Í nýrri þjónustukönnun Gallup er ánægja Kópavogsbúa mæld á helstu málaflokkum. Mælingarnar eru gerðar ár frá ári og gefa okkur kjörnum fulltrúum innsýn í ánægju eða óánægju bæjarbúa með ýmsa þjónustu. Heilt yfir þá stöndum við í stað í ánægju en erum yfir meðaltali í samanburði við önnur sveitafélög. Samt sem áður þá lækkar ánægjan á nokkrum málaflokkum sem mögulega endurspegla ástand þjóðfélagsins á tímum Covid, og svo vegna stórra skipulagsmála sem eru sum hver eru umdeild. Ég tel að svona mæling sé mikilvæg ábending um hvar við getum gert betur og hvar okkur er að takast vel upp. En heildarniðurstaðan er að fólkinu í bænum virðist finnast gott að búa í Kópavogi.
Sundkennsla!
Ég lagði fyrir bæjaráð ábendingu umboðsmanns barna um að breyta fyrirkomulagi í sundkennslu. Umboðsmaður telur ákveðinn hóp upplifa óöryggi og vanlíðan í sundtímum. Í aðalnámskrá eru hæfniviðmið fyrir skólaíþróttir þar sem börn eiga við lok 10.bekkjar synt viðstöðulaust fimm tegundir af sundtækni og troðið marvaða.
Hún telur þessar kröfur vera umfram það sem telst vera nauðsynlegt. Í viðræðum við ungmenni segjast þau mörg hver upplifa einelti og áreitni í sundi, sérstaklega hinsegin nemendur. Ungmennin sjálf hafa viðrað þær hugmyndir að þegar ákveðinni færni er náð í sundi að þá verði sundkennsla valfag.
Ég tek undir þessar vangaveltur, sjálf var orðin synd 11 ára og tók litlum framförum eftir það. Það þurfa ekki allir 10 ára kennslu í sundi og margir læra sund á námskeiðum yfir sumartímann. Ég er einnig sammála því að taka þarf tillit til líkamsvitundar barna. Við vitum að krakkar bera sig saman og jafnvel hvíslast á um hvert annað sem getur verið hryllileg upplifun fyrir þann sem verður fyrir því.
Það er mín von að menntaráð og ungmennaráð ræði þessar tillögur umboðsmanns með tilliti til að hægt sé að útfæra hæfniviðmið í sundi á annan hátt en að telja það í árum og taka tillit til óöryggis barna með líkamann sinn eða kynvitund.
Í samræðum mínum við sundkennara er ljóst að þeir þekkja til þessarar umræðu og nauðsynlegt er að taka ákvarðanir um breytingar í fyrirkomulagi sundkennslu í samráði við þá og ungmenni.