Á fundi bæjarráðs í síðustu var lögð fram beiðni Hestamannafélaginu Spretti um styrk að upphæð kr. 1.000.000,- vegna Landsmóts Hestamanna sem hófst sl. mánudag, 1. júlí, en mótinu lýkur á sunnudaginn 7. júlí. Það er Hestamannfélagið Sprettur sem heldur Landsmót hestamanna í samstarfi með hestamannafélagið Fák. Mótið er haldið á félagssvæði Fáks. en verkefnið er samvinnuverkefni milli félaganna sem eru í Garðabæ, Kópavogi og í Reykjavík.
Bæjarráð samþykkti að veita styrk að upphæð kr. 1.000.000, en hafnaði að sama skapi boðsmiðum handa bæjarstjóra, formanni bæjarráðs og deildarstjóra íþróttadeildar eins og kemur fram í eftirfarandi bókun ráðsins.
,,Í meðfylgjandi styrkbeiðni er þess getið að bæjarstjóra, formanni bæjarráðs og deildarstjóra íþróttadeildar verði afhentir boðsmiðar fyrir tvo á mótið. Samkvæmt siðareglum kjörinna fulltrúa í Kópavogi er fulltrúum óheimilt að þiggja gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá þeim sem leita eftir þjónustu bæjarins, ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu. Miðarnir eru því afþakkaðir. „
Í styrktarbeiðninni sem barst bæjarráði frá Jónínu Björk Vilhjálmsdóttur formanni Spretts segir m.a. að Landsmót hestamanna sé haldið annað hvert ár og skiptist á milli þess að vera haldið á suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og á norðurlandi. ,,Langt og strangt umsóknarferli er fyrir þá sem taka að sér landsmót og mikill heiður að fá þetta krefjandi verkefni. Við sækjum hér með til bæjarfélagsins um styrk að upphæð 1.000.000 krónur. Við viljum hafa bæjarfélögin sem koma að mótinu sýnileg á mótstað og vera með merki Kópavogs við hlið hinna bæjarfélaganna sem standa að mótinu svo sem í fánaborg ofl. Sýnileiki Kópavogs teljum við mikilvægan í því ljósi að segja út á við að það er gott að vera hestamaður í Kópavogi og að sveitafélagið stendur á bak við stórmótið eins og rætt var í upphafi. Aukalega langar mig að nefna að bæjarstjóra, formanni bæjarráðs og deildarstjóra íþróttadeildar hjá Kópavogi verða afhentir boðsmiði fyrir tvo á mótið í næstu viku.
Sprettarar lána gestum hesthúsin sín
Það tíðkast í okkar íþróttagrein að hestamannafélögin taka það að sér að halda þessa stórviðburði annað hvert ár og teljum við það vera samfélagsleg ábyrgð okkar, sem eitt stærsta hestamannafélag á Íslandi, að taka þetta verkefni að okkur. Þetta er risa stórt verkefni sem við skorumst ekki undan og hefur kallað á ómælda vinnu og skipulag. Landsmót hestamanna er sögulegt mót og á rætur að rekja til Þingvalla árið 1950. Hestafólki finnst mikilvægt að við höldum þessari sögu og menningu lifandi með að halda Landsmót og þar með fóstra kraftinn. Landsmót hestamanna er stærsta upplifunin sem yngri flokkar komast í kynni við og er einn stærsti íþróttaviðburður landsins. Landssamband hestamanna er fjórða stærsta sérsamband ÍSÍ með meira en 12.000 félagsmenn. Búist er við 8.000 – 10.000 mótsgestum, flestir eru Íslendingar, en árið 2022 komu gestir á mótið frá 17 löndum. Við í Spretti erum gestgjafar og lánum hesthúsin okkar og aðstöðuna þó mótsvæðið sjálft sé hjá Fáki. Við gerum ráð fyrir að 500 knapar og um 1.000 hross séu koma á mótið í júlí.
Sprettur sendir á mótið 34 börn, unglinga og ungmenni og 28 knapa í fullorðinsflokkum
Mótið er stærsti auglýsingagluggi Íslandshestamennskunnar á heimsvísu. Um 30 ólíkir fjölmiðlar mæta á mótið bæði erlendir og innlendir. Mótið er vettvangur þar sem knapar í barnaflokki, unglingaflokki, ungmennaflokki og fullorðinsflokki koma og keppa í gæðingakeppni við knapa úr öllum hestamannafélögum á landinu. Sprettur sendir á mótið 34 börn, unglinga og ungmenni til að keppa fyrir hönd Spretts og 28 knapa í fullorðinsflokkum. Þetta er einn stærsti hópur keppanda í yngri flokkum frá einstöku félagi á mótinu. Þessi fjöldi talar saman við aukinn fjölda iðkenda hjá hestamannafélaginu en nýverið tókum við saman fjölda virkra iðkenda á námskeiðum Spretts og sáum að það er 70% aukning frá síðustu samantekt. Sprettur á flesta knapa í u21 árs landsliðinu sem og í hæfileikamótun LH. Mikilvægt er að halda áframhaldandi sýnileika út á við og að knaparnir í Spretti finna að sveitarfélögin þeirra standa við bakið á þeim og mótinu. Það er mikil spenna fyrir Landsmóti og félagsmenn leggja margir hönd á plóg við að láta viðburðinn ganga sem best upp, flestir í sjálfboðavinnu,“ segir í erindi Jónínu Bjarkar.