Ástarfuglar, feludýr og töfraveröld ÞYKJÓ

Hönnunarteymið ÞYKJÓ hefur verið starfandi sem staðarlistahópur Menningarhúsanna í Kópavogi frá því í upphafi árs og unnið að fjölskylduvænum innsetningum sem líta munu dagsins ljós á HönnunarMars nú um Hvítasunnuhelgina.

Krakkahreiður, ofurhetjur og kyrrðarrými

Í Salnum verður hægt að kúra í krakkahreiðrum og spila á tónegg, fræðast um hreiðurgerð og hrífast með fuglasöngvum sem óma um rýmið en Sóley Stefánsdóttir, tónlistarkona, hefur unnið hljóðmyndina í samstarfi við ÞYKJÓ.

Fjölnota rými Bókasafnsins á jarðhæð verður umbreytt í töfraveröld þar sem börn geta komið og brugðið sér í gervi fjölskrúðugra dýra. Dýrin eru ævintýraverur á borð við Ástarfugla og Feludýr, búningarnir innblásnir af mögnuðum eiginleikum dýra úr ýmsum vistkerfum jarðar og hannaðir með það í huga að þeir passi börnum á ólíkum aldursskeiðum.

Í fræðslurými Gerðarsafns á neðri hæð verður hægt að skríða inn í skel í gullfallegum Kyrrðarrýmum sem innblásin eru af skeldýrum og skúlptúrum Gerðar Helgadóttur, hönnuð af ÞYKJÓ.

Ástarfugl úr búningalínu hönnunarteymisins ÞYKJÓ. Ljósmynd: Sigga Ella

Fjölbreytt viðburðahald samhliða litríkum sýningum

Fjölbreyttir viðburðir fara fram samhliða sýningum ÞYKJÓ í Menningarhúsunum, dansíókí-danssmiðja með Aude Busson, fuglasinfóníusmiðja með Sóleyju Stefánsdóttur og kyrrðarstund með Melkorku Ólafsdóttur, flautuleikara, auk þess sem ÞYKJÓ spjallar um verk sín og hönnunarferli á sérstökum hádegisviðburði í Salnum.

Sýningar á HönnunarMars opna miðvikudaginn 19. maí og standa yfir til sunnudagsins 23. maí en Menningarhúsin verða opin frá 11 – 17 þessa daga. Á efri hæð Gerðarsafns verður einnig hægt að njóta tveggja glænýrra sýninga á vegum LHÍ og HönnunarMars en dagskrána má kynna sér á vef Menningarhúsanna.

Burðarmynd. Hönnunarteymið ÞYKJÓ umbreytir Menningarhúsunum í ævintýraveröld á HönnunarMars. Ljósmynd: Sigga Ella.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar