Brostin og endurnýtt loforð

Nú keppast framboð við að kynna loforðalista sína fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Þar má finna fullt af fögrum fyrirheitum – en er eitthvað að marka þau? Það er áhugavert að skoða fjögurra ára gömul loforð flokkanna sem setið hafa í meirihluta á kjörtímabilinu sem er að líða. Hver er árangurinn? Þrátt fyrir að á meðal loforða séu verkefni sem ýmist voru þegar vel á veg komin vorið 2018, eða hreinlega lögbundin skylda, getur Sjálfstæðisflokkurinn aðeins hakað við 20 af sínum 75 loforðum og Framsóknarflokkurinn enn færri eða 5 af 33.
Það voru alveg örugglega einhverjir sem kusu þessa flokka vegna fyrirheita um íþróttastyrki til eldri borgara, fjölgun hjúkrunarrýma, leikskólapláss frá 12 mánaða aldri, sundlaugagarð í Salalaug með nýjum rennibrautum, leiktækjum og heitum og köldum pottum, uppbyggingu stúdentaíbúða á Kársnesi, frítt í strætó fyrir framhalds- og háskólanema, afgirt svæði fyrir hundaeigendur, hjólaþrautabraut, klifurvegg í sundlaug Kópavogs, varanlega aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir, eða lengri opnunartíma sundlauga, svo dæmi séu tekin.

Gamalt og ósvífið

Þá er margt á nýja loforðalistanum sem er endurnýtt efni frá árinu 2018, til dæmis:

Heimgreiðslur til foreldra meðan beðið er eftir dagvistun, hækkun á frístundastyrk barna og ungmenna, merkingar hjóla- og hlaupaleiða í Kópavogi, mælingar á mengun og hljóðvist með nákvæmari hætti og mótvægisaðgerðir í kjölfarið, lestrar- og menningarmiðstöð í efri byggðir, að ógleymdu Kópavogs-appinu sem átti að líta dagsins ljós á kjörtímabilinu sem leið og bæjarstjóri kynnti svo eftirminnilega í bakstursmyndbandinu sínu fyrir síðustu kosningar. 

Ósvífnasta loforðið hlýtur þó að vera að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að setja „loftslagsstefnu og innleiða hana með kraftmiklum hætti“. Á pappírunum hljómar þetta kannski ágætlega, en í ljósi þess að slík stefna þurfti, samkvæmt lögum, að vera tilbúin fyrir lok árs 2021 er þetta loforð ekki bara ósvífið heldur jafnframt fullkomlega til marks um innihaldslausan loforðaflaum flokksins.

Skiptir engu máli að standa við gefin loforð?      

Píratar standa fyrir fagleg, lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð. Við stundum heiðarleg stjórnmál.
Við viljum að öll ákvarðanataka í stjórnsýslu Kópavogs gangi út frá því að standa vörð um mannréttindi, lýðræðið og tryggi jafnrétti milli núverandi og komandi kynslóða. Síðast en ekki síst viljum við auka aðkomu bæjarbúa að stjórnun bæjarins, einmitt svo hægt sé að halda kjörnum fulltrúum við efnið.

Það er ekki nóg að lofa alls konar fyrir alla ef ætlunin er aldrei að standa við það.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir. Bæjarfulltrúi og oddviti Pírata í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar