Bergljót vill leiða lista Samfylkingarinnar

Bergljót Kristinsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar gefur kost á sér í fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi

Dagana 18. – 19. febrúar fer fram flokksval um þrjú efstu sætin á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þátttaka er heimil félagsmönnum og skráðum stuðningsmönnum Samfylkingarinnar sem búa í Kópavogi. Hægt er að skrá sig sem stuðningsaðila eða félaga til hádegis þann 11. febrúar á slóðinni https://xs.is/takathatt.

Í starfi mínu sem bæjarfulltrúi síðastliðin fjögur ár hef fengið að kynna mér alla þá málaflokka sem stjórnun bæjarfélags snertir á. Ég hef reynt að hafa áhrif á ýmis mál, ekki endilega með hávaða heldur oftast með samtali. Oftast gengur það betur, sérstaklega þegar maður er í minnihluta.

Hér eru nokkur af mínum helstu baráttumálum í dag:

• Breytt ferli skipulagsmála þar sem aðgengi íbúa að tillögum og skoðanaskiptum er gert hærra undir höfði. Bjóðum upp á meira samtal og aðgengilegri upplýsingar.

• Að lýðheilsa sé höfð að leiðarljósi við þéttingu byggðar með góðum útivistarsvæðum fyrir íbúa. Nú síðast með tillögu minni um ylströnd á Kársnesi.

• Ég vil að kolefnisbókhald bæjarins verði opinbert bókhald þar sem bæjarbúar geti fylgst með framvindu bæjarfélagsins í að bæta sig í baráttunni við loftlagsvána. Tillaga mín um Skógræktarsvæði fyrir almenning og fyrirtæki í upplandinu var samþykkt í bæjarstjórn fyrir tveimur árum. Nú þarf hún að raungerast.

• Öruggt húsnæði fyrir alla, hvort sem er til leigu eða kaups. Námsmenn og íbúar með lágar tekjur sem þó geta ekki sótt um félagslegt húsnæði hafa orðið út undan í uppbyggingarstefnu núverandi valdhafa. Við þurfum að horfa á allt litrófið og tryggja öllum öruggt húsnæði.

• Leikskólapláss fyrir öll börn við eins árs aldur. Fæðingartíðni hefur hækkað í kjölfar Covid sem kallar á fleiri leikskólapláss núna og á næsta ári, en enginn nýr leikskóli er í byggingu.

• Samþætta þarf þjónustu við eldri borgara. Í dag er hún annars vegar á hendi heilsugæslunnar og ríkisins og hins vegar á hendi bæjarins og notendur þjónustunnar vita ekki hvert skal leita og hver er ábyrgur fyrir þjónustunni. Mikil fjölgun er fram undan í hópi eldri bæjarbúa og það kallar á skilvirkari þjónustu við þá og aðstandendur þeirra. Við þurfum að vinna okkur í haginn áður en verkefnið vex okkur yfir höfuð.

• Með auknum fjölda barna með annað móðurmál en íslensku þarf að beita nýjum og öflugari aðferðum til að minnka aðgreiningu vegna þessa þáttar innan skólakerfisins. Eina fjármagnsaukningin í þessum málaflokki á þessu kjörtímabili var fyrir þremur árum þegar Samfylkingin fékk samþykktar 62 milljónir á ári til að standa straum af betri íslenskukennslu fyrir þennan hóp. Á sama tíma hafði börnum með annað móðurmál en íslensku fjölgað um 50% og þeim heldur áfram að fjölga.

• Að gera gögn um rekstur bæjarins aðgengilegri fyrir bæjarfulltrúa sem eru eftirlitsaðilar með rekstri bæjarins og bjóða bæjarbúum upp á betri upplýsingar um reksturinn.
Þessi mál ásamt mörgum fleirum þurfa okkar stuðning áfram og til þess bíð ég fram krafta mína á komandi kjörtímabili. Ég vona að ég fái að halda áfram að vinna að betra bæjarfélagi í samvinnu við bæjarbúa, starfsmenn og aðra ráðsmenn bæjarins.

Bergljót Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar