Barnvænasti bær landsins

Sem móðir þriggja barna á aldrinum fjögurra til níu ára þekki ég af eigin raun hvað öflugir leik- og grunnskólar, íþrótta- og frístundastarf skipta bæjarfélagið okkar miklu máli. Við í Kópavogi erum heppin að hér starfi kennarar og leiðbeinendur, bæði í skólum og barnastarfi, sem hafa metnað og löngun til að hlúa vel að yngstu íbúum bæjarins og stuðla að því að börnin okkar séu tilbúin fyrir næstu skref í lífi sínu. Því eins og sagt er: Lengi býr að fyrstu gerð.

Þrátt fyrir að skólar séu bundnir af námskrá er ótal margt sem við í Kópavogi getum gert til að bæta umhverfi barnanna í bænum. Við getum veitt þeim og starfsfólki margvíslegan stuðning, aðstoð og utanumhald og þannig stuðlað að heilsu og vellíðan í öllu starfi með börnum.

Píratar í Kópavogi eru með metnaðarfulla stefnu í málefnum barna. Hún er í 50 liðum og því ómögulegt að gera henni allri skil í þessari stuttu grein. Leiðarstefið okkar er að barnið og þarfir þess séu í öndvegi, sem og mikilvægi þess að efla og virða fagmennsku í öllu starfi með börnum bæjarins. Markmiðið er að allt barnastarf og þjónusta við börn mótist frá þörfum barnsins fremur en kerfisins þannig að barnið fái alltaf að njóta vafans. Enda er það svo að börnum sem líður vel farnast vel.

Til þess að svo megi verða er að mörgu að huga. Til að mynda viljum við að öllum börnum bjóðist leikskólapláss í nærumhverfi sínu að loknu fæðingarorlofi en forsjáraðilar geti að öðrum kosti fengið heimgreiðslur meðan beðið er. Við viljum efla tækifæri fjölskyldna til að verja meiri tíma saman og stuðla þannig að öruggri tengslamyndun barna og forsjáraðila. Við viljum tryggja jafnréttis-, hinsegin-, kynja- og kynfræðslu fyrir öll börn á öllum skólastigum og í félagsmiðstöðvum. Ennfremur viljum við að öll börn geti notið góðs af íþrótta- og tómstundastarfi til 18 ára aldurs í skjóli fyrir afreksmiðaðri nálgun, og styðja vel við heimili í viðkvæmri stöðu. Meginmarkmiðið er skýrt: Að kerfi bæjarins gangi í takt svo að börn, fjölskyldur þeirra og starfsfólk fái stuðninginn sem þau þurfa til að næstu kynslóð bæjarbúa farnist vel.

Sem fyrr segir er þetta aðeins brot af því sem við Píratar viljum gera í málefnum barna í Kópavogi. Ef þú hefur áhuga á að kynna þér stefnumálin okkar betur getur þú nálgast þau í heild sinni á vef okkar, piratar.is/kopavogur. Ég er sannfærð um að áherslur okkar Pírata munu gera Kópavog að barnvænasta bæ landsins og ég vona að við fáum þitt traust til að hrinda þeim í framkvæmd.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar