Bræðurnir frá Kópavogsbúinu

Ný heimildamynd Marteins Sigurgeirssonar, Bræðurnir frá Kópavogsbúinu, verður frumsýnd í Salnum í Kópavogi miðvikudaginn 11. maí. Sýninguna ber upp á afmælisdegi Kópavogsbæjar sem er einkar viðeigandi í ljósi yrkisefnisins.

Bræðurnir frá Kópavogsbúinu byggir á viðtali Marteins við bræðurna Magnús, Einar og Guðmund Óskarssyni, frumbyggja í Kópavogi en fjölskylda þeirra settist að í Kópavogi árið 1930 þar sem faðir þeirra Óskar Eggertsson starfaði sem bústjóri að Kópavogsbúinu.

Myndin dregur upp lifandi mynd af æskuheimi bræðranna og lífinu í strjálbýlum Kópavogi fyrir margt löngu. Þar tóku þeir bræður þátt í almennum sveitastörfum og sóttu skóla í Reykjavík. Þeir áttu eftir að láta til sín taka á sviði íþrótta, stofnuðu íþróttafélagið Fálkar, tóku þátt í  stjórnarstörfum á upphafsárum Breiðabliks og voru virkir í skátastafi ásamt því að reka nýlenduvöruverslun við Hafnafjarðarveg í samstarfi við föður sinn.

Sýningin hefst klukkan 12:15 og er klukkustund að lengd. Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar