Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks fór fyrir sínu liði í bikarleiknum á móti Þrótti. Ásta Eir býr að mikilli reynslu þegar kemur að bikarúrslitaleikjum en þetta var hennar þriðji bikarmeistaratitill. Hún vann bikarinn fyrst árið 2016 og svo aftur tveimur árum seinna, árið 2018.
En fyrirliðinn er væntanlega sáttur með sitt lið eftir sigurinn á móti Þrótti? ,,Gríðarlega sátt með liðið og hvernig við mættum í leikinn. Það var löng bið eftir leiknum en við náðum að stilla hausinn rétt og mættum mjög grimmar til leiks sem skilaði okkur bikarnum.”
Hvernig var upplifunin i leiknum, fannst þér allan tímann þið hafa góða stjórn á leiknum? ,,Þetta var hörkuleikur. Þróttarar mættu mjög ákveðnir til leiks og sóttu á okkur til að byrja með. Við vorum ekki að spila okkar besta leik og leikurinn var frekar jafn í fyrri hálfleik en við nýttum tækifærin sem við fengum vel og uppskárum tvö mörk inní hálfleikinn. Um leið og þriðja markið kom þá fannst mér við sigla þessu þægilega heim. Þetta var svo alveg komið þegar við skorum fjórða markið. En svona heilt yfir þá fannst mér við stjórna leiknum nokkuð vel. Við vorum líka yfir í baráttunni og grimmdinni og það er það sem skilaði sigrinum.”
Bestu stuðningsmenn landsins
Það hefur væntanlega verið gaman að lyfta bikarnum að leik loknum fyrir framan ykkar frábæru stuðningsmenn? ,,Það var ótrúlega skemmtilegt að lyfta titli fyrir Breiðablik, uppeldis-félagið mitt. Mjög stolt af því. En það sem gerði það ennþá betra voru þessir frábæru stuðnings-menn okkar sem voru gjörsamlega geggjaðir allan leikinn. Held að það sé óhætt að segja það að við eigum bestu stuðningsmenn landsins. Sérstakt shoutout á Kópacabana sem hafa verið frábærir í sumar.”
Er þetta ekki bara gott afrek að landa bikarmeistaratitlinum eftir miklar leikamannabreytingar fá síðasta sumri? ,,Jú, það er alveg hægt að segja það, við misstum nokkra mjög góða leikmenn en við fengum líka góða leikmenn til okkar og leikmenn komu til baka eftir löng og erfið meiðsli sem hafa gert mjög mikið fyrir liðið. Sama má segja um þjálfarann hann Villa sem tók við stuttu fyrir mót, það hefur ekki verið auðvelt verkefni en hefur gengið virkilega vel. Árangurinn á þessu tímabili er því bara mjög góður, 2. sæti í deildinni, bikarmeistarar og komnar í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.”
En þótt það sé kominn október og veturinn framundan þá er ný keppni að hefjast hjá ykkur. Meistaradeildarleikur við PSG í kvöld, miðvikudag. Hvernig líst þér á þá keppni og er ekki bara ánægjulegt að vera ekki að fara i frí? ,,Þetta leggst ótrúlega vel í okkur. Klárlega eitthvað sem við erum ekki vanar, að spila svona stóra leiki á þessum tíma en við kvörtum ekki yfir því,” segir hún brosandi.
Ákveðið próf
Og gaman að bera sig saman við þá bestu? ,,Já, ekki spurning, þetta er ákveðið próf fyrir okkur sem lið til að sjá hvar við stöndum á meðal þeirra bestu í Evrópu.”
Hverja metur þú möguleika ykkur i riðlinum? ,,Það er svolítið erfitt að segja um það, en þetta verða allt mjög erfiðir leikir, við gerum okkur alveg grein fyrir því. En þetta er líka bara fótbolti og það getur allt gerst í fótbolta.”
Þurfum að mæta stórar og stoltar í þessar leiki
Og eftir PSG bíður ykkur annað stórlið, Real Madrid. Þetta verður sankallað ævintýri hjá ykkur? ,,Já það eru bara forréttindi að fá að vera í þessari stöðu og spila við þessi stórlið. En við erum ekki komnar svona langt til að hætta núna og ætla bara að vera með. Við þurfum að mæta stórar og stoltar í þessa leiki, með kassann út og sækja stigin.”
Peningarnir að aukast í kvennaboltanum
Og svo er frábært hvað það eru komnir miklir peningar i kvennaboltann, sem er stöðugt að eflast og verða stærri? ,,Já, algjörlega. Löngu orðið tímabært og eykst vonandi bara með árunum. Við stelpurnar erum að æfa og leggja alveg jafn mikið á okkur og karlarnir, þannig finnst mér ekkert nema eðlilegt að peniningar fari loksins að aukast kvennamegin.”
Ættu þessir peningar ekki að hjálpa ykkur til efla liðið ykkar og umgjörð enn frekar? ,,Jú,
þeir vonandi gera það. Umgjörðin hjá Breiðablik hefur alltaf verið frábær, bæði fyrir okkur og strákana, en það er klárlega alltaf hægt að gera betur og vonandi nýtast þessir aurar í það.”
Og þú hvetur alla bæjarbúa og unnendur kvennaknattspyrnu til að fjölmenna a völlinn og hvetja ykkur á móti þessum liðum? ,,Ekki spurning og ekki bara unnendur kvennaknatt-spyrnu, bara knattspyrnuáhugafólk almennt. Það er ekki oft sem að stórlið eins og PSG og Real Madrid mæta til litla Íslands að spila. Þetta verða erfiðir leikir og því skiptir stuðningurinn miklu máli og hvet ég því fólk til að mæta á völlinn. Ég lofa góðri skemmtun,” segir hún brosandi og full tilhlökkunar.