylgikvillar gæludýra og hverjar eru svona helstu ástæður að gæludýraeigendur komi með gæludýrin sín á dýralæknastofu? ,,Það eru ýmsar ástæður fyrir heimsókn- um á dýralæknastofur t.d. eyrnabólga, uppköst og niðurgangur, hósti, ofnæmi, gigt, helti, sár, hjatavandamál, slæm tannhirða, o.fl. o.fl,” segir Guðjón.

Og eru svo alltaf einhverjar árstíðarbundnar skoðanir sem gæludýrin þurfa að mæta í eins og bólusetningu o.fl. ,,Já, hundar og kettir eiga að koma árlega í skoðun og ormahreinsun. Kettir eru bólusettir á hverju ári og hundarnir eru bólusettir á tveggja ára fresti. Einnig þarf að klippa klær og hreinsa tennur reglulega hjá ákveðnum tegundum.”

En er oftast auðvelt að átta sig á og sjá þegar gæludýrin verða veik – haga þau sér með öðrum hætti en vanalega, lystalaus o.s.frv? ,,Ef dýr fer að haga sér öðruvísi en vanalega t.d. kveinka sér, vera lystarlaust, halla höfði eða leggja niður eyrun, er ástæða til að fara með það til dýralæknis. Dýr sem eru með eyrnabólgu fara oft að halla höfðinu eða kveinka sér þegar komið er við eyrað. Auðvelt er að átta sig á magapestum því þeim fylgir oft uppköst og niðurgangur. En stundum fá dýrin einnig harðlífi svo það er nauðsynlegt að fylgjast vel með hægðum dýranna. Oft er ekki hægt að sjá nein greinileg einkenni annað en vanlíðan og breytingu á hegðun. Þá þarf jafnvel sónarskoðun eða röntgenmyndir til að sjá hvað amar að dýrinu.”

Ertu svo með eitthvað sölu hjá þér fyrir dýrin, eins og gæludýrafóður og einhverja fylgihluti? ,,Dýralæknaþjónusta Kópavogs kemur til með að selja hágæða sjúkrafæði fyrir hunda og ketti frá Happy Dog, Royal Canin og Hill‘s. Einnig verður hægt að kaupa góðgæti fyrir dýrin, leikföng, klóaklippur og kúkapoka.”

Dýralæknaþjónusta Kópavogs selur hágæða sjúkrafæði fyrir hunda og ketti frá Happy Dog, Royal Canin og Hill‘s. Einnig verður hægt að kaupa góðgæti fyrir dýrin, leikföng, klóaklippur og kúkapoka.

Það skiptir miklu máli að velja rétt dýrafóður

Og skiptir gæludýrafóðrið miklu máli, mismunandi gæði og misjafnt hvað dýrin þurfa eftir stærð og tegund – ráðleggið þið gæludýraeigendum hvað sé best fyrir þeirra gæludýr ef þeir óska eftir því? ,,Dýrafóður er mismunandi og skiptir miklu máli að velja rétt fóður. Það er mjög mismunandi hvaða fóður hentar hverjum og einum. Það þarf að taka tillit til tegundar, stærðar, aldurs og heilsu dýrsins. Við veitum ráðleggingar að kostnaðarlausu varðandi fóður.”

Og þú býður eðlilega alla gæludýraeigendur velkomna til þín í Hamraborgina? ,,Já, eins og ég sagði áðan þá tek ég vel á móti öllum gæludýraeigendum, bæði gömlum og nýjum viðskiptavinum. Ég ætla að bjóða upp á persónulega þjónustu í rólegu og notalegu umhverfi,” segir Guðjón að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar