Ábyrgur rekstur skilar betri þjónustu til þín

Nýlega fór ég og skoðaði leikskólann Aðalþing sem er líklega mest verðlaunaði leikskóli landsins. Leikskólinn Aðalþing vann Íslensku menntaverðlaunin í fyrra fyrir framúrskarandi skólastarf og lýðræðislega stjórnarhætti. Á degi leikskólans 6. febrúar síðast liðinn, vann Aðalþing svo Orðsporið fyrir framsækið skólastarf og metnað í starfsþróun og umbótastarfi.

Almennt er rekstrarform á leikskólum Kópavogsbæjar þrenns konar, eignarhald og rekstur á vegum bæjarins, eignarhald og rekstur á vegum einkaaðila, eða þjónusturekstur / blandað þar sem bærinn á fasteign og lóð og leikskólinn er rekinn af einkaaðilum eftir þjónustusamningi við bæinn og greidd er leiga fyrir afnot af eignunum. Leik-skólinn Aðalþing er rekinn eftir þjónustusamningi við Kópavogsbæ.

Ég hef áður skrifað um leikskólann Undraland sem var einkarekinn leikskóli í Kópavogi. Ég hafði sjálfur reynslu af þeim leikskóla og bauð hann upp á frábært faglegt starf. Leikskólinn Undraland lokaði sumarið 2021, bærinn keypti húsnæði leikskólans og rekur þar annan leikskóla.

Dæmi eru um að áhrifin af slíkum breytingum geti bæði falið í sér þjónustuskerðingu og einnig hækkuð gjöld til foreldra. Áhrifin sem áðurnefnd breyting vegna lokunar Undralands hafði á rekstur Kópavogsbæjar má sjá í fyrirliggjandi gögnum frá bænum, reikningum til foreldra og verðskrá samband íslenskra sveitarfélaga. Kostnaður við hvert barn er hærra hjá Kópavogsbæ en það var á leikskólanum Undralandi, eða bara hreint út, kostnaður bæjarins hækkaði. Fyrir mig sem foreldri, skattgreiðanda, Kópavogsbúa, rekstrarmann, áhugamann um leikskóla málin, og nú síðast frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi er virkilega sorglegt að horfa upp á þetta gerast.

Fögnum fjölbreytilegum rekstrarformum og höldum því hátt sem er einstaklega vel gert.

Kjörnir fulltrúar eiga stöðugt að vera að leita leiða til að auka skilvirkni í rekstrinum og spyrja sig hvernig megi bæta þjónustu við íbúa fyrir sama fjármagn eða halda sömu þjónustu fyrir minna fjármagn. Ef einkaaðilar geta tekið að sér rekstur á leikskóla, skóla, hjúkrunarheimili eða aðra þjónustu hjá bænum með skilvirkari hætti, er það mín skoðun að kjörnir fulltrúar geti ekki hundsað það. Einkaframtakið verður ekki hundsað.

Ég óska eftir stuðningi í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Sigvaldi Egill Lárusson.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar