Ágreiningur um skipulagslýsingu vegna Gunnarshólma í bæjarstjórn Kópavogs

Tillaga að skipulagslýsingu fyrir breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Gunnarshólma í Kópavogi hefur skapað núning innan bæjarstjórnar Kópavogs á síðustu vikum. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti að senda skipulagslýsinguna til svæðisskipulagsnefndar, þrátt fyrir gagnrýni minnihlutans sem telur að ferlið hafi verið unnið á forsendum fjárfesta fremur en bæjarins sjálfs.

Um hvað snýst málið?

Gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins var samþykkt í júní 2015 og er sameiginleg stefna sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kjósahrepps, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Seltjarnarness og gildir til 2040. Í svæðisskipulaginu er lögð megináhersla á að fólksfjölgun verði mætt þannig að byggðin dreifi ekki óhóflega úr sér og samhliða voru samþykkt vaxtamörk höfuðborgarsvæðisins.

Með samþykktri skipulagslýsingu, sem hefur verið send til svæðisskipulagsins, er Kópavogur að stíga fyrsta skrefið í að óska eftir færslu á vaxtarmörkum sveitarfélagsins norðan Suðurlandsvegar, þar sem fyrirhugað er að reisa svokallaðan „lífsgæðakjarna“ í samvinnu við Aflvaka þróunarfélag ehf. Á svæðinu stendur til að reisa íbúðir ásamt húsnæði fyrir nýsköpun, heilsu- og þjónustustarfsemi sérstaklega sniðið að þörfum fólks á þriðja og fjórða æviskeiði.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er lýsingin unnin í samstarfi við landeigendur á Gunnarshólma, og liggur fyrir áhættumat vegna vatnsverndar frá Vatnaskilum, flóðagreiningar og skýrslur sérfræðinga um hættumat svæðisins. Kópavogsbær er með því að skila ítarlegri gögnum en almenn skipulagslög kalla á um þegar kemur að skipulagslýsingu. Ef samþykkt verður að auglýsa skipulagslýsinguna verður hún send til kynningar og umsagnar allra hagaðila og íbúa. Það væri fyrsta umferðin af þremur í lögformlegu skipulagsferli.

Minnihlutinn gagnrýnir að ekki hafi verið tryggt að hagsmunir bæjarbúa séu í forgrunni

Þrátt fyrir allt hefur minnihluti bæjarstjórnar gagnrýnt að ekki hafi verið farið nægilega djúpt í mat á samfélagslegum áhrifum verkefnisins og þá hefur Kolbeinn Reginsson bæjarfulltrúi Vina fólksins áhyggjur að undir svæðinu séu vatnsstraumar sem liggja til Gvendarbrunnanna, mikilvægasta auðlind höfuðborgarinnar.

Bæjarstjórn samþykkir að senda málið áfram

Eftir umræður og ágreining var skipulagslýsingin samþykkt í bæjarstjórn með 6 atkvæðum gegn 5. Málið verður nú sent svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins, þar sem frekari greining og samráð við hagsmunaaðila mun eiga sér stað.

Þó meirihlutinn telji ferlið eðlilegt og tryggt með viðeigandi samráði, hefur minnihlutinn lýst yfir áhyggjum sínum af því að breytingin sé of fljótfær og að ekki hafi verið tryggt að hagsmunir bæjarbúa séu í forgrunni.

Hjördís Ýr Johnson, formaður skipulags- og umhverfisráðs í Kópavogi

En hvað segir Hjördís Ýr Johnson formaður Skipulags- og umhverfisráðs í Kópavogi – Hvers vegna telur meirihluti í bæjarstjórn Kópavogs mikilvægt að færa vaxtarmörk sveitarfélagsins og heimila uppbyggingu á Gunnarshólma? ,,Það eru tæp 10 ár síðan svæðisskipulagið og vaxtamörk höfuðborgarsvæðisins voru samþykkt. Frá þeim tíma hefur fólksfjölgun hins vegar verið langt umfram það sem gert var ráð fyrir og íbúðaþörfin því verið stórlega vanmetin. Afleiðingin er sú að uppbygging íbúða hefur engan veginn náð að halda í við þróunina með tilheyrandi áhrifum á íbúðaverð. Þá er mikilvægt að hafa í huga að byggingarhraði á þéttingarsvæðum er mjög hægur, en uppbygging í höfuðborginni hefur fyrst og fremst verið á slíkum svæðum. Samkvæmt HMS vantar nú þegar um 12-14 þúsund íbúðir og á hverju ári er fólksfjölgun umfram uppbygging þannig að íbúðaskuldin mun aukast áfram. Við í meirihlutanum í Kópavogi teljum því allar forsendur fyrir núverandi vaxtamörkum séu brostnar og nauðsynlegt að víkka þau út til að geta mætt íbúðarvandanum. Þá skiptir máli að sveitarfélög eins og Kópavogur, sem hafa burði og getu til að vaxa hratt geti mætt þörfinni. Innan núverandi vaxtamarka á hins vegar Kópavogur takmarkað land eftir. Því horfum við til uppbyggingar á Gunnarhólma,“ segir Hjördís.

Mikilvægt að mæta mismunandi búsetuþörfum með fjölbreyttum möguleikum

Hvernig passar þessi þróun við framtíðarsýn Kópavogs? ,,Verði hugmyndin um lífsgæðakjarna að veruleika teljum við hana bæði mikilvægt skref til að leysa húsnæðisvanda höfuðborgarsvæðisins og jafnframt spennandi valkost sem hefur ekki verið í boði áður. Það er mikilvægt að mæta mismunandi búsetuþörfum með fjölbreyttum möguleikum. Hér er um að ræða metnaðarfull áform sem passa vel við stefnu Kópavogsbæjar,“ segir hún.

Niðurstöður áhættumatsins sem nú liggja fyrir hafa gefið jákvæðar niðurstöður um möguleika á byggð á svæðinu án þess að ógna vatnsverndinni

Hefur Kópavogsbær sjálfur lagt sjálfstætt mat á áhrif þessa verkefnis eða er skipulagið alfarið unnið í samráði við fjárfesta og landeigendur? ,,Já, Kópavogsbær hefur lagt sjálfstætt mat á ýmsa þætti skipulagsins ásamt því að leggja sérstaka áherslu á vatnsvernd í undirbúningi verkefnisins, enda er vatnsverndin grundvallarforsenda fyrir byggð á Gunnarshólma og Geirlandi. Áður en fyrsta skrefið í ferlinu var stigið óskaði bærinn því eftir að könnuð yrðu áhrif uppbyggingar á vatnsverndaröryggissvæði. Nú liggur fyrir ítarlegt áhættumat sem Vatnaskil og VSÓ Ráðgjöf hafa unnið. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki algengt að vinna sem þessi fari fram áður en skipulagslýsing er unnin, en við töldum það hins vegar vera forsenda þess að hægt væri að vinna málið áfram. Niðurstöður áhættumatsins sem nú liggja fyrir hafa gefið jákvæðar niðurstöður um möguleika á byggð á svæðinu án þess að ógna vatnsverndinni og byggt á því var ákveðið að halda áfram að skoða forsendurnar fyrir verkefninu og hefja gerð skipulagslýsingar. Drögin af skipulagslýsingunni eru unnin af Kópavogsbæ í samvinnu við uppbyggingaraðilann sem er reyndar alvanalegt í vinnu sem þessari,“ segir Hjördís.

Við erum því á algjörum byrjunarreit með verkefnið.

Nú hefur minnihlutinn í bæjarstjórn lýst áhyggjum af því að áhættumat sé unnið út frá sjónarhóli fjárfesta en ekki bæjarfélagsins – hvað segir þú við þeirri gagnrýni? ,,Ég get ekki tekið undir það. Ferlið er rétt að byrja og þær rannsóknir hafa verið gerðar af fagaðilum á eftir að rýna af sérfræðingum og hagaðilum. Drögin að skipulagslýsingu fyrir breytingu á vaxtarmörkum fjalla m.a. um þær fjölmörgu áskoranir í skipulags- og umhverfismálum sem þarf að vinna með í skipulagsferlinu, sem dæmi þarf að huga að samgöngum, vatnsvernd, fjölbreytileika byggðar og samfélags, náttúruvá, lífríki og loftslagmálum. Við erum því á algjörum byrjunarreit með verkefnið,“ segir hún og bætir því við að ósk um breytingu á vaxtamörkum sé fyrsta skrefið á ítarlegu ferli þar sem fjöldinn allur af hagaðilum og sérfræðingum eru umsagnaraðilar.

Og Hjördís nefnir meðal annars:

  • Bæjarstjórnir og skipulagsráð á höfuðborgarsvæðinu.
  • Heilbrigðiseftirlit og heilbrigðisnefnd Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.
  • Heilbrigðiseftirlit og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur.
  • Framkvæmdastjórn vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu.
  • Samráðshópur SSH um vatnsvernd og nýtingu.
  • Veitur og aðrar vatnsveitur á höfuðborgarsvæðinu
  • Skipulagsstofnun
  • Veðurstofa Íslands 

Kópavogsbær sér kynningu á svæðisskipulagslýsingu sem fyrsta innlegg í að taka upplýsta ákvörðun um hvort raunhæft sé að halda áfram með verkefnið

Hvernig verður tryggt að íbúar og hagsmunaaðilar fái að hafa raunveruleg áhrif á þessa skipulagsbreytingu áður en endanleg ákvörðun er tekin? ,,Lögum samkvæmt ber okkur að fá okkar færustu sérfræðinga til að gefa umsagnir um verkefni. Ef samþykkt verður að auglýsa skipulagslýsinguna fáum við fram sjónarmið hagaðila og sérfræðinga, fyrirliggjandi gögn um vatnsvernd verða rýnd og niðurstöður sérfræðiskýrslna verða ræddar. Með samtali og samráði á kynningartíma gefst einnig tækifæri til að fara yfir þau viðfangsefni sem verða til skoðunar í áframhaldandi undirbúningsvinnu og draga fram þætti sem þarf að skoða betur. Auglýsing skipulagslýsingar verður fyrsta kynningin af þremur í skipulagsferlinu þar sem samráð verður haft við íbúa og hagsmunaaðilar. Kópavogsbær sér kynningu á svæðisskipulagslýsingu sem fyrsta innlegg í að taka upplýsta ákvörðun um hvort raunhæft sé að halda áfram með verkefnið,“ segir Hjördís.

Kópavogsbær hefur metnað og getu til að vaxa hratt og mæta þörfinni

Ef sveitarfélögin hafna breytingunni, hefur bæjarstjórn áform um að leita annarra leiða til uppbyggingar á þessu svæði? ,,Miðað við núverandi lög getum við ekki byggt á þessu svæði nema með heimild annarra sveitarfélaga, þó svæðið sé í landi Kópavogs. Ef sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafna breytingum á vaxtamörkum er ekki að sjá að við náum að leysa þann gríðarlega íbúðarvanda sem nú þegar er á höfuðborgarsvæðinu. Eins og áður segir eru forsendur vaxtamarka löngu brostnar, Kópavogsbær hefur metnað og getu til að vaxa hratt og mæta þörfinni, vandinn er sá að svæðið þar sem við getum vaxið einna hraðast er utan vaxtamarka og við þurfum því heimild annarra sveitarfélaga til þess. Þau sveitarfélög sem hafna breytingunni þurfa þá að svara fyrir það hvernig þau ætla að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði með öðrum leiðum,“ segir hún að lokum.

Framundan er ákvörðun um hvort breyta eigi vaxtarmörkunum og að þeirri ákvörðun koma öll sveitarfélögin. Ef tillagan hlýtur hljómgrunn má gera ráð fyrir áframhaldandi umræðum um skipulagsmál Gunnarshólma innan bæjarstjórnar Kópavogs.

Mynd. Gunnarshólmi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins