Bókasafn Kópavogs sló aðsóknarmet í október þegar samtals yfir 20.000 gestir komu í bæði útibú þess, aðalsafn og Lindasafn, þann mánuð. Aldrei hafa fleiri gestir sótt safnið í einum mánuði frá opnun árið 1953. Og það sem af er árs bendir allt til að met verði slegið í gestafjölda yfir allt árið. Gestatölur, ekki eingöngu á Bókasafni Kópavogs heldur á öllum almenningsbókasöfnum landsins, sýna okkur að þörfin fyrir almenningsbókasöfn hefur aldrei verið jafn mikil. Samfélagið í heild þarf almenningsbókasöfn. Þau skila margföldum ágóða til samfélagsins og sveitar alls sem ekki mælist í krónutölum, heldur m.a. í auðugu mannlífi, bættri lýðheilsu og upplýstu samfélagi.
Almenningsbókasafnið er samfélagsþjónusta og oft eina rými sveitarfélaga sem fólk getur komið inn á án þess að þurfa að finna sig knúið til að taka upp veskið. Að við höfum rými þar sem þetta er mögulegt og við getum boðið íbúum sveitarfélaga „sitt“ rými til notkunar án endurgjalds er mikilvægt.
Almenningsbókasafnið er menningarmiðstöð og félagsmiðstöð íbúa, það er hlutlaus staður þar sem fólk getur nálgast bæði upplýsingar og afþreyingu og er rými sem fólk sækir í til að hitta vini eða koma með fjölskylduna. Þessi þróun er orðin mjög áberandi á Norðurlöndunum og er Ísland enginn eftirbátur þar. Á Bókasafni Kópavogs er lögð áhersla á að gestum líði vel á safninu og að það sé þriðji áfangastaður fólks.
Almenningsbókasafnið er samfélagslegt vin bæjarins, það stuðlar að lýðheilsu, eykur lífsgæði og er stuðningur og félagslegt net einstæðinga, fólks sem er utangarðs og fólks sem þarfnast félagslegra tengsla. Fólks sem mögulega fer hvergi annað yfir daginn. Við viljum hlúa að fólkinu okkar og á Bókasafni Kópavogs er lögð áhersla á persónulega þjónustu til allra.
Almenningsbókasafnið skipar stóran sess í inngildingu nýrra Kópavogsbúa og aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Það eru sjálfsögð mannréttindi að hafa aðgang að „sínu“ almenningsbókasafni. Öll eru velkomin á almenningsbókasöfnin burtséð frá kyni, þjóðerni, stétt eða stöðu og hafa söfnin lagt áherslu á þennan þátt í allri sinni starfsemi í mörg ár.
Almenningsbókasafnið á stóran þátt í lestri barna og ungmenna og stuðlar að læsi í allri grunnstarfsemi sinni. Almenningsbókasöfnin bregðast ekki skyldum sínum varðandi læsi og lestur, sérstaklega er þetta mikilvægt í umræðunni um læsi barna og ungmenna. Söfnin reyna eftir bestu getu og fjármagni að bjóða fjölbreytt úrval bóka sem höfðað gætu til sem flestra, en því miður miðast úrvalið við það sem gefið er út. Til þess að auka úrvalið þarf að setja meira fjármagn í skrif á barna- og ungmennabókum.
Við megum ekki gleyma því að almenningsbókasöfn eru til þess að þjóna og hlúa að samfélaginu, þau auka lífsgæði og eru sjálfsögð mannréttindi. Velkomin öll á almenningsbókasöfn landsins.
Lísa Z. Valdimarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Kópavogs