Bæjarstjóri samþykkir með óbragð í munni

Bæjarráð hefur samþykkt með fimm atkvæðum að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda, Malbikunarstöðina Höfða hf., um efnisvegum malbiks fyrir Kópavog árin 2021-2022, en bæjarráð hafði frestað afgreiðslu erindisins á fundi sínum 29. apríl sl.

Ármann Kr. samþykkir með óbragð í munni

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri segir fyrirtækið og Reykjavíkurborg ætti að sjá sóma sinn í að halda sig við að framleiða fyrir götur í eigin sveitarfélagi, sem er með um helming af gatnakerfi á höfuðborgarsvæðisins, í stað þess að seilast í nágrannasveitarfélögin.

,,Það er með óbragð í munni sem ég samþykki tilboð frá malbikunarstöð í eigu Reykjavíkurborgar sem er í beinni samkeppni við einkafyrirtæki. Ég tel að fyrirtækið og Reykjavíkurborg ætti að sjá sóma sinn í að halda sig við að framleiða fyrir götur í eigin sveitarfélagi, sem er með um helming af gatnakerfi á höfuðborgarsvæðisins, í stað þess að seilast í nágrannasveitarfélögin. Þá hefur komið í ljós að gæði malbiksins hafa verið með þeim hætti að Vegagerðin hefur takmarkað viðskipti við fyrirtækið. Þarna er um ójafnan leik á milli aðila á markaði að ræða,“ segir í bókun Ármanns Kr. Ólafsson bæjarstjóra á fundinum og taka þau Birkir J. Jónsson og Karen E. Halldórsdóttir undir bókun bæjarstjóra.

Óeðlilegt að fyrirtæki í eigu sveitarfélags keppi á samkeppnismarkaði

Þá kemur fram í bókun Theódóra S. Þorsteinsdóttir að henni finnist það óeðlilegt að fyrirtæki í eigu sveitarfélags keppi á samkeppnismarkaði. ,, Mikilvægt er að aðilar á samkeppnismarkaði keppi á jafnræðisgrundvelli. Á meðan Höfði er í eigu Reykjavíkurborgar er ekki hægt að tryggja jafnræði. Það sama á við Sorpu bs. og aðra starfsemi í samkeppnisrekstri í eigu sveitarfélaga,“ segir í bókun Theódóru.

Eftirfarandi tilboð bárust í efnisútvegun malbiks fyrir Kópavog árin 2021-2022, en um er að ræða framleiðslu og afhendingu á malbiksefni fyrir nýlagnir malbiks á götum, göngustígum, plönum og gangstéttum, malbiksyfirlagnir og eftir atvikum fyrir malbiksviðgerðir víðsvegar í Kópavogi að áætluðu heildarmagni 4.000 tonn.

Colas Ísland hf 81.760.000 kr. (tilboðsupphæð fyrir eitt ár)
Malbikunarstöðin Höfði hf 79.980.000 kr. (tilboðsupphæð fyrir eitt ár)
Malbiksstöðin ehf 95.280.000 kr. (tilboðsupphæð fyrir eitt ár)

Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 83.460.000 kr. (tilboðsupphæð fyrir eitt ár)

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar