Bókasafn Kópavogs fagnar 70 ára afmæli þann 15. mars n.k., en safnið var stofnað árið 1953. „Við ætlum að halda upp á afmælið með pompi og prakt og verður marsmánuður á safninu tileinkaður afmælinu“, segir Lísa Z. Valdimarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Kópavogs. Ljósmyndasýning með myndum úr starfsemi safnsins í gegnum árin verður sett upp, auk þess sem gamlir munir ganga í endurnýjun lífdaga. „Samfélagsmiðlar safnsins munu fyllast af ljósmyndum, viðtölum við Kópavogsbúa á öllum aldri og öðru skemmtilegu tengt sögu safnsins og verður gaman að rifja upp starfsemi síðustu áratuga með íbúum bæjarins“, bætir Lísa við. Boðið verður upp á köku og kaffi á sjálfan afmælisdaginn ásamt fjölbreyttum viðburðum. Má þar nefna jóga fyrir gesti og gangandi, sögustund fyrir leikskólabörn, tónleika og spilakvöld þar sem opið verður til kl. 21 þennan dag. Alla afmælisvikuna verður boðið upp á skemmtilega og flotta viðburði á hverjum degi og verður dagskrá auglýst þegar nær dregur. „Við hlökkum til að fagna þessum merku tímamótum með bæjarbúum og vonum að sem flestir taki þátt í dagskránni með okkur“, segir Lísa að lokum.
Forsíðumynd: Gamla safnið í Fannborg