Barátta við tilfinningu, hugrekki og viljastyrk

Fimleikakonan Valgerður Sigfinnsdóttir náði mögnuðum árangri og braut blað í sögu fimleikanna um þar síðustu helgi þegar hún varð fyrsta konan til að framkvæma þrefalt heljarstökk með hálfri skrúfu á bikarmeistaramótinu í hópfimleikum.

Þetta stökk er mikið afrek hjá Valgerði, sem fagnar einmitt 28 ára afmælinu sínu í dag, og það sem gerir þetta stökk enn ótrúlegra er að hún hefur verið að glíma við meiðsli á síðustu mánuðum.

Búinn að vera draumur lengi

Hvernig var að upplifa þetta magnaða stökk? ,,Það var frábært, það er búið að vera draumur hjá mér að keppa með þetta stökk í langan tíma,“ segir Valgerður.
 
Varstu stressuð í aðdraganda stökksins á mótinu eða ertu búin að taka þetta svo æft á æfingum að þú leiddir ekki hugann að því, ætlaðir þér bara? ,,Ég var stressuð, ég neita því ekki. En það var mest vegna þessa að ég vissi að ég gæti gert þetta vel og langaði að sýna það á mótinu.“
 
Og hvernig tókst svo stökkið, fullkomið eða eitthvað hægt að bæta? ,,Stökkið tókst mjög vel. Ég ræddi við dómarana eftir mótið og þeir sögðu að það hafi ekki verið teknir margir frádráttar punktar af stökkinu, en það eru alltaf einhver atriði sem maður getur bætt og ég ætla að vinna hart að þeim fram að Íslandsmóti.“

Svakaleg lofthæð! Valgerður í miðju stökki þar sem hún framkvæmdi þrefalt heljarstökk með hálfri skrúfu

Fór í aðgerða á ökkla síðasta sumar

Það er magnað að þú sért eina konan sem hefur framkvæmt þetta stökk á Íslandi sérstaklega þar sem þú hefur verið að glíma við meiðsli á undanförnum mánuðum. Við hvaða meiðsli hefurðu verið að glíma við og hvernig ertu í dag? ,,Ég meiddist á ökkla í mars 2019 og fór í aðgerð síðasta sumar og hef náð góðum bata. Það er alltaf erfitt andlega að vera meiddur og eftir að hafa reynt allt sem í mínu valdi stóð til að ná bata var loka úrræðið að fara í aðgerð. Aðgerðin tókst mjög vel til og  ég nýtti mér tímann eftir aðgerðina vel til að byggja upp styrk og er í mjög góðu standi núna bæði andlega og líkamlega.“

Tók stökkið fyrst árið 2016

Hefurðu stefnt lengi á að taka þetta stökk og það kannski frestast út af meiðslunum? ,,Ég lenti þetta stökk fyrst á æfingu 2016 og hef æft það við og við síðan þá. Æfingar á stökkinu gengu vel 2019 rétt áður en ég meiddi mig en þá frestaðist þetta einmitt vegna meiðsla.  Núna eftir fyrsta mótið hjá okkur, sem var í febrúar, byrjaði ég að æfa þetta stökk á fullu og setti mér það markmið að keppa með það á bikarmótinu.“

Valgerður var brosmild og ánægð eftir stökkið sem tókst enda var búinn að vera draumur hjá henni lengi að keppa á móti með þetta stökk.

Búinn að vera mikill andlegur rússíbani 

En það sem er líka ótrúlega skemmtilegt við þetta er að þótt þú sér mjög ung að árum, að verða 28 ára, þá er það kannski ekkert sérlega ungur aldur hjá fimleikafólki – telur styrkurinn og reynslan mikið þegar kemur að svona stökki – mikið andlegt líka að framkvæma svona stökk? ,,Já, reynslan og styrkurinn telur mjög mikið þegar það kemur að svona stökki.  Þetta er líka búin að vera mikill andlegur rússíbani fyrir mig, það er mjög langt síðan ég var að reyna við það að gera ný stökk tilbúið í keppni.“

Barátta við tilfinningu, hugrekki og viljastyrk

,,Ég hef reynt að setja ekki of mikla pressu á mig og reyna frekar að njóta þessa að æfa og stefna hátt og sjá hvert það kemur mér. Ég finn þó fyrir efa og stressi við og við, en mest finn ég fyrir mikilli baráttu tilfinningu, hugrekki og viljastyrks. Stuðningurinn sem ég hef fengið frá mínum liðsfélögum og þjálfurum er ómetanlegur og hafa þau gert þetta tímabil eitt það skemmtilegasta á mínum ferli. Allar þessar tilfinningar minna mig á það af hverju ég er í fimleikum.“

Lið Gerplu á bikarmótinu á dögunum en stúlkurnar taka þátt á Íslandsmótinu um helgina, þar þær ætla að veita Stjörnunni harða keppni um Íslandsmeistaratitilinn

Markmiðin skýr fyrir Íslandsmótið

En hvernig er svo með framhaldið hjá þér og ykkur í Gerplu. Íslandsmótið um næstu helgi. Hvernig er staðan á liðinu og hver eru markmiðin fyrir mótið? ,,Staðan á liðinu er góð. Það voru nokkrar sem sterkar stelpur sem gátu ekki verið með á Bikarmótinu vegna meiðsla en þær stefna á að vera klárar fyrir Íslandsmótið. Markmiðin okkar eru skýr, að fá öll mómentin gild í dansinum og lenda öll stökkin.“ 

Og þið eigið góðan möguleika á að velgja Stjörnukonum undir uggum, núverandi Íslands- og bikarmeisturum? ,,Við stefnum á að ná öllum okkar markmiðum og veita Stjörnunni mjög harða keppni,“ segir Valgerður að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar