Það er skammt stórra högga á milli hjá kvennaliði Breiðabliks í knattspyrnu þessa dagana. Á föstudaginn tryggðu liðið sér bikarmeistaratitilinn með sannfærandi sigri á Þrótti í úrslitaleik Mjólkurbikarsins og í kvöld kl. 19 bíður þeirra síðan erfitt verkefni er þær fá franska stórliðið, PSG, í heimsókn á Kópavogsvöll. Þetta er fyrsti leikur liðsins af 6 í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, en síðasti leikur liðsins í riðlinum er einnig gegn PSG þann 16. des. nk. Spænska stórliðið Real Madrid og WFC Kharkiv frá Úkraníu eru einnig með Breiðablik í riðlinum. Nú er bara að fjölmenna á völlinn í kvöld og styðja nýkrýnda bikarmeistara.
Á forsíðumyndinni eru systurnar Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks og Kristín Dís Árnadóttir.