Bærinn okkar

Kópavogur er glæsilegt bæjarfélag sem hefur vaxið mikið undanfarin ár. Bærinn á stóran sess í mínu hjarta og hef ég sinnt starfi bæjarfulltrúa með stolti síðustu átta ár. Á þessum tíma hef ég haft grunnhugsjón sjálfstæðisstefnunnar að leiðarljósi; að hafa frelsi til að velja. Við erum ekki öll eins. Þarfir okkar, áherslur og styrkleikar liggja á mismunandi sviðum. Öflugt bæjarfélag verður að geta boðið upp á fjölbreytta valkosti þegar kemur að allri grunnþjónustu

Ég hef jafnframt lagt áherslu á að rekstur bæjarins sé eins hagkvæmur og kostur er á. Með útsjónarsemi og forgangsröðun er hægt að ná hagræðingu sem nýtist bæjarfélaginu í heild. Á hverju ári undanfarin átta ár hafa fasteignagjöld verið lækkuð og það er mikilvægt að halda því áfram, bæði á íbúðar- sem og atvinnuhúsnæði. Með því að lækka skatta á bæjarbúa veitum við rekstrinum aðhald og drögum úr óþarfa sóun.

Auka faglegt svigrúm í skólum

Við þurfum að halda áfram að efla grunnskólana okkar. Það var mikið framfaraskref að spjaldtölvuvæða skólana, þannig hafa opnast tækifæri til að einstaklingsmiða kennsluna og veita nemendum víðtækari möguleika í námi. Ég legg áherslu á að efla faglegt og rekstrarlegt svigrúm í grunnskólum til að þeir geti skapað sína sérstöðu. Þannig tryggjum við að nemendur fái áskorun við hæfi sem eykur sjálfstraust þeirra og styrkir sjálfsmyndina.

Barnvænn bær með vönduðum og skemmtilegum leiksvæðum

Mikil endurnýjun hefur verið gerð á bæði leik- og grunnskólalóðum í Kópavogi. Það er mikilvægt að klára þá vinnu við alla skóla bæjarins ásamt því að auka gæði leik- og útivistasvæði í Kópavogi enn frekar. Upplásnu ærslabelgirnir hafa vakið mikla lukku hjá ungu kynslóðinni og sýna hvað skemmtileg útivistarsvæði geta aukið gæði íbúa. Útivist er einn liður í góðri lýðheilsu og við viljum bjóða upp á fjölbreytta útivistarmöguleika um allan Kópavog.

Öryggi barna í umferðinni

Sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar lagði ég áherslu á að auka öryggi á gönguleiðum barna í skólann. Aukin lýsing ásamt betri merkingum skapa öruggara umhverfi fyrir börnin okkar og þarna eru möguleikar í að gera enn betur fyrir alla bæjarbúa.

Ýmsar snjalllausnir eru nú í boði eins og hreyfistýrð lýsing við gangbrautir sem kveiknar á um leið og farið er yfir götuna. Slíka lýsingu þarf að innleiða í Kópavogi. Einnig eigum við að halda áfram uppbyggingu á göngu- og hjólastígunum okkar ásamt því að aðskilja umferð gangandi og hjólandi á fjölförnum samgöngustígum.

Fjölbreyttir valkostir á efri árum

Öll erum við einstök og höfum mismunandi óskir og væntingar í lífinu. Þegar á efri árin er komið á valkostum ekki að fækka. Fjölbreytni í heimaþjónustu eykur lífsgæði og er hagkvæm fyrir samfélagið. Eldri borgarar eiga að geta valið milli þjónustuaðila og einnig að eiga kost á dvalar- og hjúkrunarrýmum þegar þess er þörf. Gott val og öflug þjónusta fyrir fólk á efri árum er góður mælikvarði á gæði sveitarfélaga og þar á Kópavogur að vera til fyrirmyndar.

Framundan eru spennandi tímar í Kópavogi. Mig langar til að starfa áfram fyrir bæjarbúa og óska eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sem fram fer 12. mars

Hjördís Ýr Johnson. Bæjarfulltrúi og varaformaður skipulagsráðs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar