,,Við bjóðum Önnu Rósu Sigurjónsdóttur hjartanlega velkomna til starfa sem leikskólastjóri í leikskólann Álfaheiði,” segir Vigdís Guðmundsdóttir, leikskólaráðgjafi á leikskóladeild Menntasviðs Kópavogs.
Leikskólinn Álfaheiði tók til starfa 1. desember 1990 og er fjögurra deilda og þar dvelja 79 börn með mismunandi langan dvalartíma. Leikskólinn er staðsettur á sunnanverðum Digraneshálsi þar sem stutt er í skemmtileg útivistarsvæði s.s. Kópavogsdal og staði sem tengjast sögu bæjarins og þjóðtrúnni um álfa.
,,Anna Rósa er enginn nýgræðingur þar á bæ því hún hefur starfað í leikskólanum frá upphafi eða í um 30 ár sem aðstoðarleikskólastjóri. Hún hefur mikinn metnað fyrir starfinu, öfluga stjórnunarreynslu og skýra faglega sýn á framsækið leikskólastarf. Hún þekkir leikskólann vel og hugmyndafræðina enda tekið þátt í mótun hans frá upphafi. Anna Rósa er leikskólakennari og útskrifaðist með viðbótardiplómu í Menntastjórnun og matsfræði árið 2020,” segir Vigdís.
Leikskólinn Álfaheiði hefur lengi lagt áherslu á lífsmennt og gildi barnasáttmálans og hefur starfsfólk þá trú að börn séu skapandi og getumiklir einstaklingar og það sé mikilvægt að skapa þeim áhugavert umhverfi, jafnt innandyra sem utan, þar sem leikurinn fær að njóta sín. Að börn þroskist best í jákvæðu, öruggu, hlýju og tilfinningaríku umhverfi þar sem borin er virðing fyrir þeim og skoðunum.