Bókasafn Kópavogs hlaut fjóra myndarlega styrki

Bókasafn Kópavogs hlaut fjóra myndarlega styrki á dögunum fyrir ýmis verkefni og er ljóst að það eru spennandi tímar framundan á safninu.

Safnið fékk 1.700.000 kr. styrk frá Bókasafnssjóði fyrir verkefnið ,,Bókasafnið í fjölmenningarlegu samfélagi“ en verkefnið snýr að því að koma betur til móts við allan þann fjölbreytta hóp fólks sem heimsækir Bókasafn Kópavogs og þar með virkja innflytjendur betur til þátttöku í ,,bókasafnssamfélaginu“ okkar.

Þá hlaut safnið einnig 800.000 kr. styrk frá Bókasafnssjóði fyrir fyrirlestraröðinni ,,FF röðin – ungmennin í forgrunni“, sem er fyrir foreldra ungmenna og hugsuð sem forvarnir á ýmsum málefnum sem tengjast þroska og uppeldi ungmenna. 

Síðan fékk bókasafnið 660.000 kr styrk frá Barnamenningarsjóði fyrir verkefnið ,,Blásum lífi í þjóðsögurnar“ en bókasafnið ætlar að kynna þjóðsögur Jóns Árnasonar fyrir börnum og unglingum á nýstárlegan og skemmtilegan hátt og halda þessum sagnararfi okkar á lofti. Börnin fá tækifæri til að vinna með þjóðsögurnar í ýmsum áhugaverðum smiðjum, sögustundum, myndlist ofl. Verkefnið verður unnið í samstarfi við skóla og leikskóla.

Að lokum hlaut safnið styrk frá Nordplus upp á 5.5 miljónir fyrir þróunar- og samstarfsverkefnið ,,The library in a multilingual society“, milli Bókasafns Kópavogs, Hässleholm City Library í Svíþjóð og Central Library of Lääne County í Eistlandi. Söfnin munu heimsækja hvert annað, læra hvert af öðru og þróa saman nýjar þjónustuaðferðir og spennandi verkefni sem munu höfða til fjölbreytts hóps. 

Starfsfólk Bókasafns Kópavogs þakkar vel fyrir styrkina og hlakkar til að vinna verkefnin sem hefjast öll í haust.

Forsíðumynd: F.v. Soffa Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi, Lísa Z. Valdimarsdóttir forstöðumaður Bókasafns Kópavogs, Vigdís Másdóttir kynningar-og markaðsstjóri menningarmála í Kópavogi og Agnes Ársælsdóttir, verkefnastjóri Hamraborgarfestivals.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar