Bæjarstjórn Kópavogs sendir hlýjar kveðjur til Fjarðabyggðar

Bæjarstjórn Kópavogs fundaði í gær og stóðu allir fulltrúar hennar saman að því að senda kveðju til Fjarðabyggðar, en þrír af ellefu bæjarfulltrúum í Kópavogi hafa sterk tengsl við Norðfjörð sem er nokkuð hátt hlutfall. Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata er fædd og uppalin þar, þá á Bergljót Kristinsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar ættir sínar að rekja þangað og Helga Jónsdóttir, oddviti Vina Kópavogs var bæjarstjóri í Fjarðabyggð á árunum 2006-2010.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir er fædd og uppalinn við Norðfjörð

Bókun bæjarstjórnar Kópavogs var svohljóðandi, en bæjarritara var falið að koma henni til skila austur á land:

,,Bæjarstjórn Kópavogs sendir hlýjar kveðjur til Fjarðabyggðar í ljósi þeirra hamfara sem hafa dunið þar yfir.
Hugur okkar er hjá íbúum Fjarðabyggðar sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og standa nú í ströngu við að takast á við afleiðingar atburðanna.“

Bestu kveðjur heim

Sigurbjörg Erla skrifaði inn á fésbókarsíðu sína: ,,Bestu kveðjur heim – og til Seyðisfjarðar! Ég dáist að dugnaði og samtakamætti ykkar og vona að þessu ástandi fari að ljúka án frekara tjóns.

Meðfylgjandi mynd er frá sólríkum sumardegi í Norðfirði (það er ekkert fegurra!) sem Haraldur Egilsson bróðir minn tók, en hann og fjölskylda hans eru meðal þeirra sem hafa þurft að yfirgefa húsið sitt og vita ekki hvenær þau komast aftur heim,“ segir í fésbókarfærslu Sigurbjargar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar