Bæði börn og starfsfólk eru mjög hrifin af þessu verkfæri jákvæðs aga

Eins og komið hefur fram frétt hér á undan hefur leikskólinn Furugrund verið að innleiða uppeldisstefnu jákvæðs aga á undanförnum árum, en skólinn fékk hjálp frá Arnrúnu Maríu til að ná settu marki við að innleiða áherslur Lausnahringsins, sem er eitt af verkfærum jákvæðs aga stefnunnar. 

Eva Sif Jóhannsdóttir, leikskólastjóri á Furugrund var spurð hvernig þetta hafi gengið og hver upplifun hennar er af verkefninu? ,,Upplifunum hefur verið mjög góð og innleiðingin gengið mjög vel. Bæði börn og starfsfólk eru mjög hrifin af þessu verkfæri jákvæðs aga og sjá fljótt að það skilar tilætluðum árangri. Adda kom sterk inn í verkefnið, er hvetjandi og jákvæð bæði við börn og starfsfólk og það skilar sér strax út í starfið. Þetta er skilvirk, einföld en frábær leið til að æfa sig í og minna sig á hvaða lausnir við höfum í samskiptum við aðra. Leikskólastarfið gengur mikið út á samskipti og því afar gagnlegt ef allir eru á sömu blaðsíðu og hafa leiðir til að treysta á ef eitthvað kemur upp á. Þetta er frábær viðbót allt okkar góða starf og gerir starfsfólkið samræmdara og öruggara í vinnubrögðunum sem við vinnum eftir.“

Gott að hafa reglurnar fáar, skýrar og sjónrænar

Hefur verkefnið skilað góðum árangri inn í leikskólastarf Furugrundar – bætt samskiptin á milli barna og barna og starfsfólks? ,,Okkur finnst við upplifa lausnamiðaðri börn þegar kemur að leysa úr málum sem koma upp. Samskipti og samskiptareglur er eitthvað sem við erum stöðugt að æfa okkur í og því er svo gott að hafa reglurnar fáar, skýrar og sjónrænar á meðan maður er að tileinka sér þær. Við erum alla ævi að æfa félagsfærnina okkar og tilfinningalæsi og stjórnun. Þetta er því afar góð leið til að minna okkur öll á að við erum öll á sömu vegferð. Við þurfum öll að kunna að setja mörk og virða mörk annarra, það gagnast okkur út lífið.“ 

Viðurkenning! Arnrún (fyrir miðju) afhendir Evu Sif Jóhannsdóttur leikskólastjóra á Furugrund (l.t.h.) og Helgu Hönnu Þorsteinsdóttur aðstoðarleikskólastjóra tvær viðurkenningar frá Samtalinu fræðsla ekki hræðsla.

Þið hafið lagt áherslu á að innleiða uppeldisstefnu jákvæðs aga á undanförnum árum, hvernig hefur það gengið og með hvaða hætti hafið þið gert það fyrir utan aðkomu Arnrúnar með áherslur Lausnahringsins? ,,Síðustu ár höfum við staðið að innleiðingu jákvæðs aga í öllu okkar starfi og snýst það ekki hvað mest um viðhorf starfsfólks til barnanna og hvernig við viljum koma til móts við þau. Við í Furugrund búum við einstakan mannauði sem við teljum mjög metnaðarfullan og traustan, hver og einn starfsmaður mjög verðmætur. Starfsfólkið okkar sýndi mikinn eldmóð og áhuga í þessari vinnu og hefur lagt mikið á sig til að ná þessum árangri sem um ræðir. Nú dreymir okkur bara um að leggjast í rannsóknir og mæla árangur lausnahringsins, það er aldrei að vita nema við komumst í það á næsta ári. Við leggjum mikið upp úr opnum og jákvæðum samskiptum heilt yfir starfsmannahópinn, samskipti við foreldra og samskipti við börnin. Það skapar ákveðið andrúmsloft sem okkur finnst mikilvægt að börn og fullorðnir finni og tengir inn í einkunnarorðin okkar virðing, hlýja, öryggi og traust sem við vonum að skili sér í enn sterkari börnum,“ segir Eva Sif.

Forsíðumynd: Barnafundur úti í leikskólanum Furugrund

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar