Aquasport býður upp á gott vöruúrval fyrir sundið

Aquasport er ein af fáum sérverslunum sem býður upp á gott vöruúrval að öllu sem viðkemur búnaði til sundiðkunar

Það gleðjast margir yfir því að slakað hafi verið á samkomutakmörkunum í síðustu viku og að sundlaugarnar hafi verið opnaðar á nýju. Sund og sjósund hefur notið aukinna vinsælda með ári hverju enda er sund góð leið til heilsubótar. Margir sem langar að hreyfa sig nokkrum sinnum í viku eða á hverjum degi en eiga erfitt með t.d. hlaupin þá er sund tilvalin íþrótt fyrir þessa einstaklinga til að koma sér í gott form auk þess sem félagsskapurinn er ávallt góður í heitu pottunum eða þeim kalda eftir góðan sundsprett.

Arnar Felis Einarsson eigandi Aquasport

En hvað þarf til ef maður ætlar að byrja að stunda sund, er það eingöngu sundskýlan og sund-bolurinn eða er hægt að fá ýmsa fylgihluti sem hjálpa manni í sundlauginni. Kópavogspósturinn sló á þráðinn til Arnars Felix Einarssonar eiganda AquaSport í Bæjarlind, en AguaSport býður upp á mikið úrval af hágæða sundbúnaði.

Umboðsaðili fyrir Tyr sundföt

En kannski fyrsta spurningin er sundfatnaðurinn, úrvalið mikið en er þetta allt sami fatnaðurinn, bara mismunandi merki, og hvað býður AquaSport upp á? ,,Við erum eins og undanfarin ár umboðsaðili fyrir TYR sundföt sem er eitt að fremstu sundmerkjum í heiminum í dag, sérstaklega endingagóð sundföt sem fólk sem stundar sundlaugarnar velur mikið, við erum þessa dagana að taka inn mikið af sendingum og vorlínan að detta í hús. Ein vinsælasta varan hjá okkur undanfarin ár hefur verið DMC sundfit, sem eru vinsæl bæði hjá þeim sem synda reglulega, sundfólki og þeim sem stunda sjósund, en hægt er nota þessar blöðkur með neo-prene sokkum. Þær eru breiðari og úr silcone efni sem gera þær mýkri og eru sérstaklega góðar til þess að æfa fótatökin. Við bjóðum einnig upp á blautbún-inga og aðrar vörur sem henta vel til þess að synda í vötnum og sjó. Við erum ein af fáum sérverslunum sem býður upp á gott vöruúrval að öllu sem viðkemur búnaði til sundiðkunar,” segir Arnar Felix.

Gefið sundinu tækifæri

En að hverju þarf fyrst og fremst að huga þegar maður ætlar að fara að synda reglulega? ,,Það er gott að byrja rólega, ætla sér ekki of mikið, synda nokkrar ferðir til að byrja með, en auka vegalengdina með tímanum reyna fara oftar en sjaldnar. Góð byrjun er að mæta a.m.k. 2-3x í viku, byrja ca. 500m og auka vegalengdina með tímanum. Eitt sem er gott að hafa í huga er að mikið skemmtilegra er að brjóta æfinguna upp í stuttar ferðir skriðsund, bringusund, bak-sund, fætur, hendur o.s.frv., en að synda allt í einu. Ég mæli alltaf með því að fólk gefi sundinu tækifæri og æfi reglulega í 3-4 mánuði. Það getur verið nóg til þess að ná hæfni sem skilar sér langt inn framtíðina og fólk getur nýtt sér sund sem líkamsrækt.”

Og það er hægt að fá ýmsa fylgihluti til að notast við æfingar í sundlauginni, hvað er kannski það vinsælasta? ,,Það eru til ýmis hjálpartæki sem við erum með hjá Aquasport. Við mælum með að allir sem ætla að stunda sund og sérstaklega skriðsund útvegi sér sundfit, en það gerir sundið ánægjulegra og auðveldara til að auka æfingamagnið og getur hjálpað til við að læra rétta sundtækni með höndunum. Sundfitin hjálpa okkur að gera rétt fótatök og þjálfa fætur og geta hjálpað til við að einstaklingar geti synt lengri vegalengdir. Næst er að eignast millifótakút til þess að þjálfa hendurnar og sundspaða fyrir hendur og svo sundkork til þess að æfa fótatökin.”

Aukinn áhugi

Hefur þú fundið fyrir auknum áhuga á sundi og sjósundi á undanförnum árum og hvað veldur? ,,Við höfum að sjálfsögðu fundið fyrir auknum áhuga en þar sem að sundlaugarnar hafa lokað í lengri og skemmri tíma undanfarið árið hefur sjósundið verið opið. Ég held að það hafi hjálpað til að það eru komnir aðilar sem eru með námskeið, sem eru að hjálpa fólki að taka sín fyrstu skref í sjónum og svo hefur hjálpað til að fólk er að ná sér í lágmarksbúnað til þess stunda þetta eins hlýja sundhettu, hanska og skó. Það gerir þetta allt örlítið aðgengilegra ásamt því að það er orðin betri aðstaða á fleiri stöðum með möguleika á því að komast í heitar laugar að sundi loknu. Það er einnig að verða mikil vitundarvakning um áhrifamátt kælingar fyrir okkur og að æfa í köldu vatni er hollt fyrir öndun, ofnæmiskerfi o.fl.”

Og það er auðvelt að fara af stað, kostar ekki mikið, en svo er gaman að bæta við ýmsum fylgihlutum ef maður vill bæta sig og komast lengra? ,,Já, það er minna en í flestum íþróttum. Við þurfum sundfötin og sjálfsögðu sundgleraugu til þess að fara af stað en það verður alltaf skemmtilegra að synda ef við höfum sundfit eða annan búnað með í ferð og töluvert líklegra til árangurs að taka allt með sér í laugina. Sund er tiltölulega einhæf hreyfing og því nauðsynlegt að geta brotið æfinguna upp með því að nota spaða og annan búnað sem getur hjálpað okkur til þess að ná árangri.”

Og sundið fer vel með líkamann, en er þrátt fyrir það frábær æfing og maður kemst í gott form ef maður syndir reglulega? ,,Sundið er frábær íþrótt til þess að stunda reglulega það eykur þrek þar sem öndun fer fram undir yfirborði vatns. Sund er eina íþróttin þar sem líkaminn er í láréttri stöðu og þyngdarleysi vatnsins veldur því að álag á liði og vöðva er minna en í öðrum íþróttum. Því er sundið sérstaklega gott fyrir þá sem eru að kljást við álagsmeiðsli eða vandmál í liðum. Í skriðsundi erum við að styrkja bæði axlir, kvið og bak en álag á fætur er lítið og því hentar það vel fólki sem stundar t.d. aðrar íþróttir að nota sundið til þess að styrkja efripart líkamans.”

Og þið aðstoðið alla, byrjendur sem lengra komna, sem koma í AquaSport til að versla? ,,Við erum reyndir sundþjálfarar sem störfum í Aquasport og að sjálfsögðu gefum við ykkur góð ráð bæði hvað varðar búnað og hvað er best að gera til þess að geta bætt sig í sundinu. Við tökum vel á móti öllum,” segir Arnar Felix brosandi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar