Ásdís Kristjánsdóttir ætlar að gefa kost á sér í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðis-flokks í Kópavogi.
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og for-stöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, býður sig fram í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í prófkjöri sem mun fara fram 12. mars næstkomandi.
Ásdís er hagfræði- og verkfræðimenntuð. Hún hefur starfað á fjármálamörkuðum og setið í stjórnum fyrirtækja. „Ég hef í starfi mínu sem aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins lagt ríka áherslu á ábyrgan og skilvirkan rekstur hins opinbera, þar með talið á sveitarstjórn-arstiginu,“ segir í yfirlýsingu sem Ásdís sendi frá sér um sl. helgi.
„Ábyrgur rekstur er forsenda þess að unnt sé að veita lipra, sveigjanlega og góða þjónustu sem mætir ólíkum þörfum fólks, en um leið verðum við að leita allra leiða til að stilla gjöldum og álögum á fólk og fyrirtæki í hóf. Við getum styrkt tekjustofna bæjarfélagsins og fjölgað atvinnutækifærum með því að laða enn frekar til okkar öfluga starfsemi fjölbreyttra fyrirtækja. Til þess þurfum við að tryggja að öll stjórnsýsla sé skilvirk og snurðulaus, að erindi séu afgreidd hratt og örugglega og leggja áherslu á að spara fólki sporin með stafrænum lausnum.
Framundan eru áhugaverð uppbyggingarverkefni í bænum og mikilvægt að vanda vel til verka, tryggja samstöðu og sátt meðal bæjarbúa og húsnæði fyrir fólk á öllum ævistigum. Samgöngur skipta okkur öll máli, hvort sem við erum gangandi, á hjóli eða í bíl. Ég vil bættar samgöngur fyrir fjölbreyttan lífsstíl í takt við vaxandi bæ,” segir í yfirlýsingunni.
Ásdís er gift Agnari Tómasi Möller verkfræðingi og saman eiga þau þrjú börn á grunnskólaaldri.