Ákveðinn doði einkennir starf meirihlutans og skortur á framtaki

Um 25 félagar mættu á aðalfund Vina Kópavogs sem haldinn var í Smáranum 9. nóvember sl., en þar lýstu bæjarfulltrúar félagsins, þau Helga Jónsdóttir og Kolbeinn Reginsson m.a. reynslu sinni af starfinu í bæjarstjórn undanfarna mánuði.

Bæjarfulltrúar búa ekki að reynslu af svona starfi

Helga lýsti reynslu af starfi bæjarfulltrúa. ,,Á bæjarstjórnarfundum finnst henni ákveðinn doði einkenna starf meirihlutans og skortur er á framtaki, með góðum undantekningum þó. Starfið í bæjarstjórn markast mjög af því að margir bæjarfulltrúar búa ekki að reynslu af svona starfi, m.a. bæjarstjórinn,“ segir í fundagerð frá aðalfundinum.

Helga segir starfið í bæjarstjórn markast mjög af því að margir bæjarfulltrúar búa ekki að reynslu af svona starfi

Ósættanlegt hve fjárfestar ráða miklu

,,Leiðarljós framboðs VK frá því í apríl eru gott veganesti fyrir starf fulltrúa Vina Kópavogs í bæjarstjórn. Það er óásættanlegt hve fjárfestar ráða miklu um framvindu skipulags á mjög stórum svæðum sem eru í þróun. Vinnan í skipulagsráði hefur verið ánægjulegri en í bæjarstjórn. Það er þó enn stórt bil á milli orða og athafna í skipulagsmálum. Engum lóðum hefur verið úthlutað í Kópavogi í meira en 7 ár eftir útboð eða formlega auglýsingu og umsóknarferli. Að samþykktu deiliskipulagi selja fjárfestar réttinn til uppbyggingar á margföldu því lóðargjaldi sem rennur í bæjarsjóð. Bæjarfélagið fer á mis við tekjur sem ættu að réttu að falla í bæjarsjóð. Öndvert við ýmis önnur sveitarfélög innheimtir Kópavogur ekki fyrir hönd íbúa þau verðmæti sem felast í byggingarréttinum; þau eru í reynd gefin fjárfestum eftir. Land fyrir uppbyggingu í Kópavogi er orðið mjög takmarkað og ekki farið vel með þessa verðmætu auðlind í dag.
Lítil umræða er um framtíðina og mestur tími fer í ákvarðanir og aðgerðir til skemmri tíma. Fjárfestar hugsa fyrst og fremst um að ávaxta sitt fé en lítil sem engin umræða er um almenningsrými og græn svæði innan byggðar, sem fléttast eiga inn í landnotkun og blöndun byggðar. Milliliðir á fjármagnsmarkaðnum eru ráðandi en gömlu tengslin á milli byggingameistara, íbúa og bæjaryfirvalda eru horfin,“ segir Helga.

Helga segir einnig að ekki sé nægjanlega vel staðið að móttöku flóttamanna og virðist lítill skilningur á skyldum næststærsta sveitarfélags landsins til þátttöku í því verkefni.

Hún fagnar nýlegri ákvörðun um gerð hverfisáætlana á Kársnesi og Digranesi. Í ferlinu eru fyrirheit um að leggja áherslu á íbúalýðræði og markvisst samráð.

Veikir lýðræði og fagleg vinnubrögð

Helga segist upplifa að nefndakerfi bæjarins nýtist ekki sem skyldi til að sinna stefnumótun og áherslum í mismunandi málaflokkum. ,,Nefndakerfið byggist á því að lýðræðislegt sé að kalla fleiri til samstalsins af hálfu íbúa og leysa viðfangsefni með dreifstýrðum vinnubrögðum. En því miður sýni dæmi að mál fái ekki umræðu á vettvangi nefnda áður en ákvarðanir eru teknar. Það veikir bæði lýðræði og fagleg vinnubrögð.“

Fólkinu er haldið í gíslingu

Kolbeinn segist hafa reynt að vera með sífelda þrýsting til að koma í veg fyrir skipulagsslys á Fannborgar og Hamraborgarsvæðinu. ,,Þar eru það enn aðgengismál fatlaðra sem stoppa deiliskipulagið þannig að Fannborgarreitur komist til framkvæmda. Bæjarstjóri hefur ekki staðið við loforð um íbúafund vegna þessa máls. Fólkinu er haldið í gíslingu eins og ástandið er í dag. Tæknilega geta liðið 12 ár með núverandi ástandi. Fjárfestarnir eru í raun með bæjarfélagið í gíslingu þar sem þeir hafa nægar tekjur frá bæjarsjóði sem leigir húsanæðið að hluta, til að bíða og sjá.“

Ómögulegt að ná samræðum um þessi mál í bæjarstjórn

Kolbeinn bendir á að á Kársnesinu séu fjárfestar afar virkir. ,,Dæmi um það er reitur 8. Þar er skipt um fjárfesta og nú eru komnar tillögur um enn meira byggingarmagn. Svo mikið byggingarmagn þýðir að innviðir springa og sá reikningur verður eflaust sendur á bæjarsjóð. Ómögulegt að ná samræðum um þessi mál í bæjarstjórn þar sem fulltrúar meirihlutans bregðast ekki við í umræðunni.“

Kolbeinn beinir því til stjórnar að styrkja útbreiðslustarfið og nefndi myndband sitt um Hamraborg sem dæmi. Búa til efni sem nær til fólks og kveikir í því.

Auk hefðbundinna aðalfundastarfa flutti Dr. Páll Líndal, doktor í umhverfissálfræði erindi un áhrif manngerðs umhverfis og húsnæðis á vellíðan og heilsu. „Skipulag á að aðlagast fólki, en fólk á ekki að aðlaga sig skipulagi,“ sagðir Páll. Niðurstöður rannsókna á því hvernig skipulag og húsnæði hefur áhrif á velsæld eiga að vera ráðandi við gerð skipulags, en ekki eftirspurn eftir húsnæði og fjárfestar. Páll tilgreindi ýmsar aðferðir til að bæta vinnu við skipulag með því að beita aðferðum umhverfissálarfræðinnar. Það þarf að gera strax á undirbúningsstigi skipulags að mati Páls.

Eftir fundinn er stjórn félagsins skipuð þeim Jóhanni Má Sigurbjörnssyni, Fríðu Garðarsdóttur, Maríu Játvarðsdóttur, Ólafi Björnssyni og Tryggva Felixsyni. Fjárhagur félagsins er í jafnvægi. Ólafur er formaður félagsins.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar