Augun alsjáandi á Vetrarhátíð

Á Vetrarhátíð verður nýju vídeóverki eftir Þórönnu Björnsdóttur varpað á austurhlið Kópavogskirkju en verkið, sem ber heitið Tillit, er í samtali við dulspekilega myndlist Gerðar Helgadóttur og augað alsjáandi.

Hinn frjálsi andi þótt líkaminn sé í fjötrum
Segja má að rannsóknin að baki nýju vídeóverki hafi hafist fyrir um ári þegar Þóranna var ásamt fjórum öðrum tónskáldum fengin til að semja hljóðverk sem sprytti úr hljóðheimi Kópavogs í tengslum við verkefni á vegum Salarins í Kópavogi. Upphaflega stóð til að verk Þórönnu byggði á sögu kvennafangelsisins í Kópavogi. Í sköpunarferlinu fór áhugi Þórönnu að beinast í æ ríkari mæli að Kópavogskirkju sem nokkurs konar hjarta bæjarins, miðstöð andlegrar upplyftingar og sáluhjálpar og til varð hljóðverkið Altarishljóð fyrir Kópavogskirkju. Verkið var frumflutt í rökkvaðri kirkjunni í maí 2022 og verður aftur flutt á Vetrarhátíð, á klukkutíma fresti frá 18.30 til 22.30, föstudagskvöldið 3. febrúar en verkið er um fimmtán mínútur í flutningi.

Þóranna Dögg Björnsdóttir

Tillit í samtali við dulspeki Gerðar Helgadóttur.
Í framhaldi af hljóðverkinu var Þóranna fengin til að gera nýtt vídeóverk sem yrði varpað á Kópavogskirkjuna á Vetrarhátíð. Nýtt vídeóverk Þórönnu er í samtali við dulspekilega myndlist Gerðar Helgadóttur og augað alsjáandi sem má sjá í nokkrum verkum Gerðar undir lok ferils hennar, meðal annars í tillögum að altaristöflu fyrir Kópavogskirkju.

Augað verður að augum í nýju verki Þórönnu en efniviðurinn eru augu og augnatillit tæplega hundruð Kópavogsbúa sem Þóranna tók upp á myndband undir lok síðasta árs. Augun, kvik og leitandi, leiftrandi, spurul og snörp, munu leika um austurhlið Kópavogskirkju föstudags- og laugardagskvöldið 3. og 4. frá kl. 18 – 23 í draumkenndu og súrrealísku verki sem minnir á óravíddir mannshugans og hins innra lífs en verkið ber heitið Tillit.

Þóranna Dögg Björnsdóttir lauk BA gráðu í hljóð- og myndlist frá Konunglega Listaháskólanum í Haag árið 2006. Viðfangsefni hennar eru mörg og fjölbreytt en snúast gjarnan um heimssýn einstaklingsins, hvernig hún mótast og þróast. Verk hennar eru iðulega sambland af mynd og hljóði; taka form í gegnum lifandi gjörninga, innsetningar og hljóðverk.

Forsíðumynd: Verkið Tillit verður sýnt á Vetrarhátíð í Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar