Áhersla á græn svæði, heilsubætandi útivist og betri nýtingu landsvæðis

Ráðist verður í hugmyndasamkeppni um framtíð Smárans og lögð er áhersla á að ekki verði gengið nærri grænum svæðum í Kópavogsdalnum. Þetta er meðal þess sem er að finna í tillögum starfshóps um Kópavogsdals sem hafa verið samþykktar í bæjarstjórn. Hópurinn leggur til að Kópavogsdalur verði kjörsvæði fyrir heilsubætandi útivist, heilbrigt villt lífríki í byggð og afbragðs íþróttasvæði fyrir fjölbreytt íþróttasvæði og ólíka aldurshópa. Hópurinn leggur áherslu á að þess sé gætt að ganga ekki á græn svæði í dalnum og kraftur verði settur í hreinsun Kópavogslækjar.

Hjördís Ýr Johnson, formaður skipulagsráðs Kópavogs og starfshópsins

Kópavogsdalur skipar stóran sess í huga og hjörtum íbúa

„Það er mikið fagnaðarefni að komin sé framtíðarsýn Kópavogsdalinn enda skipar dalurinn stóran sess í huga og hjörtum okkar íbúanna.  Almenn samstaða var í hópnum en með þessari vinnu er kominn skýr rammi varðandi uppbyggingu á bæði íþróttasvæðinu í Smáranum sem og dalnum öllum. Mikilvægt er að slíkur rammi sé fyrir hendi vegna nálægðar íþróttasvæðisins við þetta dýrmæta græna svæði sem Kópavogsdalurinn er. Nú þegar endurvinnslustöð Sorpu er að flytja af Dalveginum er frábært tækifæri að skipuleggja og hanna svæðið upp á nýtt með nýtingu dalsins fyrir gesti og gangandi í huga.  Hópurinn leggur til að efna til hugmyndasamkeppni um nýtingu svæðisins og munum við fara í þá vinnu fljótlega,“ segir Hjördís Ýr Johnson formaður hópsins en einnig er gert ráð fyrir að farið verði í hugmyndasamkeppni um framtíð íþróttasvæðisins í Smáranum.

Hugmyndassöfnun meðal íbúa hlaut góðar undirtektir

Starfshópurinn sem hóf störf haustið 2023 leitaði umsagna og álits fjölmargra í sinni vinnu. Meðal annars var hugmyndasöfnun meðal íbúa sem hlaut góðar undirtektir. Hópurinn vann svo að framtíðarsýn sem sett er fram í þremur flokkum, náttúra, útivistar- og afþreyingarsvæði og íþróttasvæði.

Í starfshópnum áttu sæti sjö fulltrúar: Formaður skipulagsráðs; Hjördís Ýr Johnson formaður starfshópsins, Andri Steinn Hilmarsson og Kristinn D Gissurarson fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar, Hákon Gunnarsson og Tryggvi Felixson fulltrúar minnihluta bæjarstjórnar, Auður D. Kristinsdóttir skipulagsfulltrúi og Íris Svavarsdóttir verkefnastjóri íþróttadeildar.

Starfsmaður hópsins var Sigrún María Kristinsdóttir, verkefnastjóri íbúatengsla hjá Kópavogsbæ.

Í kjölfar vinnu starfshópsins verður efnt til vinnufundar með bæjarfulltrúum um aðgerðaáætlun og næstu skref.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar