Meirihlutinn hefur hafnað tillögu minnihlutans í bæjarráði um umsögn frá Veðurstofa Íslands, Svæðisskipulagsstjóra Höfuðborgarsvæðins og skipulagsfulltrúa Kópavogsbæjar er varðar Gunnarshólma (breytt svæðisskipulag. Vaxtarmörk) úr fundargerð skipulags-og umhverfisráðs, en tekist var um málið á fundi bæjarráðs í byrjun vikunnar.
Gögn frá sérhagsmunaaðilum eingöngu rædd
,,Aftur hafnar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks bæjarfulltrúa um umsögn í máli þar sem óskað er eftir sjónarmiðum áður en ákvörðun er tekin. Með því að hafna ósk um umsögn frá ólíkum aðilum er meirihlutinn að stuðla að því að málið fari til umfjöllunar einungis með gögn frá sérhagsmunaaðilum,“ segir í bókun minnihlutans í bæjarráði.
Vanþekkingu á skipulagsferlinu
,,Bókun minnihlutans lýsir vanþekkingu á skipulagsferlinu. Til þess að kalla megi eftir umsögnum hagaðila þarf málið að fara fyrir svæðisskipulagsnefnd og samþykkja þarf að auglýsa skipulagslýsinguna. Aðkoma sérfræðinga, hagaðila og almennings er tryggð í auglýsingaferlinu lögum samkvæmt. Það felur í sér víðtækari og upplýstari umræðu sem styður við vandaða ákvörðunartöku í málinu,“ svaraði meirihlutinn.
Ættum að fagna frekari gögnum og sjónarmiðum,fremur en að líta á þau sem óþarfa inngrip í ferlið
Minnihlutinn vísaði ásöknum um vanþekkingu á bug og hann segist vera fullkomlega meðvitaður um að formleg aðkoma hagaðila, sérfræðinga og almennings sé tryggð í auglýsingaferlinu, í samræmi við lög og reglur um skipulagsmál. ,,Hins vegar telja undirrituð eðlilegt og ábyrgðarfullt að afla upplýsinga og sjónarmiða áður en málið fer til afgreiðslu í svæðisskipulagsnefnd. Slíkt stuðlar að vandaðri ákvarðanatöku og tryggir að við, sem sitjum í bæjarstjórn, höfum nægjanleg gögn til að meta áhrif tillögunnar áður en hún er send í formlegt ferli. Það er hvorki fordæmislaust né óeðlilegt að óska eftir faglegri ráðgjöf áður en formleg umsagnarferli hefjast. Ef markmiðið er að taka upplýsta og vel rökstudda ákvörðun, ættum við að fagna frekari gögnum og sjónarmiðum, fremur en að líta á þau sem óþarfa inngrip í ferlið,“ segir í andsvari minnnihlutans sem benti á að nýverið hafi verið samþykktar nýjar siðareglur sem límdar eru upp á vegg í bæjarstjórnarsalnum. ,,Í fyrstu grein segir að bæjarfulltrúar starfi í þágu allra Kópavogsbúa með opnu samtali, virku upplýsingaflæði og hlusti á ólík sjónarmið.“ Minnihlutinn saknar þess að meirihlutinn virði ekki nýjar siðareglur.
Vonbrigði að sjá nálgun minnihlutans
Meirihlutinn segir það vonbrigði aðsjá nálgun minnihlutans á þetta mál. ,,Kópavogsbær er að fylgja lögbundnu skipulagsferli sem tryggir aðkomu ólíkra sjónarmiða eins og rakið er betur í fyrri bókun meirihlutans.“
Forsíðumynd: Stefnt er að því að byggja upp íbúðir og þjónustu fyrir fólk á þriðja og fjórða æviskeiði á Gunnarshólma og Geirlandi í landi Kópavogsbæjar