Það voru ánægjulegar og tímabærar fréttir í vikunni sem leið þegar Seðlabankinn tilkynnti um 0,50 prósenta stýrivaxtalækkun. Samhliða tveimur vaxtalækkunum í röð er verðbólga á niðurleið og útlit fyrir að svo verði áfram.
Lækkun vaxta er gríðarlegt hagsmunamál heimila og fyrirtækja og það er mikilvægt að við höldum áfram á þessari braut. Um þetta eru allir flokkar sammála í orði en leiðin að markmiðinu er mjög ólík og söguskýringin undarleg. Leiðtogi vinstri manna hefur teiknað upp þá mynd að Sjálfstæðisflokkurinn hafi „hækkað kostnað heimilanna og þyngt skattbyrði vinnandi fólks frá árinu 2013“. Þessi málflutningur er ósannur. Á Íslandi er atvinnuleysi hverfandi og „hvernig svo sem velferð er mæld, er Ísland meðal þeirra ríkja þar sem hún er mest“, svo vísað sé í nýútkomna skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu efnahagsmála.
Veruleikinn er sá að skattar á Íslandi hafa lækkað, ekki hækkað síðustu ár. Skattalækkanirnar nema um 90 ma.kr. á ári og þar af 60 ma.kr. vegna tekjuskatts einstaklinga þar sem áherslan hefur verið á lægri skatta tekjulágra. Skattbyrðismælingar sem litast af breytingum fjölskyldumynstri og meiri tekjuhækkunum þeirra tekjulægri breyta þessari staðreynd ekki. Samfylkingin, undir forystu formannsins, lagði áherslu á enn meiri halla ríkissjóðs í heimsfaraldrinum og plan flokksins er að taka meira af fólki og fyrirtækjum og eyða meira. Slík útgjaldaaukning mun auka á verðbólguþrýsting en ekki draga úr honum. Ríkissjóður glímir ekki við tekjuvanda heldur útgjaldavanda. Munum það 30. nóvember.
Hugmyndafræði skiptir máli
Nálgun stjórnmálanna á samfélagið okkar er sömuleiðis mjög ólík.
Viljum við samfélag þar sem sjálfsbjargarviðleitni er ríkjandi?
Viljum við samfélag þar sem frumkvæði eru verðlaunað?
Viljum við samfélag þar sem fólk þorir að skora ríkjandi viðhorf á hólm?
Þetta er eru ekki spurningar sem eru ekki algengar í kosningabaráttu, en ráða þó mjög miklu um hvernig og hvort okkur mun takast að viðhalda þeirri ótrúlegu stöðu sem Ísland hefur, að geta boðið upp á þau framúrskarandi lífskjör sem við höfum náð að gera.
Framfarasaga íslensks samfélags og saga Sjálfstæðisflokksins er samofin. Eftir rúma viku verður kosið og fjárfest í stjórnmálum og hugsjónum til næstu fjögurra ára.
Mikilvægasta kosningaloforðið sem Sjálfstæðisflokkurinn, og ég persónulega, gef kjósendum snýr því ekki aðeins að tilteknum málaflokkum, heldur því að vinna af yfirvegun og alvöru að stjórn landsmála á grundvelli traustra gilda sem þjónað hafa þjóðinni vel og munu gera áfram.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Höfundur er utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins