Aðsóknin var slík að setið var í öllum tröppum og út að dyrum – Tónleikaröðin Sumarjazz í Salnum hófst með stæl

Tónleikaröðin Sumarjazz í Salnum hófst 13. júní síðastliðinn – og það með stæl. Kársnesbúinn Sigtryggur Baldursson, betur þekktur sem Bogomil Font, fékk félaga sína Einar Scheving, Pálma Sigurhjartarson, Jóel Pálsson og Birgi Stein Theódórsson til að stíga á svið og flytja gestum ljúfa tóna með suðrænni sveiflu. Slagarar á við ‚Ó borg mín borg‘, ‚Við gengum tvö‘ og auðvitað ‚Marsbúarnir‘ sjálfir ómuðu um troðfullan forsalinn en aðsóknin var slík að setið var í öllum tröppum og út að dyrum.

Leikurinn var svo endurtekinn fimmtudaginn síðastliðinn þegar Ingibjörg Elsa Turchi mætti með sína hljómsveit; Magnús Jóhann Ragnarsson, Tuma Árnason, Hróðmar Sigurðsson, Kristófer Matthías Hemstock og Kristofer Rodriguez Svövuson en í þetta skipti var tónlistin bæði öflugri og tilraunakenndari. Bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Turchi hefur verið sýnileg í íslensku tónlistarlífi síðustu ár og hefur komið fram með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar en þennan fimmtudaginn fylgdu henni tvenn trommusett og krafturinn eftir því – enda Bæjarlistarmaður Kópavogsbæjar 2024, Kristofer, á öðru settinu.

Jazzveislan heldur svo áfram í fjórar vikur til viðbótar en í dag, fimmtudaginn 27.júní, stígur MOVE, kvartett Óskars Guðjónssonar, á svið en þeir síðustu sjö ár hafa MOVE meðlimirnir Eyþór Gunnarsson, Matthías Hemstock, Valdi Kolli og Óskar Guðjónsson sett upp tilraunastofu í Hraunbænum, fyrst til að setja saman lög og vinna sameiginlega í þeim þar til strúktúr fannst sem áhugavert var að vinna með, en í kjölfarið þurftu þeir svo „að læra þau og spila nægilega oft að hægt væri að aflæra þau svo hægt væri að vinna með þau sem nýtt hráefni í hvert skipti sem samt héldi textúru.“

Tónleikaröðin Sumarjazz í Salnum hófst 13. júní síðastliðinn – og það með stæl og fullu húsi

4. júlí stígur svo Tríó Kristjönu Stefáns á stokk en til Kristjana mætir ásamt félögum sínum þeim Tómasi Jónssyni píanóleikara og Þorgrími Jónssyni kontrabassaleikara og munu þau leika vel valda jazzstandarda eins og þeim einum er lagið.

Kvartett Edgars Rugajs tekur svo við 11. júlí en Edgars er jazzgítarleikari, spunatónlistarmaður, tónskáld og kennari frá Lettlandi. Hann hefur verið búsettur á Íslandi í rúm fjögur ár og tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi með tónleikahaldi, tónlistarkennslu og öðrum listrænum verkefnum en hann hefur meðal annars verið listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Far Out / Langt út á Egilsstöðum. Edgars Rugajs sækir í jazzhefðir og frjálsan spuna í tónlist sinni.

Við klárum svo jazzveisluna þann 18. júlí með hljómsveitinni Los Bomboneros. Hljómsveitina skipa Alexandra Kjeld (söngur, bassi), Daníel Helgason (tresgítar), Kristofer Rodriguez Svönuson (slagverk) og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir (básúna, fiðla, söngur). Hljómsveitin hefur sérhæft sig í tónlist Mið- og Suður-Ameríku ásamt frumsömdu efni og hefur koma víða fram við miklar vinsældir tónleikagesta en tónleikar sveitarinnar eiga það gjarnan til að breytast í funheitt danspartý.

Frítt er inn á alla þess viðburði en þeir standa yfir milli 17:00 og 18:00 í forsal Salarins í Kópavogi.

Tónleikaröðin Sumarjazz í Salnum er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar