Blakkonur á faraldsfæti

HK-ingarnir og blakararnir Matthildur Einarsdóttir og Sara Ósk Stefánsdóttir hafa skrifað undir samninga við lið DHV Odense í Danmörku og munu leika með liðinu á næsta tímabili.

Munu leika í dönsku úrvalsdeildinni

,,Þær Matthildur og Sara leika báðar með liði HK sem er nú í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en þær ætla að halda út fyrir landsteinana að tímabilinu loknu. Þær hafa samið við lið DHV í Odense um að leika með liðinu tímabilið 2021/22 þar sem liðið mun leika í dönsku úrvalsdeildinni. Sara leikur sem miðjumaður en Matthildur getur leyst margar stöður, þetta tímabilið hefur hún verið uppspilari hjá HK en hefur einnig spilað reglulega sem kantsmassari undanfarin tímabil.

Eru ríkjandi Íslandsmeistarar í strandblaki

Auk þess að vera öflugar í inniblaki eru Sara og Matthildur ríkjandi Íslandsmeistarar í strandblaki. Þær áttu frábært sumar í fyrra sem þær kórónuðu með sigri á Íslandsmótinu. Í Odense er afar góð strandblaksaðstaða, meðal annars innanhúss. Helsta strandblaklið Íslands, þær Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir, æfir einnig í Odense og munu Sara og Matthildur fá að spreyta sig eitthvað með þeim þó að áherslan verði á inniblakið.

Það er glæsilegt að sjá fleiri Íslenska leikmenn spila erlendis en Odense hefur lengi verið algeng lending hjá íslenskum blökurum. Auk þeirra Elísabetar og Berglindar leika þeir Ævarr Freyr Birgisson og Galdur Máni Davíðsson einnig í Odense, báðir með liði Marienlyst.“
Það eru Blakfréttir sem greina frá þessu (blakfrettir.is).

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar