Börn eru fljót að læra og tileinka sér það sem þau sjá og heyra sama hvort það er gott að slæmt

Leikskólinn Furugrund hefur á undanförnum árum verið að innleiða uppeldisstefnu jákvæðs aga með fínum árangri, en til að ná settu marki og nálgast lokapunktinn leituðu forsvarsmenn leikskólans í lok apríl til Arnrúnar Maríu, sem rekur stofuna Samtalið, fræðsla ekki hræðsla, en hún hefur undanfarin fjögur ár hlotið viðurkenningar, tilnefningar til foreldraverðlauna Heimilis og skóla fyrir Lausnahringinn, árið 2020 og 2021, Samtalið fræðsla ekki hræðsla árið 2022 og árið 2023 var Arnrún María sjálf tilnefnd sem dugnaðarforkur Heimilis og skóla.

Lausnahringurinn inniheldur 7 lausnir í samskiptum

Arnrún var fengin tímabundið inn í Furugrund til að koma inn með áherslur Lausnahringsins og aðstoða við innleiðingu hans, en um hvað snýst Lausnahringurinn og hvernig virkar hann? ,,Lausnahringurinn er hluti af hugmyndafræði Jákvæðs aga (Positive discipline) sem er uppeldisstefna byggð á sjálfsstjórnarkenningum. Lausnahringurinn inniheldur 7 lausnir í samskiptum, sem efla börn og fullorðna að setja og virða mörk í samskiptum. Það mikilvæga og fallega við Lausnahringinn að hann hefur og verður alltaf í þróun og mótun með því samfélagi sem hann er í hverju sinni, það sem skiptir máli er að börnin séu höfð með í innleiðingunni. Upphaflega fór ég að vinna með hann árið 2018 í leikskólanum Brákarborg þar sem ég var deildarstjóri fyrir elstu börn. Lausnahringurinn gengur út á að þjálfa börnin í gegnum leikinn að leita lausna í þeim áskorunum í samskiptum, sem koma upp hverju sinni, t.d. að skiptast á með dót, að stoppa þegar þau eru beðin um það o.s.frv. Því má segja að þetta sé stöðug þjálfun, þegar börnin finna hvað það er gott að geta notað setningar eins og „eigum við að skiptast á“ eða „viltu stjórna þér“ og finna að það virkar, þá verða þau öruggari í samskiptum. Eins læra þau að óska eftir hjálp við mismunandi aðstæður og kennir þeim að þekkja eigin tilfinningar betur. Þjálfun í félags- og tilfinningafærni er mikilvæg strax á leikskólaaldri og út alla ævina, Lausnahringurinn er gott verkfæri í þá þjálfun.Hann er í mínum huga forvörn gegn ofbeldi, hann tekur á og þjálfar okkur öll að taka samtalið um tilfinningar og það að virða og setja mörk í samskiptum. Við erum að þjálfa börnin okkar í umferðareglum frá því þau eru 3ja ára og eldvörnum 5 ára, ég tel afar mikilvægt að við gleymum ekki forvörnum í samskiptum sem geta haft grafalvarleg áhrif á framtíð barna ef ekki er vel að gáð.“

Börn eru svo sannarlega fljót að læra og tileinka sér það sem þau sjá og heyra

Eiga börn erfitt með að vega og meta hvar mörkin liggja í samskiptum og hvar liggja þau í raun – hvernig eru samskiptin okkar í dag? ,,Já, því miður, þá er samfélagið okkar með tilkomu síma og annarra tækja sem taka frá okkur t.a.m. augnsamband og nánd í samskiptum stór áhrifaþáttur þar. Börn læra það sem fyrir þeim er haft segir einhversstaðar, þau eru svo sannarlega fljót að læra og tileinka sér það sem þau sjá og heyra. Ég hef fengið töluvert af foreldrum til mín á stofuna í Samtalið fræðsla ekki hræðsla sem eru komin út í horn við að setja mörk gagnvart börnum sínum, hjá sumum er það óttinn við að gera vitleysu í uppeldinu, þau vilja ekki bregðast börnum sínum. Ég tel að með því að taka samtalið við bæði börn og fullorðna um hvernig samskiptin eru þá náum við betri árangri. Það er ástæða þess að Lausnahringurinn varð til á sínum tíma, börnin í leikskólanum voru markalaus og virtu ekki mörk hvors annars, eftir að ég tók samtalið við þau um þessa hegðun og hvað væri til ráða. Þá komu þau sjálf með þá tillögu að teikna upp þessar lausnir sem þau gætu haft sýnilegar fyrir sig í leikskólanum og þá myndu þau frekar fara eftir því sem raun bar vitni. Það er líka galdur Lausnahringsins að hafa hann sýnilegan í umhverfinu, það hjálpar okkur að leita lausna í samskiptum. Fullorðnir gætu reynt að keyra götur án umferðamerkja, það þarf að minna okkur á þau, þetta er svipað dæmi, sýnilegar reglur.“

Lausnarhetjan kom í heimsókn á Furugrund

Menningarmunurinn er heilmikill hér á landi

En það er mikilvægt að allir kunni að setja og virða mörk í samskiptum við hvort annað, en er það ekki svolítið flókið? ,,Svo sannarlega er það flókið, tala nú ekki um að menningarmunurinn er heilmikill hér á landi. Við búum í samfélagi þar sem íbúar eru með ólíkan bakgrunn, uppvöxt og jafnvel flúið hingað frá stríði. Það segir sig sjálft að börn sem alast upp við það að vera stöðugt í ótta og jafnvel á flótta eru ekki vel í stakk búin að skilja það að setja mörk og virða mörk í samskiptum. Sama má segja um börn sem alast upp við flóknar heimilisaðstæður.“

Þurfum að hætta að dæla stöðugt nýjum og nýjum verkefnum inn í skólakerfið okkar

Hvernig stöndum við okkur í þessu og hverjar eru helstu áskoranir í dag? ,,Við erum öll í þessu saman og íslenskt samfélag á að mínu mati að geta gert enn betur, við þurfum að hætta að dæla stöðugt nýjum og nýjum verkefnum inn í skólakerfið okkar, það er svo mikilvægt að gefa rými fyrir tíma. Kennarar verða að fá tíma og rými til að ná utan um skóladaginn í samstarfi við nemendur og foreldra. Við þurfum að hafa miklu meiri tíma og rými það er eitthvað sem sárvantar í samfélagið okkar heilt yfir.“

Leikskólar fullir af glæsilegu, metnaðarfullu starfsfólki, sem brennur fyrir það að vera til staðar og efla börn

Þú varst ráðin tímabundið til að koma inn með áherslur Lausnahringsins og hefur lokið við formlega innleiðingu í leikskólanum. Hvernig finnst þér svo innleiðingin hafa gengið, hvernig gekk að vinna með leikskólabörnunum og starfsfólki leikskólans við innleiðinguna og hafa samskiptin breyst? ,,Það sem er stórkostlegt við leikskóla hér á landi er að almennt eru þeir fullir af glæsilegu, metnaðarfullu starfsfólki, sem brennur fyrir það að vera til staðar og efla börn. Furugrund engin undantekning, starfsfólkið og börnin tóku mér virkilega vel og mér leið strax eins og ég væri ein af hópnum. Þetta gekk vonum framar og er gaman að sjá hvernig samskipti þeirra hafa breyst og börnin sjálf farin að taka uppá því að segja „hey, við skulum bara skiptast á með bílana“ frekar en að vera að fara beint og suða í kennara um að fá ekki að vera með. Lausnahringurinn er svo einfalt verkfæri en svo gríðarlega mikilvægt.“

Allir verða öruggari í samskiptum

Hjálpar Lausnahringurinn við að halda úti góðu leikskólastarfi er kemur að samskiptum á milli leikskólabarna og einnig á milli leikskólabarna og starfsfólks? ,,Já, algjörlega að mínu mati. Í heildina ná allir að njóta dagsins betur, börnin eru öruggari í leik og samskiptum sín á milli, starfsfólkið nær að vera með þeim í leiknum og þarf minna að vera að leiðbeina í árekstrum í samskiptum því það minnkar hratt og allir verða öruggari í samskiptum.“

Bókabíó með lausnahringsívafi

Baka þá köku sem þeim finnst bragðgóð

Er svo auðvelt fyrir starfsfólkið að viðhalda áherslum Lausnahringsins eftir að þú hverfur frá? ,,Já, vegna þess að þau hafa verið með mér í öllum stundum, þau hafa haft áhrif á það sem við erum að gera, við gerum þetta saman. Það má líkja þessu við að ég hafi komið með ákveðna uppskrift og hráefni, þau hafi smakkað á henni, síðan eru þau farin að bæta sínu hráefni við og baka þá köku sem þeim finnst bragðgóð. Það sem er dásamlegt við Lausnahringinn að hann er hægt að innleiða og halda á lofti með hvaða sögubók sem er því flestar ef ekki allar bækur fjalla um samskipti – þannig er hægt að taka umræðuna með tilliti til þroska og getu hvers hóps fyrir sig. Enginn þarf að óttast að gera vitleysur eða eyðileggja eitthvað, hann þróast og mótast í því samfélagi sem er til staðar hverju sinni.“

Starfsfólk þarf oft á tíðum að fá aukið svigrúm til að viðra upplifun og amstur dagsins

Hvað svo með framhaldið hjá þér, ertu að innleiða áherslur Lausnahringsins inn í fleiri leikskóla í Kópavogi? ,,Framhaldið er spennandi, ég er að fara töluvert út á land með innleiðingu. Það sem er skemmtilegt er að frístundaheimili eru farin að tileinka sér Lausnahringinn auk þess sem grunnskóli er að byrja að innleiða hann alveg upp í 10. bekk nú í haust, það verður spennandi að sjá,“ segir hún og bætir við að lokum.: ,,Þjónustan mín í Samtalinu er ýmist rafræn eða á staðnum allt það sem hentar hverjum skóla fyrir sig. Auk þess sem ég tek á móti kennurum og starfsfólki í skólakerfinu þau þurfa oft á tíðum að fá aukið svigrúm til að viðra upplifun og amstur dagsins, ég veit út á hvað leikskólastarfið gengur og æði oft er það nóg að fá óháðan aðila til að tala við til að sjá nýjar eða breyttar lausnir í starfinu sínu. Síðan hefur það færst gríðarlega í aukana að foreldrar og fjölskyldur eru að koma til að tileinka sér Lausnahringinn og boðskap hans. Ég held spennt inn í komandi skólaár.“

Forsíðumynd: Viðurkenning! Arnrún (fyrir miðju) afhendir Evu Sif Jóhannsdóttur leikskólastjóra á Furugrund (l.t.h.) og Helgu Hönnu Þorsteinsdóttur aðstoðarleikskólastjóra tvær viðurkenningar frá Samtalinu fræðsla ekki hræðsla.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar