Að vinna öll áhöld á Norður-Evrópumótinu það kom mér mjög mikið á óvart og var það líklega hápunktur ársins – segir Thelma Aðalsteinsdóttir íþróttkona Kópavogs 2024

Thelma Aðalsteinsdóttir, fimleikakona úr Gerplu var valin íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2024 á Íþróttahátíð Kópavog og Kópavogspósturinn spjallið við þessa frábæru fimleikakonu.

Thelma Aðalsteinsdóttir átti frábært fimleikaár 2024. Hún varð Íslandsmeistari í fjölþraut í þriðja sinn, Íslandsmeistari á stökki, slá og gólfi. Hún varð einnig bikarmeistari með liði sínu í Gerplu. Hún varð Norðurlandameistari í liðakeppni og Norðurlandameistari á gólfi. Thelma varð Norður Evrópumeistari á öllum áhöldum og hlaut annað sæti í fjölþraut. Er þetta sögulegur árangur og besti árangur keppanda frá Íslandi. Thelma keppti á Evrópumótinu á Ítalíu þar sem hún endaði í 41. sæti og var hársbreidd frá því að tryggja sig inná ólympíuleikana í París. Á Evrópumótinu framkvæmdi hún æfingu á tvíslá sem þar var nefnd eftir henni „Aðalsteinsdóttir“. Í lok árs var Thelma svo valin fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands.

Viðurkenningar eru mikil hvatning

Hvað segir svo íþróttakona Kópavogs árið 2024 – þú ert væntanlega ánægð með þessa viðurkenningu og ertu kannski búin að fá nóg af viðurkenningum fyrir árið 2024? ,,Ég er mjög ánægð með þessa viðurkenningu og átti í raun alls ekki von á henni í ár þar sem að það var svo góður árangur hjá mörgum árið 2024 í Kópavogi. En nei maður fær held ég aldrei nóg af viðurkenningum. Gaman og mikil hvatning áfram að fá viðurkenningar fyrir alla vinnuna sem maður hefur lagt inn,“ segir Thelma  

Þetta var hreint út sagt magnað ár hjá þér, hljómuðu væntingar þínar og markmið eitthvað þessu líkt þegar þú varst að leggja línurnar í lok árs 2023 fyrir árið 2024? ,,Nei, alls ekki sérstaklega ekki að vinna öll áhöld á Norður-Evrópumótinu það kom mér mjög mikið á óvart og var það líklega hápunktur ársins.“

Geri æfingar sem ég ræð við og næ að endurtaka

Þú varðst 24 ára í sl. desember og ert að ná þínum besta árangri frá upphafi, ertu í stöðugri framför – hvernig útskýrir þú þessar framfarir, hvað hefurðu helst verið að bæta? ,,Ég hef mest verið að bæta það að gera æfingarnar hreinni. Við höfum valið og lært af mistökum frá síðustu árum og það er að vera ekki með of erfiðar æfingar í æfingunum. Það byggði bara upp meira stress og óöryggi hjá mér að vita að ég væri ekki tilbúin með æfingarnar, en ég myndi segja að það sem við höfum verið að gera er að ég er að gera æfingar sem ég ræð við og næ að endurtaka oftar.“

Setti móment í fimleikabókina

Ef þú horfir til baka til ársins 2024 og þú mættir velja eitthvað eitt, hvað stendur þá upp úr á árinu – hvaða árangur fannst þér vænst um? ,,Mér þykir vænst um að ég setti móment í fimleikabókina vegna þess að það er eitthvað sem mun alltaf vera til og mun ég ávallt muna eftir því,“ segir hún brosandi.

Það er líklegast svolítið erfitt fyrir suma að bera Aðalsteinsdóttir fram

Og þetta móment í fimleikabókinas sem þú nefnir var einmitt æfingin sem þú framkvæmdir á tvíslá á Evrópumótinu og var nefnd í höfuðuð á þér, Aðalsteinsdóttir. Mikill heiður af því en var ekki fimleikafólki gerður hálfgerður óleikur með því að nefna æfingu eftir föðurnafni þínu, Aðalsteinsdóttir. Hvernig heldurðu að þeim gangi að bera nafnið fram og hefði ekki æfingin í raun átt að heita Thelma, svona þjálla fyrir alla? ,,Það er líklegast svolítið erfitt fyrir suma að bera Aðalsteinsdóttir fram ,“ segir hún brosir áður hún heldur áfram: ,,En þó ekki fyrir alla því fólkið frá Bandaríkjunum, sem hefur verið að tala um mig í hljóðvörpum og kynnt mig og lesið nafnið mitt á stórmótum hafa sagt það frekar vel svo ég held þetta verði ekkert vandamál. En það er vaninn í fimleikaheiminum að eftirnafnið er sett á æfinguna.“

Fimleikar eru frekar hættuleg íþrótt og ef að hausinn er ekki á réttum stað að þá getur eitthvað komið fyrir

Áhaldafimleikar eru gríðarlega líkamlega erfiðir en það reynir að sjálfsögðu á andlegu hliðina líka, bara að mana sig upp og þora að taka öll þessi ótrúlega erfiðu stökk, jafnvægissláin og svo framvegis. Finnur þú fyrir þessu og hvernig vinnur þú með þetta? ,,Mér finnst oftast erfiðast að byrja á æfingu, í upphafi æfingarinnar er ég smá þreytt t.d eftir skóladaginn eða vinnudaginn en þegar ég er byrjuð á æfingu að þá er þetta oftast ekkert mál. En ef ég finn fyrir verulegri þreytu í hausnum eftir að hafa verið að læra allann daginn t.d að þá er alveg tekið tillit til þess og fundið lausn á því vegna þess að fimleikar eru frekar hættuleg íþrótt og ef að hausinn er ekki á réttum stað að þá getur eitthvað komið fyrir svo að ég geri mér fulla grein fyrir því sérstaklega eftir því sem ég eldist að þá átta ég mig meira og meira á því að ég þarf að fara meira varlega.“

Nýtt ár framundan, hvert stefnir Thelma og er alltaf hægt að gera betur? ,,Úff ég veit það ekki, ég er enn að koma til baka eftir olnbogameiðsli. Ég datt s.s.úr olnbogalið í október svo ég er enn að ná mér eftir það. En þetta er allt að koma og vonandi get ég verið með á keppnistímabilinu á árinu sem er að byrja.“

Ég er svolítið að vinna með það hugafar, bara að njóta þess að gera þetta á meðan ég get

Ertu einbeitt að bæta þig í einhverjum ákveðnum hlutum á árinu sem þú veist að þú getur gert betur eða bara bæta sig í öllum þáttum? ,,Ég er meira að hugsa um að gera sömu hlutina og ég var að gera á síðatsa tímabili nema ég þarf að bæta inn 1 stökkseríu við gólfæfinguna mína. Ég þarf að einblína svolítið á það annars er ekkert sem stendur upp úr til að bæta sig í. Sjáum hvert straumurinn tekur mig – ég er svolítið að vinna með það hugafar, bara að njóta þess að gera þetta á meðan ég get.“

Thelma ásamt Elísabetu Sveinsdóttur forseta bæjarstjórnar og Sverri Kára Karlssyni formanni íþróttaráðs

Auðvitað langar manni að gera betur, en maður verður að hugsa rökrétt

En eftir svona ótrúlegt ár – er þá ekki nokkur pressa og jafnvel stress að fylgja þessum frábæra árangri eftir og jafnvel að reyna að gera betur? ,,Já, ég myndi segja það en það ætti ekki að vera. Ég set vissulega háar kröfur á mig svo að það er líklegast meira það sem er að stressa mig, en eitthvað annað. Auðvitað langar manni að gera betur, en maður verður að hugsa rökrétt og maður getur ekki alltaf verið á toppnum, maður þarf líka aðeins að gefa líkamanum hvíld.“

Og hvernig er svo dagskráin hjá þér fyrir árið 2025 eins og staðan er í dag og ertu spennt fyrir árinu – full tilhökkunar? ,,Það er Bikarmót í mars og Íslandsmót í apríl svo vonandi get ég keppt á þeim mótum. Síðan er Evrópumót og vonandi heimsbikarmót í sumar. Ég er spennt en einnig smá stressuð hvernig þetta mun púslast saman vegna þess að ég er að byrja á BS verkefninu mínu í skólanum og er þá í skólanum lengi og mun því kannski ekki ná að fara á æfingar á þeim dögum sem ég mun vera lengi í skólanum. En við finnum lausn á því vonandi,“ segir hún Thelma Aðalsteinsdóttir, íþróttkona Kópavogs 2024.
 
Sjá má ítarlegt viðtal við Thelmu í Kópavogspóstinum 3. október sl. og inn á vefsíðunni www.kgp.is frá 3. október 2024 eftir að hún hafði skrifað sig í sögubækurnar með mögnuðum árangri á Norður-Evrópumeistarimóti landsliðia í áhaldafimleikum, en þá vann hún til gullverðlauna á öllum fjórum áhöldunum. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar