Bætum þjónustu hjá Heilsugæslunni í Hamraborg og Hvammi

Starfsfólk Heilsugæslunnar í Hamraborg og Heilsugæslunnar í Hvammi leggur stöðugt áherslu á að bæta aðgengi skjólstæðinga stöðvanna að heilbrigðisþjónustu. Markmið okkar er að fleiri geti fengið þjónustu hjá okkur og að við nýtum starfskrafta allra sem starfa hjá okkur sem best.

Sigrún K. Barkardóttir

Við þekkjum öll umræðuna um aðgengismál í heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslustöðvar eins og önnur heilbrigðisþjónusta hafa búið við skort á heilbrigðisstarfsfólki. Á meðan svo er þurfum við að hugsa út fyrir kassann og leita að lausnum. Við í Hamraborg og Hvammi höfum undanfarið gert breytingar á þjónustu okkar til að mæta þessum vanda.

Stærsta breytingin sem fólk verður vart við er að hjúkrunarfræðingarnir okkar flokka erindi sem okkur berast. Þegar skjólstæðingur hefur samband símleiðis byrjar ákveðið ferli.

Fyrsta skrefið er að ritari sem svarar fær upplýsingar um hvort erindið sé brýnt eða hvort það megi bíða eftir tíma hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi. Ef skjólstæðingur telur sig geta beðið bókar ritarinn tíma fram í tímann. Ef skjólstæðingur telur sig ekki geta beðið eftir tíma og telur erindi vera brýnt bókar ritari símtal við hjúkrunarfræðing. Hjúkrunarfræðingurinn hefur samband samdægurs, metur erindið og kemur í viðeigandi farveg.

Öflugur hópur heilbrigðisstarfsfólks

Holds Mjöll Sveinsdóttir

Á Heilsugæslunum starfa m.a. hjúkrunarfræðingar, læknar, ljósmæður, ritarar, sálfræðingar, sjúkraliðar og sjúkraþjálfarar. Það er því öflugur hópur sem vinnur að því að bæta heilsu okkar skjólstæðinga.

Við hvetjum fólk sem telur sig þurfa þjónustu til að leita til okkar og leyfa okkur að meta erindið og veita aðstoð. Oft náum við að leysa málin með ráðgjöf í síma og spara fólki sporin. Mörg erindi eru samt sem áður þess eðlis að þau krefjast heimsóknar á stöðina.

Ekkert kerfi er fullkomið en með þessum hætti teljum við að meiri líkur séu á að fólk sem þarf á þjónustu að halda fái hana. Stefnan er að í vetur muni Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins aðstoða stöðvarnar við þessa flokkun erinda, eins og starfsfólk miðstöðvarinnar gerir nú þegar, fyrir nokkrar heilsugæslustöðvar. Upplýsingamiðstöðin er sístækkandi eining sem hefur það verkefni að veita ráðgjöf og aðstoð í veikindum. Hægt er að hafa samband allan sólarhringinn í síma 1700 og milli 8 og 22 alla daga vikunnar á netspjallinu á vefnum heilsuvera.is.

Viljum veita enn betri þjónustu

Það er gott fyrir okkar skjólstæðinga að vita af þessum breytingum og ástæðunum fyrir því að við veljum að fara þessa leið. Það er einlæg von okkar að við náum að veita örugga og góða þjónustu.

Huldís Mjöll Sveinsdóttir
Svæðisstjóri Heilsugæslunnar Hamraborg
Sigrún Kristín Barkardóttir
Svæðisstjóri Heilsugæslunnar Hvammi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar