Breiðablik er Íslandsmeistari kvenna í fótbolta í nítjánda skipti eftir markalaust jafntefli við Val í hreinum úrslitaleik í lokaumferð Bestu deildarinnar á Hlíðarenda í gær. Breiðablik dugði jafntefli fyrir leikinn og voru heilt yfir líklegri til að skora lengst af í leiknum, en Valsstúlkur þjörmuðu vel af þeim síðustu 15 mínútur leiksins án þess að skora. Greinilegt var í lokinn að mikið stress var komið í Blikaliðið sem hugsaði eingöngu að fá ekki á sig mark og það tókst. Breiðablik endaði því tímabilið með 61 stig og Valur 60, en þessi tvö lið voru með mikla yfirburði í deildinni og skáru sig úr.
Til hamingju Breiðablik. Fleiri myndir og ítarlegri umfjöllun verða í Kópavogspóstinum á fimmtudaginn.