Breiðablik sigraði Íslandsmótið í garpasundi

Íslandsmótinu í Garpasundi er nú lokið en óhætt að segja að árangurinn hafi verið mjög góður. Alls féllu 30 garpamet og mikil spenna í mörgum riðlum. Breiðablik varð hlutskarpast í lokin og stóð uppi sem Íslandsmeistari, en ellefu félög sendu lið á mótið með kringum 120 sundmenn.

Mikil áhersla er á að hafa gaman og hvetja, þótt keppni sé líka til staðar. Þannig eru sundmenn á aldrinum frá 25 til rúmlega 80 ára, þar sem hver syndir á sínum forsendum. Til dæmis var gríðarleg spenna í elsta aldursflokk kvenna þegar þær Ragna María Ragnarsdóttir frá Ægi (75), Guðmunda Ólöf Jónasdóttir frá Borgarnesi (74), Berta Sveinbjarnardóttir (71) og Ingibjörg Bjartmarz (71), báðar frá Breiðablik, háðu mikla baráttu í 50 m skriðsundi. „Þetta var ótrúlega skemmtilegt og það er stórkostlegt hvað góður félagsskapur og stemning er hvetjandi. Ef það væri ekki fyrir góðan félagsskap í Breiðablik væri ég ekki svona dugleg að taka þátt,“ sagði Berta Sveinbjarnardóttir.

Hákon Jónson þjálfari kátur

Íslandsmótið fór fram í Kópavogslaug og lauk með góðri uppskeruhátíð. Í heildina urðu sundin 460 og margir þreyttir að loknu móti. Breiðablik var á heimavelli og þótti þeim skemmtilegt að landa titlinum, en þetta er í annað skipti síðustu 30 ár sem Breiðablik nær þessum árangri.

Hákon Jónsson þjálfari var glaður og þreyttur í mótslok. „Verð að þakka þeim fjölda sjálfboðaliða sem sinntu ótrúlegu verki með sóma og Kópavogsbæ fyrir að standa með okkur í mótshaldinu. Auðvitað er gaman að verða Íslandsmeistari með þennan flotta hóp og yndislegt hversu margir þorðu að fara út fyrir þægindaramman og henda sér í góðan sundsprett á sínum forsendum.“

„Það er greinilegt að sundið er á góðri siglingu og nú er bara málið að smella sér í næstu sundlaug og hafa gaman“, segir Sverrir Óskarsson sem var í undirbúningsnefnd mótsins fyrir Breiðablik.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar