Rekstur Kópavogsbæjar er traustur og er góðum rekstri skilað í formi lægri skatta til bæjarbúa. Í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir afgangi á rekstri bæjarins, fjárfest er í innviðum fyrir framtíð bæjarins og þjónusta við bæjarbúa er sett í forgang. Þá halda fasteignaskattar áfram að lækka á bæði íbúa og fyrirtæki. Fjármagni er forgangsraðað í grunnþjónustu og viðbótarfjármagn veitt í velferðar- og menntamál. Þrátt fyrir miklar framkvæmdir eru skuldir áfram hóflegar og skuldahlutfall langt undir lögbundnu viðmiði.
Skattar lækka
Við, sem skipun meirihluta í Kópavogi, höfum lækkað fasteignaskatta og önnur gjöld á hverju ári það sem af er þessu kjörtímabili. Engin breyting er á því fyrir næsta ár, en í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir að fasteignaskattar á heimili og fyrirtæki lækki áfram. Þessar skattalækkanir koma til móts við hækkandi fasteignaverð sem ella hefði skilað bæjarsjóði enn hærri skattheimtu, en situr nú eftir hjá íbúum og fyrirtækjum. Fasteignaskattar í Kópavogi eru í dag meðal þeirra lægstu á landsvísu og fasteignagjöld hafa ekki hækkað að raunvirði undanfarin ár. Við samanburð á fasteignagjöldum og fasteignamati sem Byggðarstofnun birti fyrir árið 2024 sést glögglega hvernig fasteignagjöld í Kópavogi eru þau lægstu höfuðborgarsvæðinu.1
Fjárfest í framtíð bæjarins
Áfram tryggjum við að innviðir mæti þörfum bæjarbúa og viðhaldi eigna sé vel sinnt. Á vegum bæjarins er gert ráð fyrir framkvæmdum á grunninnviðum fyrir um sex og hálfan milljarða króna.
Stærstu framkvæmdir eru bygging nýs skóla á Kársnesi sem lýkur á næsta ári. Þá hefjast framkvæmdir við nýjan leikskóla við Skólatröð. Hafinn verður undirbúningur á nýjum leikskóla við Naustavör og leik-og grunnskóla í nýju hverfi við Vatnsendahvarf. Þá verða skóla og leikskólalóðir endurnýjaðar samkvæmt áætlun. Lokið verður við nýtt búsetuúrræði í Kleifakór. Stækkun hjúkrunarheimilis í Boðaþingi heldur áfram og er gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki 2025. Kópavogsbær greiðir 15% kostnaðar í hjúkrunarheimili.
Loforð frá 2012 verður að veruleika
Á næsta ári munu framkvæmdir við aðalvöll HK hefjast en frá árinu 2012 hafa bæjaryfirvöld í Kópavogi lofað að knattspyrnuvöllur yrði byggður utanhúss við íþróttasvæði félagsins. Loforðið var gefið á þeim tíma þegar farið var í að skipta íþróttasvæðum í Kópavogi á milli íþróttafélaganna tveggja, Breiðablik og HK. Þannig er Breiðablik með aðstöðu í Fagralundi og Smáranum og HK í efri byggðum. Nú tólf árum síðar er kominn tími á að uppfylla þetta loforð við HK-inga!
Það kemur hins vegar á óvart að bæjarfulltrúi Viðreisnarm, sem hefur setið í bæjarstjórn frá 2014, hefur bæði í þessari fjárhagsáætlun og þeirri síðustu barist ötullega gegn uppbyggingu á stúku í efri byggðum og telur að forgangsraða eigi fjármunum í önnur verkefni. Við getum ekki tekið undir þennan málflutning Viðreisnar og teljum að með því að fresta enn frekar slíkri uppbyggingu sé verið að hundsa enn eitt árið íbúa í efri byggðum Kópavogs og þá þúsund iðkendur sem í rúmlega áratug hafa beðið eftir að fá sinn keppnisvöll utandyra.
Skuldir hóflegar og lækka áfram
Þrátt fyrir umfangsmiklar fjárfestingar halda skuldir bæjarins áfram að lækka, en frá árinu 2022 hafa heildarskuldir án lífeyrisskuldbindinga lækka að raunvirði og verða 7% lægri en þær voru þegar núverandi meirihluti tók við. Þrátt fyrir hátt vaxtastig hefur hreinn fjármagnskostnaður jafnframt lækkað og ekki mælst lægri í áratug, hið minnsta. Skuldhlutfall Kópavogs er rúmlega 92% sem er langt undir lögbundnu viðmiði sem er í dag 150%. Þá er jafnframt heilbrigðismerki að bera skuldir á hvern íbúa saman við skuldir annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en miðað við Reykjavík, Garðabæ og Hafnarfjörð eru skuldir á íbúa hvergi lægri en í Kópavogi.
Við stöndum vörð um góðan rekstur
Íbúar gera kröfur til pólitískra fulltrúa um að fara vel með skattfé þeirra, forgangsraða verkefnum í þágu grunnþjónustu og ráðast í breytingar til að stuðla að enn betri þjónustu. Með slíkt í huga höfum við ráðist í markvissar hagræðingaraðgerðir undanfarin ár þvert á svið bæjarins, samhliða því sem við höfum lækkað kostnað í pólitískum nefndum og ráðum með því að fækka fundum. Slíkar aðgerðir hafa skilað umtalsverðum sparnaði. Á næsta ári ætlar Kópavogsbær að stíga markviss skref í innleiðingu á gervigreind með það að markmiði að auka þjónustu við bæjarbúa, skilvirkni í stjórnsýslunni og bæta ákvörðunartöku. Þar liggja mikil tækifæri til sóknar, en rannsóknir sýna að 30% af vinnutíma opinberra starfsmanna má sjálfvirknivæða með tilkomu gervigreindar. Við þurfum stöðugt að leita leiða til að fara betur með fjármuni skattgreiðenda.
Líkt og síðustu ára endurspeglast þessar áherslur í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar þar sem hagsmunir bæjarbúa eru í forgangi, skattar lækkaðir og þjónustan efld.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs
Orri Vignir Hlöðversson, formaður bæjarráðs Kópavogs
1https://www.byggdastofnun.is/is/frettir/samanburdur-fasteignagjalda-heimila-arid-2024