Formlegar viðræður hafnar í Kópavogi
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn í Kópavogi hafa rætt saman síðustu daga og farið yfir áherslur flokkanna. Samhljómur er milli þeirra samkvæmt fulltrúum flokkanna um verkefni næstu ára og var því ákveðið í dag að hefja formlegar viðræður um myndun meirihluta. ,,Framundan er vinna við að skrifa málefnasamning, móta áherslur og skilgreina verkefni næstu ára. Við gerum okkur væntingar um að vinnan muni ganga hratt og örugglega fyrir sig,“ segir í tilkynningu frá Ásdísi Kristjánsdóttur, oddviti Sjálfstæðisflokksins og Orra Vigni Hlöðverssyni, oddviti Framsóknarflokksins.
Allar líkur eru á því að Ásdís Kristjánsdóttir verði næsti bæjarstjóri Kópavogs, en Ásdís gaf það út áður en formlegar viðræður hófust að hún mundi sækjast eftir bæjarstjórastólnum. Fyrst formlegar viðræður eru hafnar hljóta framsóknarmenn í Kópavogi að hafa samþykkt það, en halda sjálfsagt í staðinn formanni bæjarráðs auk þess að fá formennsku í fleiri nefndum. Þá gætu flokkarnir skipt á milli sín forseta bæjarstjórnar á kjörtímabilinu, sem var alfarið í höndum Sjálfstæðismanna á kjörtímabilinu sem er að líða.