Barnamenningarhátíð sett í Kópavogi

Myndlistarsýningar, örsögusamkeppni, tónlistarævintýri og danspartý er á meðal þess sem boðið verður upp á á Barnamenningarhátíð í Kópavogi.

Söguhetjur ævintýranna

Hátíðin verður sett í dag, þriðjudaginn 5.apríl en þá verður opnuð falleg sýning á Bókasafni Kópavogs með litríkum teikningum 120 leikskólabarna úr sex leikskólum í Kópavogi. Teikningarnar unnu börnin út frá vangaveltum um söguhetjur í ævintýrum en í aðdraganda Barnamenningarhátíðar heimsóttu Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur og Gréta Björg, deildarstjóri á Bókasafninu, leikskólabörnin og spjölluðu um ímyndunaraflið, sköpunargáfuna og ævintýrin allt um kring.

Á bókasafninu verða einnig til sýnis örsögur eftir börn í 5.bekk í grunnskólum Kópavogs en sögurnar sömdu börnin í ritsmiðjum fyrr í vetur og undir áhrifum af sagnaheimi H. C. Andersen, Tove Jansson og Astrid Lindgren. Úrval sagnanna var gefið út á bók sem liggja mun frammi á bókasafninu en verkefnið var undir merkjum Vatnsdropans.

Loftlagslínur og sólarprent

Á Náttúrufræðistofu stendur yfir áhugaverð sýning á verkum 400 nemenda í 10. bekkjum í Kópavogi sem tóku þátt í Leggjum línurnar, loftslagsverkefni Náttúrufræðistofu, en verkefni var styrkt af Loftslagssjóði haustið 2021. Laugardaginn 9.apríl fer fram uppskeruveisla verkefnisins undir yfirskriftinni Allra veðra von! Sævar Helgi Bragason flytur aðgengilega örfyrirlestra um loftslag, veður og snjallar loftslagslausnir og hægt verður að taka þátt í fjölbreyttum leikjum og þrautum fyrir alla fjölskylduna: loftslagslínupúsl, vangaveltur um vistspor, veðurþáttaratleik og meira og fleira.

Á Gerðarsafni verður sýning á sólarprenti eftir ríflega 100 börn úr 1. bekk Kársnesskóla og Smáraskóla. Verkin eru unnin í Barnamenningarviku, 4.-8. apríl, í smiðjum hjá Hjördísi Höllu Eyþórsdóttur í Gerðarsafni.

Skemmtileg hátíðardagskrá 9. apríl

Laugardaginn 9. apríl verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Leikhópurinn Lotta mætir á Bókasafn Kópavogs með söng, sprell og fjör fyrir allan aldur, barnakórar og marimbusveit syngja og spila og rokksveitin Hvassviðri tekur nokkra vel valda slagara en meðlimir hennar stunda allir nám við Tónlistarskóla Kópavogs. Tónlistarævintýrið Búkolla eftir Gunnar Andreas Kristinsson verður frumflutt í Salnum og í Gerðarsafni mun Björk Viggósdóttir leiða grafíklistsmiðju.

Spennandi örsögusamkeppni

Milli klukkan 15 og 16:30 verður boðið upp á æsispennandi keppni í skrifum örsagna sem leidd verður af rithöfundunum Gerði Kristnýju,  Lindu Ólafsdóttur og Aðalsteini Emil Aðalsteinsson.

Örsögusamkeppnin fer fram á Bókasafni Kópavogs og lagt verður út frá norrænum klassískum barnabókmenntum eftir H. C. Andersen, Tove Janson og Astrid Lindgren. Þar segja rithöfundarnir örstutt frá hinum norrænu klassísku barnabókahöfundum sem Vatnsdropinn byggir á, ungu höfundunum til hvatningar.
Því næst er skrifað í 30 mínútur og að því loknu er öllum sögum skilað inn en þau Gerður Kristný, Linda og Aðalsteinn skipa dómnefndina.
Sigurvegarinn verður síðan kynntur á Vatnsdropahátíð sem haldin verður síðar í apríl og hlýtur hann ferð til H.C. Andersen safnsins í Óðinsvéum í verðlaun.

Það verður svo sannarlega eitthvað fyrir alla á Barnamenningarhátíð í Kópavogi 2022 og er ítarleg dagskrá hátíðarinnar aðgengileg á www.meko.is.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar