Breiðablik Meistarar meistaranna í fyrsta skipti

Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu bikarmeistara Víkings., 3-2, í Meistarar meistaranna á Kópavogsvelli í gærkvöldi, en þetta er í fyrsta sinn í sögu Breiðabliks sem félagið vinnur þessa keppni.

Það voru þeir Gísli Eyjólfsson, Patrik Johannesen og fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson sem skoruðu mörk Breiðabliks, en Patrik, sem kom frá Keflavík, kom að öllum mörkum Blika í leiknum og hann byrjar því mjög sterkt fyrir Blika.

Þetta er fyrsti titill sem Blikarnir vinna árinu og stefnan er sett á fleiri verðlaun. ,,Við gerum ákveðnar kröfur til okkar og það er m.a. að verða aðeins betri og geta unnið Íslandsmeistaratitilinn aftur auk þess sem við ætlum að ná lengra í bikar- og evrópukeppninni. Það er markmiðið okkar,“ segir Höskuldur í viðtali við Kópavogspóstinn og kgp.is sem kemur út í fyrramálið.

Hinn fullkomni opnunarleikur

Á mánudaginn hefst svo Besta deildin, en lokaleikur umferðarinnar fer fram kl. 20 á Kópavogsvelli er Breiðablik mætir grönnum sínum úr HK. Höskuldur segir í þessu sama viðtali að þetta sé fullkominn opnunarleikur fyrir Breiðablik, að mæta HK í fyrsta leik, með fulla stúku, en áréttar að þetta verði mjög erfiður leikur.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar