Ætlum að reyna að endurtaka leikinn og láta þetta verða hundleiðinlegt Íslandsmót – segir Höskuldur fyrirliði Breiðabliks

Besta deild karla er að hefjast mánudaginn 10. apríl nk. með heilli umferð, en lokaleikur umferðarinnar er kl. 20 á Kópavogvelli og er það sannkallaður nágrannaslagur því Breiðablik fær HK í heimsókn.

Kópavogspósturinn tók stöðuna á fyrirliða Breiðabliks, Höskuldi Gunnlaugssyni og byrjaði á því að spyrja hann hvernig honum litist á komandi sumar fyrir hönd Blika? ,,Það er mikil tilhlökkun, bjartsýni og fókus í mann- skapnum þannig að við erum klárir í slaginn,” segir Höskuld.

Já, en það er þó erfitt að segja

Þið eigið titil að verja, áttu von á meiri samkeppni í ár en í fyrra? ,,Já, en það er þó erfitt að segja. Önnur lið vilja klárlega gera betur og veita okkur meiri samkeppni en var í fyrra. Það er ekkert mjög algengt að lið vinni með svona miklum yfirburðum og því má búast við því að liðin veiti okkur harðar samkeppni, en við ætlum að reyna að endurtaka leikinn og láta þetta verða hundleiðinlegt mót fyrir hinn almenna áhorfenda,” segir hann brosandi, en þó með fullri alvöru.

Hafa orðið miklar breytingar á liðinu á milli ára og komið þið með jafn sterkt lið til leiks í ár? ,,Svona almennt finnst mér lítið hafa breyst hjá okkur hvað varðar allan grunn og hugmyndafræði, sem er megin kjarninn í leik okkar, það er sama upp á teningnum. Við erum trúir sjálfum okkur í því sem við erum að gera og við erum bara að vera betri í því. En vissulega hafa orðið mannabreytingar í leikmannahópnum og virkilega öflugir leikmenn horfið á brott og farið í lið erlendis. En að sama skapi hefur líka komið góður kjarni af nýjum leikmönnum, bæði fyrirverandi Blikar sem þekkja umhverfið vel og svo nýir leikmenn sem hafa komið mjög sterkir inn í hópinn og lyfta ránni enn hærra. Ég met það svo að það sé í raun komin enn meiri samkeppni innan hópsins. Þannig að veturinn og undirbúningstímabilið er búið að vera mjög kröftugt hjá okkur.”

Leikmenn eru auðmjúkur og þakklátir

Nú tala margir um að Breiðablik hafi á að skipa 24 mjög öflugum leikmönn-um og þið eru því með mjög góðan og stóran hóp. Er hægt að hafa halda öllum sáttum því vissulega fá leikmenn mis mikinn spilatíma – gæti verið snúin staða? ,,Jú, auðvitað er það snúið, en það er aðallega hausverkur þjálfara- teymissins. En ef þú vilt innherjarupplýsingar úr leikmannahópnum þá er stemmningin mjög góð, menn eru auð- mjúkur og samtímis þakklátir að fá að vera partur af svona sterkum hóp og metnaðarfullu liði þar sem markið er sett hátt. Þannig að það hefur ekki verið neitt svigrúm fyrir einhverja fílugirni, öfundsýki, afbrýðissemi eða hvað sem er hægt að kalla þetta. Svo eru alltaf einhverjir meiddir og leikjaálagið er mikið þannig að það eru ekki alltaf allir leikmenn heilir. Og af fenginni reynslu að þá er mjög gott að hafa breiðan hóp. Þannig að þjálfararnir vita alveg hvað þeir eru að gera með því að hafa svona stóran og breiðan hóp af góðum leikmönnum.”

Eitthvað um meiðsli í leikmannahópnum

Nú er mótið að byrja 10. apríl, eruð þið búnir að slípa liðið saman fyrir fyrsta leik? ,,Já, það held ég. Það eru einhver meiðsli. Kiddi Steindórs er meiddur og frá í einhvern tíma, Jason er að koma til baka eftir sprautu og Davíð Ingvars er að jafna sig eftir aðgerð. Svo hafa verið minni meiðsli, en lang flestir hafa þó náð heilu undirbúningstímabili svona minna og meira og eru klárir í slaginn. Hópurinn er því klárlega að slípast saman og klár fyrir fyrsta leik.”

Þetta er hinn fullkomni opnunarleikur

Og fyrstu leikur verður nágrannaslagur við HK á Kópavogsvelli, hvernig verður að mæta grönnum ykkar HK í fyrsta leik? ,,Jú, ég mundi segja að þetta væri hinn fullkomni opnunarleikur, fullur völlur og tvö öflug lið að mætast. Þetta verður mjög erfiður leikur fyrir okkur enda rimmurnar á milli þessar tveggja liða hafa verið sögulegar. Þetta verður bara eins og úrslitaleikur í bikar. Þetta eru alltaf skemmtilegir leikir, svona alvöru nágrannaslagur.”

Þetta er kannski ekki alveg kjörið fyrir okkur en við erum þó ekkert að gráta það

Leikurinn við HK verður síðasti heimaleikur ykkar á núverandi gervigrasvelli, en hafist verður handa við að skipta um gras 11. apríl nk. Þetta er nauðsynleg endurnýjun til að tryggja að völlurinn standist kröfur í Evrópukeppni. Það þarf því að færa eða víxla tveimur leikjum hjá ykkur meðan á framkvæmdum stendur. Heldurðu að þetta muni hafa áhrif á liðið, að leika nokkra leiki í röð á erfiðum útivöllum og hvar munið þið æfa þessar fjórar vikur á meðan framkvæmdum stendur? ,,Þetta kannski ekki alveg kjörið fyrir okkur en við erum þó ekkert að gráta það. Það er bara frábært að fá nýtt gervigras á völlinn og við lítum bara á þetta sem sóknartækifæri fyrir okkur, að gera vel á þessum útvöllum og eiga þá vígið, sem heimavöllurinn okkur er, inni. Þetta verður alltaf á endanum þannig að við munum leika jafn marga leiki á heimavelli og útivelli,” segir Höskuldur og bætir við að liðið muni æfa í Fífunni á meðan framkvæmdir standa yfir svo það verði ekkert vandamál.

En hvað með markmiðin ykkar, þið ætlið að vinna Íslandsmeistaratitilinn aftur, en er stefnan á að gera betur í bikarnum og í Evrópu? ,,Já, það eru þær kröfur sem við höfum sett okkur, að verða aðeins betri og geta því tekið titilinn aftur og náð lengra í bikarkeppninni og Evrópu. Það er markmiðið.”

Maður er bara á bleiku skýi þessa dagana

Hvað svo með fyrirliðann sjálfan, Höskuld, er hann búinn að vera heill heilsu í vetur og tilbúinn í Bestu deildina? ,,Ég hef náð 99% af þessu undirbúningstímabili og hef því getað æft vel. Ég er í dúndurformi og er alltaf jafn spenntur og peppaður fyrir fótbolta. Það er mikil tilhlökkun í mér og gaman að mótið sé að fara af stað. Maður er bara á bleiku skýi þessa dagana þegar svona stutt er orðið í Bestu-deildina,” segir Höskuldur að lokum.

Mynd: ,,Önnur lið vilja klárlega gera betur og veita okkur meiri samkeppni en var í fyrra,“ segir Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar